
Ásta Fanney Sigurðardóttir
Ásta Fanney Sigurðardóttir er fædd árið 1987. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Ásta hefur birt ljóð í tímaritinu Stínu og í kvæðasöfnunum Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík og Þokulúður. Hún er ein af stofnendum Kunstschlager gallerís í Reykjavík.
Fyrsta ljóðabók Ástu, Herra Hjúkket (2012), kom út í seríu Meðgönguljóða. Henni var ritstýrt af Valgerði Þóroddsdóttur. Til viðbótar hefur Ásta sent frá sér bókverkið Kaos Lexicon og ljóðabókina Eilífðarnón sem er fyrsta ljóðabók hennar í fullri lengd. Í viðtali af tilefni útgáfu Eilífðarnóns fjallar Ásta um tilurð bókarinnar og segir: „Hún er ekki beint skrifuð af mér heldur meira eins og skilaboð eða afurð sem átti að vera til. Ég var bara ljóðaþjónn að útskýra það […]. Þetta fjallar að hluta til um skilning á tilveru og tíma, gildrur, lykla og leiðarvísa um hugsanir. Þá list að vera til þegar það er auðvelt að stíga í þá gildru að vera klofin vera sem er föst í þátíð eða framtíð. Eilífðin er annar skilningur á tíma og eilífðarnón er punktur, blekking og sannleikur í senn. Kannski staður á milli svefns og vöku.“ Bókin vitnar að mörgu leyti um myndlistarbakgrunn skáldkonunnar; dregnar eru upp forvitnilegar og óvenjulegar myndir og leikið er með útlit texta og hönnunar.
Heimild: Vefsíða Partusar
Ritaskrá
- 2019 Eilífðarnón
- 2017 Kaos Lexicon (bókverk)
- 2012 Herra Hjúkket