SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hrefna Sigurðardóttir

Kristjana Hrefna Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist 21. maí 1920 í Laufási, Þingeyri við Dýrafjörð.

Hrefna ólst upp á Þingeyri, samdi og söng lög með systur sinni sem barn, en var afar fjölhæf listakona, samdi ljóð og lög, lék á píanó og gítar, munnhörpu og harmonikku. Mesta áherslu lagði hún á myndlistina, einkum vatnslita- og tússmyndir á pappír, en einnig á tréplötur.

Hrefna tók mikinn þátt í leikhús- og kórastarfi á Patreksfirði, Kópavogi og í Reykjavík og spilaði á gítar og söng með hópi af konum í einu atriði í kvikmyndinni Stella í orlofi. Hrefnu var afar umhugað um að halda uppi fjöri og skemmtilegheitum hvar sem hún var stödd í það og það skiptið, hvort sem það var í fjölskylduboðum, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði eða með vinum í leikhúsinu eða á kóræfingu.

Hrefna vandi sig á að kveðja fjölskylduna eftir matarboð með nýjum ljóðum og vísum, en í seinni tíð hélt hún sig við sömu vísuna, þar sem hún þakkaði fyrir allra hönd:

                                      
                                       Fyrir okkar allra hönd,
                                       einnig vil ég segja:
                                       Á borðið legg ég blómavönd,
                                       blóm sem aldrei deyja. 
 

Hrefna var alþýðulistamaður og hélt Safnasafnið við Eyjafjörð tvisvar sinnum sýningar með verkum hennar. Í seinna skiptið var um einkasýningu að ræða sumarið áður en hún lést.

Hrefna gaf út þrjár ljóðabækur, mest rímuð ljóð í tveim fyrri bókunum, en í seinustu bókinni fjölgar til muna órímuðum ljóðum. Nokkur tregi og dapurleiki einkennir fyrri tvær bækur hennar, en mun léttara er yfir þeirri síðustu.

Árið 1944 giftist Hrefna Kjartani Th. Ingimundarsyni, skipstjóra. Hann var einnig afar listfengur og eftir hann liggur mikið af ljóðum og vísum, en einnig mikið af málverkum og útskornum listaverkum. Hrefna og Kjartan eignuðust 5 börn.

Hrefna Sigurðardóttir lést 21. ágúst 2015.

 

 


Ritaskrá

  • 1985 Hinumegin götunnar
  • 1987 Grýtta gatan
  • 1991 Gatnamót