SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Þórarinsdóttir (Hjallalands-Helga)

Helga fæddist 13. apríl 1797 í Vatnsdalshólum og var dóttir Þórarins Jónssonar, sem nefndur var „Galdra-Þórarinn“ og bjó víða í Húnaþingi. Móðir Helgu og barnsmóðir Þórarins hét Helga Eyjólfsdóttir.

Helga ólst upp hjá móðurömmu sinni Helgu Sveinsdóttur á Másstöðum í Vatnsdal. Hún giftist Þorleifi Þorleifssyni frá Hjallalandi í Vatnsdal árið 1822. Bjuggu þau í Grundarkoti í Vatnsdal í nokkur ár, síðan á Leysingjastöðum í Þingi, en 1848 fluttu þau að Hjallalandi í Vatnsdal og voru þau kennd við þá jörð. Þau eignuðust 11 börn á 14 árum. Helga andaðist 30. september 1874.

Það hefur verið sagt að Helga hafi byrjað snemma að yrkja, en trúlega hefur megnið af ljóðum hennar orðið til eftir að börnin komust upp. Hún var þekkt undir nafninu Hjallalands-Helga, en stundum var hún þó kölluð Skáld-Helga. Erfiljóð sem hún orti eftir tvo syni sína birtust í Norðanfara í júlí 1863. Nokkur ljóðabréf skrifaði Helga og einnig orti hún í það minnsta einar rímur, Rímur af Partalópa og Marmoríu, fyrir Þorstein son sinn. Þá hefur Einar Bjarnason eignað Helgu Rímur af Konráði keisarasyni en þær eru nú ekki lengur kunnar. (Helstu heimildir: Hallgrímur Gíslason (f. 24. september 1948) á Kjarnagötu 36, Akureyri. Hjallalands-Helga var langalangamma hans; Sálnaregistur Undirfellssóknar; islendingabok.is; Húnvetningasaga Gísla Konráðssonar; Húnaþing III; Föðurtún; Norðanfari; Lögberg 1912–1913 og Lbs 2453 4to) Bragi, óðfræðivefur.

Fleyg er vísa Helgu um litlu Jörp. Á óðfræðivefnum Braga segir:

Sögn þessa skrifaði Margeir Jónsson eftir Ástríði Stefánsdóttur yfirsetukonu en henni sagði Helga Þórarinsdóttir, sonardóttir Hjallalands Helgu. „Þegar hún [Helga] var innan fermingaraldurs, sumir segja 11 – 12 ára, var hún hjá föður sínum á Geirastöðum í Húnaþingi, eignaði hún sér jarpt mer-folald undan gæðingshryssu sem faðir hennar átti. Folaldið var hið fríðasta og þótti Helgu litlu vænt um það. Var það þá einhverju sinni um sumarið, að tömdu hrossin voru rekin heim til notkunar og þegar telpan sá litlu Jörp sína kvað hún vísuna:“ 

Litla Jörp með lipran fót
labbar götu þvera.
Hún mun seinna á mannamót
mig í söðli bera.