SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna María Þórisdóttir

Anna María Þórisdóttir er fædd á Húsavík árið 1929. Hún ólst upp á Húsavík og á Þóroddsstað í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu.

Anna María lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1951 og kennaraprófi frá stúdentadeild Kennaraskóla Íslands árið eftir. Hún stundaði síðar nám í listasögu við Háskóla Íslands.

Anna María var kennari við Barnaskólann á Selfossi árið 1952-54 og vann skrifstofustörf á Veðurstofu Íslands 1954-56. Hún sat í ritnefnd Húsfreyjunnar í nokkur ár.

Anna María giftist Sigurði Sigfússyni verkfræðingi árið 1956 og þau eignuðust þrjár dætur.

Anna María hefur gefið út þrjár bækur. Að auki hefur hún hefur skrifað fjölda greina, smásagna og ljóða sem hafa verið flutt í úvarpi og birst m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, Samvinnunni, Vikunni, Fálkanum, Heima er best og Húsfreyjunni. Hún hefur einnig þýtt milli sjötíu og áttatíu smásögur.

Anna María gat sér í upphafi gott orð fyrir greinar sínar, "Krækiber", sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins á árunum 1972-81, en bækurnar Undir Dagmálalág og Í vistinni fylgdu í kjölfarið. Skrif Önnu Maríu eiga sér iðulega rætur í eigin lífi og upplifunum. Hún hefur lag á að birta hversdagsleg atvik í ljóðrænu ljósi og draga fram fegurð hins smáa.


Ritaskrá

  • 2002  Í vistinni: um dvöl í heimavist Menntaskólans á Akureyri
  • 1998  Undir dagmálalág: æskuminningar frá Húsavík
  • 1972-88  Krækiber: greinar um ýmis efni í Lesbók Morgunblaðsins