SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðný Sigurðardóttir

Guðný Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 22. ágúst árið 1915. Hún var yngst sex barna hjónanna Kristínar Jónsdóttur og Sigurðar Gíslasonar.

Guðný gekk í Kvennaskólann í Reykjavík. Tuttugu og eins árs gömul giftist Guðný Þórði Benediktssyni, þau eignuðust tvo syni og bjuggu alla tíð í Reykjavík.

Guðný stundaði ritstöf í frístundum sínum og voru sögur eftir hana lesnar í Ríkisútvarpinu. Smásögurnar "Minnisleysi" og "Kirkjugjaldið" birtist í Eimreiðinni árið 1941.

Guðný vann tvívegis til verðlauna í smásagnakeppni og þrjár skáldsögur eftir hana voru gefnar út. 

Í minningargrein um Guðnýju segir Kristín Sigurðardóttir að sögur Guðnýjar hafi einkennst "af næmum mannlegum skilningi, hlýleik og glettni með alvarlegu ívafi".

 Guðný lést 20. mars 1978, aðeins 63ja ára gömul.

Heimild: Minningarorð um Guðnýju Sigurðardóttur eftir Kristínu Sigurðardóttur, Morgunblaðið 31. mars 1978, bls. 29.

(Ef lesendur þekkja til Guðnýjar og gætu útvegað af henni ljósmynd, væri það vel þegið.)


Ritaskrá

  • 1975  Það er bara svona
  • 1973  Töfrabrosið
  • 1969  Dulin örlög