Elísabet Thoroddsen
Elísabet Thoroddsen er fædd 1981 og býr í Reykjavík. Hún ólst upp í Reykjavík og Danmörku þar sem hún lærði kvikmyndagerð.
Elísabet hefur starfað á ýmsum sviðum kvikmyndagerðar, en auk þess hefur hún meðal annars starfað við hugbúnaðarprófanir, jólakransabindingar, skrúfupökkun, vínsölu, þýðingar, samsetningu á gardínum, þrif, fiskvinnslu og ræktun í gróðurhúsum.
Á árunum 2019 - 2021 sat Elísabet í stjórn Hinsegin daga og sá um ritstjórn tímarits Hinsegin daga ásamt skipulagningu á viðburðum fyrir hátíðina. Hún er einnig stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Ukulellur og hefur skrifað fjölmarga lagatexta fyrir sveitina sem fluttir hafa verið á hátíðum bæði innan og utan landsteinanna. Textarnir fjalla flestir um lesbískar ástir og raunveruleika miðaldra kvenna.
Fyrsta skáldsaga Elísabetar Allt er svart í myrkrinu var gefin út 2022 og er spennusaga fyrir börn og unglinga. Tinna, aðalpersóna bókarinnar, er veðurteppt á sjúkrahúsi úti á landi þar sem hún kynnist Dóru, dóttur yfirlæknisins. Þær finna upp á alls konar að gera á meðan þær bíða eftir að óveðrið gangi yfir. Fúllyndur hjúkrunarfræðingur virðist alltaf vera á hælunum á þeim og drungalegir atburðir fara að gerast þegar þær hætta sér inn á deild spítalans sem er lokuð. Í bland við æsispennandi söguþráð bókarinnar fléttast ástarsaga milli þeirra Dóru og Tinnu.
Ritaskrá
- 2023 Á eftir dimmum skýjum
- 2022 Allt er svart í myrkrinu
Tilnefningar
- 2022 Til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Allt er svart í myrkrinu