SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Matthildur Björnsdóttir

Matthildur Björnsdóttir fæddist 12. júli árið 1947 á heimili ömmu sinnar og afa í Reykjavík. Foreldrar hennar gengu í hjónaband eftir fæðingu Matthildar og eignuðust fjórar dætur í viðbót.

Matthildur útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Austurbæjar árið 1961 og hóf síðan nám við húsmæðradeild Lindargötuskólans, eins og konum var gjarnan ætlað að gera á þeim árum. Hún lauk námi þaðan árið 1963.

Matthildur stefndi að því að verða hárgreiðslukona en náði ekki að ljúka því námi vegna skorts á sjálfstrausti. Þá fékk hún vinnu í Landsbankanum árið 1965.

Matthildur eignaðist tvö börn, f. 1971 og 1973, með fyrri eiginmanni sínum og hætti vinnu til að sinna þeim. Hjónabandinu lauk árið 1977.  Þá réði hún sig sem ráðskona í sveit í tæpt ár en hóf síðan aftur störf í Landsbankanum að þeim tíma loknum.

Matthildur hóf nám við félagsfræðibraut í Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1981 og stundaði það nám í tvö ár.

Árið 1983 kynntist Matthildur áströlskum jarðfræðingi, Malcolm John Sheard, sem var í ferðalagi á Íslandi. Tveimur árum síðar kom hann aftur til landsins og 1986 heimsótti Matthildur hann til Ástralíu og skrifaði greinar um upplifun sína af landinu. Um áramótin 1986/7 bað Malcolm Matthildar og haustið 1987 flutti hún með börnum sínum til Adelaide í Suður Ástralíu og hefur búið þar síðan með seinni eiginmanni sínum.

Í Ástralíu eignaðist Matthildur í fyrsta sinn líf á eigin forsendum þar sem hún fékk að njóta sín sem hún sjálf með sín eigin verðgildi og þar fékk hún ráðrúm til að sinna skriftum. Skrif Matthildar taka ætíð mið af hennar eigin reynsluheimi.

Ýmsar greinar eftir Matthildi birtust í íslenskum blöðum, svo sem Morgunblaðinu og Tímanum, á níunda áratug tuttugustu aldar. Margar þeirra fjölluðu um flutning hennar til Ástralíu og muninn á íslensku og áströlsku samfélagi.

Síðustu ár, eftir nokkurt hlé frá greinaskrifum, hafa svo birst greinar af og til á Kjarnanum, Vísi og Fréttablaðinu. Nýjasta grein hennar birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2023. Einnig hefur Matthildur birt nokkrar minningargreinar í íslenskum blöðum.

Árið 2013 fékk Matthildur sérstakan innblástur um að skrifa bók um líf sitt. Það tók langan tíma en bókin, Diving into the Threads of Life: A Woman‘s Journey, kom út 2021 hana má nálgast á Amazon bæði í prentuðu og rafrænu formi.


Ritaskrá

  • 2021  Diving into the Threads of Life: A Woman‘s Journey
  • 2015  Þegar fólk deyr og heimili endar. Handbók um að gera upp dánarbú (óbirt handrit)
  • 1987  „Þannig sá ég Ástralíu“, birtist í fimm hlutum í Morgunblaðinu.