SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hjördís Björg Kristinsdóttir

Hjördís Björg Kristinsdóttir er fædd á Djúpavogi og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Jóhann Kristinn Friðriksson, útgerðarmaður, og eiginkona hans, Jónína Ágústa Gústafsdóttir, húsmóðir.

Hjördís gekk í Grunnskóla Djúpavogs og lauk þaðan námi 1958 með hæstu einkunn. Sextán ára fór hún til Bergen í Noregi og dvaldi þar í tæpt ár. Þar gætti hún barna en vann einnig í skósmiðju til að ná betri tökum á tungumálinu.

Hjördís fór á Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni árið 1963 og lauk þaðan námi árið 1964. 1966 dvaldi Hjördís í Kaupmannahöfn og starfaði á Hótel Kong Frederik.

Árið 1968 giftist Hjördís Sigurði Jóhanni Hendrikssyni og eignuðust þau tvö börn, Rebekku Maríu (f. 1969) og Jóhann Ágúst (f. 1972). Hjördís varð ekkja árið 2005.

Hún stundaði nám við Fjölbrautaskóla Akraness og útskrifaðist af Heilsugæslubraut 1987. Þá lauk hún námi af Snyrtibraut við Fjölbrautarskóla Breiðholts árið 1989, og tók síðan sveinspróf árið 1990 og meistarapróf í sömu grein frá Iðnskólanum í Reykjavík 1993. Árið 1990 opnaði Hjördís sína eigin snyrtistofu sem hún rak um árabil og einnig opnaði hún litla heildverslun með snyrtivörum sem hún flutti inn sjálf. Eftir að Hjördís seldi snyrtistofu sína hóf hún aftur nám, í þetta sinn lærði hún til sjúkraliða og lauk því námi frá Fjölbrautaskóla Breiðholts 1999.

Allt frá barnsaldri hefur Hjördís haft gaman af því að setja saman ljóð, kvæði og vísur og einnig að semja smásögur. Smásögurnar voru sjaldan eða ekki skrifaðar niður, Hjördís bjó þær til um leið og hún sagði þær börnum sínum og síðan barnabörnum.

2015 sótti Hjördís námskeið í ritlist hjá Þórði Helgasyni, skáldi og fyrrverandi íslenskukennara við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og þar skrifaði hún ljóð sem birtust í bókinni Smellir.

2018 sótti hún annað ritlistarnámskeið, hjá Kristjáni Hreinssyni ljóðskáldi, og afrakstur þess var bókin Raddir daganna, þar sem Hjördís á ljóð, ásamt fleiri höfundum.

Árið 2018 sendi Hjördís frá sér fyrstu bók sína, Duldir þræðir.


Ritaskrá

  • 2024  Grætur guð? (ljóð)
  • 2022  „Þung er mín sorg og sár", sálmur í Sálmabók íslensku kirkjunnar
  • 2018  Duldir þræðir
  • 2018  Ljóð í Raddir daganna (ásamt fleiri höfundum)
  • 2015  Ljóð í Smellir (ásamt fleiri höfundum)