SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Dagbjört Dagsdóttir (Sumarlína Dagbjört Jónsdóttir)

Dagbjört Dagsdóttir var höfundarnafn Sumarlínu Dagbjartar Jónsdóttur. Hún fæddist 23. ágúst árið 1900 á Helgustöðum í Austur-Fljótum í Skagafirði og lést árið 1986 í Reykjavík. Hún giftist Kristjáni Í. Kristjánssyni og eignuðust þau fjórar dætur.

Sumarlína sendi frá sér tvær skáldsögur sem Leiftur gaf út þ.e. Söguna af Sólrúnu 1953 og Ásdísi í Vík 1956. Þá var hún með nýja sögu í smíðum þegar sjónin fór að gefa sig. Dagblöðin birtu líka eftir hana ýmislegt svo sem ferðasögur og kvæði sem og ritdóma um bækur hennar.

Bækur Sumarlínu fengu all lofsamlega dóma og var Sagan af Sólrúnu lesin í Ríkisútvarpinu. Þá voru útlán bókanna úr bókasöfnum í góðu meðallagi íslenskra rithöfunda.

Á vefnum ísmus.is eru nokkrar upptökur þar sem Sumarlína fer með ljóð, segir frá æskustöðvum sínum, þjóðlegum fróðleik og spilar á gítar og syngur. Upptökurnar má nálgast hér

Þá má hlýða á Sumarlínu flytja erindi úr ljóðinu Sit ég og syrgi eftir Guðrúnu Jónsdóttur frá Klömbrum í raftónlistarverki á Spotify. Verkið er eftir pólska konu, Kaśka Paluch, sem er prófessor og tölvunarfræðingur en hún hefur verið að „hljóðrita“ íslenska náttúru og fólk. Hér má hlýða á verkið.


Ritaskrá

1956 Ásdís í Vík

1953 Sagan af Sólrúnu