SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ólafía Árnadóttir

Ólafía Árnadóttir var fædd í Bergskoti á Vatnsleysuströnd, 9. júní 1899.

Foreldrar hennar, Sigrún Ólafsdóttir og Árni Sæmundsson, voru bæði ættuð úr Vestur-Skaftafellssýslu. Þau bjuggu fyrst austur í Mýrdal, en fluttu síðan á Vatnsleysuströnd og síðan til Reykjavíkur upp úr aldamótum. Þar vann Árni að iðn sinni trésmíði. Hann lést að slysförum á jólum 1906. 

Þau hjónin eignuðust þrjár dætur, Maríu, Dórótheu og Ólafíu, sem var yngst.

Ólafía var sjö ára þegar faðir þeirra dó. Með frábærri elju og atorku tókst ekkjunni að koma upp dætrum sínum. 

Ólafía erfði einstakan dugnað foreldra sinna og var skáldmælt eins og móðir hennar. Hún átti við bæklun að stríða, sem ágerðist með aldrinum en bar það af æðruleysi og Guðs hjálp, eins og hún tók sjálf til orða.

Ólafía var hreinskilin og hreinskiptin kona, sem öðlaðist þá trúvissu og trúarstyrk, sem gerði henni kleift  að taka mótlæti lífsins í anda Þóris jökuls, er kvað: „skafl beygjattu skalli, þó að skúr á þig falli.“ Hún var alla ævi mikil trúkona. Skáldskapur Ólafíu ber sterkan svip þessarar einlægu og afdráttarlausu trúarskoðana.

Ólafía gaf út tvær ljóðabækur en ljóð eftir hana birtust einnig í blöðum, tímaritum, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, og lýsa ljóðin jákvæðum lífsviðhorfum hennar.

Þeir sem lifðu við þröngan kost á fjórða tug síðustu aldar bera þess merki æ síðan. Ólafía var haukur í horni fyrir stórfjölskyldu sína og þá sem minna máttu sín og var stöðugt reiðubúin til að rétta hjálparhönd. Hún málaði, veggfóðraði og færði margt í lag sem úrskeiðis fór og börnin gladdi hún með gjöfum sem hún bjó til sjálf af miklum hagleik.  Aldrei lét hún sig vanta á jólaföstu í saumaskapinn.

Ólafía veitti systurbörnum sínum andlega leiðsögn og tilsögn í danskri tungu. Hún var sjálfmenntuð og dönskuna lærði hún á meðan á spítalavist hennar stóð í Kaupmannahöfn.

Á fullorðinsárum hugðist hún leita lækninga til Bandaríkjanna og taldi þá sjálfsagt að afla sér nokkurrar þekkingar í ensku. Gekk hún að því námi með sömu atorkunni og öðru sem hún tók sér fyrir hendur. „Var þá hlutverkum skipt og þykir mér hún hafa verið einn bezti nemandi, sem ég hef veitt leiðsögn," sagði systursonur hennar Hjálmar Ólafsson, fv. skólastjóri Menntaskólans í Hamrahlíð.

Ólafía giftist ung ágætum manni, Brynjólfi Helga Þorsteinssyni, vélstjóra, sem var henni hin besta stoð á langri lífsleið. Þau eignuðust einn son barna, Árna rafverktaka – sóma sinnar stéttar, sem um langa hríð hefur m.a. beitt sér fyrir aukinni og bættri menntun iðnaðarmanna. Hann varð forustumaður í iðnnemasambandinu í æsku, þá í rafvirkjafélaginu og síðan framkvæmdastjóri Landssamband rafverktaka ásamt því að reka eigið fyrirtæki, Amper hf. Þau hjónin, í sjálfboðavinnu, veittu um árabil þeim sem á einhvern hátt hafa orðið útundan eða undir í lífsbaráttunni, styrk og ánægjustundir, með heimsóknum á sjúkrahús og einkaheimili. Sama birtan og heiðríkjan fylgdi Ólafíu til hinstu stundar.

Ólafía lést þann 16. september árið 1982 í Reykjavík, 83 ára að aldri.


Ritaskrá

  • 1977  Í birtu daganna
  • 1959  Séð til sólar