SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Kristín Jónsdóttir í Hlíð

Kristín Laufey Jónsdóttir er fædd árið 1963 á Hlíð í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu, þar sem hún er uppalin og býr enn og stundar búskap.

Kristín hefur fengist við skriftir frá unglingsaldri og birt ljóð og smásögur í blöðum og tímaritum en aðeins eina bók hefur hún sent frá sér á prent. Auk þess að iðka ljóðagerð er Kristín hagyrðingur af guðs náð og hefur tekið þátt í ófáum hagyrðingamótum á undanförnum áratugum.

2009 kom út ljóðabókin Bréf til næturinnar sem vakti mikla athygli. Bókin var gefin út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi og var níunda bókin flokknum Austfirsk ljóðskáld. Ljóðin í Bréfi til næturinnar spanna tveggja áratug sögu og saman mynda þau eina heild. Kristín tjáir þar innstu tilfinningar sínar af mikilli einlægni. Mörg ljóðanna eru ástarljóð og önnur sýna sterka tengingu við náttúruna og einnig yrkir Kristín fallega til barna sinna.

Viðtal Egils Helgasonar við Kristínu í bókmenntaþættinum Kiljunni vakti gríðarlegan áhuga á bókinni og var hún endurprentuð nokkrum sinnum í kjölfarið og seldist ætíð upp. 

2012 kom út geisladiskurinn Til næturinnar með lögum eftir Óskar Guðnason sem hann samdi við ljóð Kristínar og sungin af Unni Birnu Björnsdóttur og Arnari Jónssyni.

Kristín býr, eins og áður segir, á Hlíð í Lóni og á tvö uppkomin börn.


Ritaskrá

  • 2009  Bréf til næturinnar