SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Rannveig Guðnadóttir

Rannveig Guðnadóttir fæddist 12. maí árið 1890. Hún var frá Hattardal í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Rannveig fór 19 ára sem kaupakona norður í Húnavatnssýslu, gifti sig og bjó þar í 30 ár.

Í formála ljóðabókar hennar ,,Aftanskin‘‘ sem út kom árið 1950 og gefin var út af Víkingsprent, eru þessi fátæklegu orð, ,,Helzta hugðarefni Rannveigar var ljóðagerð og 5 ára setti hún saman sína fyrstu vísu. En þessi gáfa hennar var síður en svo studd og þótti slíkt goðgá og vitleysa af fátækri og umkomulausri telpu að fást við svoleiðis hluti. Bókvit og ljóðagerð yrði aldrei látin í askana. Rannveig gekk hálfan vetur í barnaskóla'' (Aftanskin, bls 1). Ljóðin í bókin eru ýmiskonar, minningarljóð, erfiljóð, kveðjuljóð, heillaljóð, ljóð til kvenfélaga og svo ljóð ort til náttúrunnar, rímur og fleira. Þá eru mörg ljóðanna á guðlegum nótum

Vorþrá

Ég þrái vorsins blíða blæ,

er birtir yfir grund og sæ,

og Eygló faðminn opnar sinn

og allan skreytir himininn.

 

Er dagur lengist, dimman dvín,

og drottning himins vitjar þín.

Því ekkert fegra á Íslands drótt

en yndisfagra júnínótt.

 

Við náttúrunnar ástaróð

endurfæðast menn og fljóð,

því allt, sem gott og göfugt er

til guðs í hæðir lyftir sér.

 

Sundurlausir þankar

Þegar lít ég loftin blá

og ljósið sólar bjarta,

viðkvæm hjá mér vaknar þrá

er vermir sollið hjarta.

 

Hátt sér lyfta hugar kýs

í hæð úr skuggadölum.

Þar, sem gjörvöll gleði er vís

guðs í dýrðarsölum.

 

Mig ei hræða helkaldir,

heimur, dómar þínir.

Þeir eru bráðum úttaldir

ævidagar mínir.

 

Af innsta hjarta ef er þér kær

alheims mikli Drottinn.

Gleð þú allt, sem glatt þú fær

það gefur þér beztan vottinn.

 

Ef þú leitar innst hjá þér,

það eyðir hugarpínu,

góða neista glöggt þú sér

geymda í hjarta þínu.

 

Tónlistin

Tónlistin er tendruð af þeim töfraeldi,

sem hugi manna í hærra veldi

hefja á dimmu vetrarkveldi.

 

Tónlisin á töfrasprotann tigna, glæsta,

sem dregur upp úr dufti lægsta

dreymna sál í veldið hæsta.

 

Árin líða en eftir bíða ótal merki,

tíminn þessi stóri sterki

stendur að baki hverju verki.

 

Ef hugurnn þráir hvíld á milli hversdags anna

leitaðu þá hins ljúfa og sanna

í ljósum heimi tónlistanna.

 


Ritaskrá

  • 1950  Aftanskin