SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elín Thorarensen

Elín Thorarensen var fædd 16. september árið 1881 á Hrófá í Hrófbergshreppi í Strandasýslu þar sem foreldrar hennar voru í húsmennsku. Hún var skírð Elín Elísabet Jónsdóttir og var fyrsta barn foreldra sinna, Jóns Einars Jónssonar og Herdísar Andrésdóttur skáldkonu.

Elín eignaðist sex systkini en fjögur þeirra dóu kornung. Föður sinn missti Elín þegar hún var 8 ára gömul árið 1889. Dauði hans var gríðarlegt áfall fyrir fjölskylduna eins og glöggt kemur fram í ljóðum móður hennar Herdísar. Eftir föðurmissinn flutti Elín með móður sinni og yngsta bróður sínum að Bæ í Króksfirði til Elísabetar Ragnhildar Jónsdóttur föðursystur sinnar og eiginmanns hennar Ólafs Sigvaldason héraðslæknis. Á Bæ ólst Elín upp og sjálf sagði hún að heimilið hefði verið eitt stærsta og fallegasta heimili í Breiðafirði á þeim tíma og þar leið henni vel.

Árið 1901 giftist Elín Bjarna Jóni Jónssyni Thorarensen (f. 1872), sonarsyni Bjarna Thorarensens skálds, og flutti til hans að Stórholti í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu þar sem hann var bóndi og hún húsfreyja þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1908. Elín og Jón eignuðust þrjú börn:  Jón (1902-1986), Jakobínu (1905-1981), og Ólaf (1908-1969). Eiginmaður Elínar starfaði sem bæjarfógetaskrifari í Reykjavík en þau skildu árið 1913. Um ástæður skilnaðarins er lítið vitað en það má leiða að því getum að eitthvað hafi það haft að segja að Jón eignaðist barn framhjá Elínu í janúar 1912.

Vafalaust hefur það ekki verið auðvelt að vera ung fráskilin þriggja barna móðir á fyrstu áratugum síðustu aldar í Reykjavík. Eftir skilnaðinn bjó Elín í Þingholtsstræti 18 og sá fyrir sér og yngsta barni sínu með því að taka menn inn á heimili sitt í fæði. Eldri börnin tvö voru þá bæði farin í fóstur og það var Elínu mikil raun að sjá á eftir þeim

Einn kostgangara Elínar var Jóhann Jónsson sem þá var tæplega 19 ára gamall, nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann varð síðar eitt dáðasta skáld Íslands, sérstaklega þekktur fyrir ljóð sitt Söknuð (Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað...) sem talið er með fyrstu nútímaljóðum ortum á íslensku. Þegar Elín og Jóhann kynnast eru tvö ár liðin frá hjónaskilnaði hennar og með þau tókust heitar ástir, þótt Jóhann væri fimmtán árum yngri en hún. Ástarsamband þeirra var þó litið hornauga af umhverfinu, fjölskyldu Elínar og vinum Jóhanns og varð að taka enda. Um það má lesa í einu bókinni sem Elín sendi frá sér, Angantýr. Minningar um hann, ævintýri og ljóð frá honum, sem hún skrifaði í minningu Jóhanns og gaf sjálf út árið 1946. Angantýr kom aftur úr 2011 með ítarlegum eftirmála Soffíu Auðar Birgisdóttur.

Móðir Elínar, Herdís Andrésdóttir, bjó hjá henni síðustu æviár sín og átti þar góða daga. Til þeirra komu gestir á borð við Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson en sá síðstanefndi orti langan afmælisbrag til Elínar á sextugsafmæli hennar árið 1941 sem kallast "Afmælisdigtur" og er í mörgum erindinum. Margir þekkja fjögur erindi þess kvæðabálks en Atli Heimir Sveinsson orti lag við þau sem ýmsir kunna og þekkja undir heitinu "Í Skólavörðuholtið hátt".

Elín Thorarensen dó árið 1956 í Reykjavík.

 

Heimild:

Soffía Auður Birgisdóttir. „Ég gaf þér ástina og sorgina.“ Elín Thorarensen, Jóhann Jónsson og Angantýr. Eftirmáli við 2. útg. Angantýs. Reykjavík: Lestofan 2011.


Ritaskrá

  • 2011  Angantýr (2. útg. með eftirmála Soffíu Auðar Birgisdóttur)
  • 1946  Angantýr. Minningar um hann, ævintýri og ljóð eftir hann

 

Tengt efni