SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hólmfríður Jónasdóttir


Hólmfríður Jónasdóttir fæddist að Grundarkoti í Blönduhlíð í Akrahreppi í Skagafirði árið 1903 og ólst upp í foreldrahúsum.

Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Blönduósi og lauk þaðan prófi eftir tvo vetur. Hólmfríður var barnakennari í Skarðshreppi og síðan að Veðramótum í Gönguskörðum hjá Sigurði Guðmundssyni bónda þar en þangað komu börn úr sveitinni til uppfræðslu.


Hólmfríður giftist Guðmundi Jósafatssyni, verkamanni á Sauðárkróki, árið 1928. Þau hófu búskap í Hlíð í Hjaltadal en fluttu þaðan í Axlarhaga og síðan á Sauðárkrók.


Hólmfríður starfaði mikið að verkalýðsmálum. Hún var í stjórn Verkakvennafélagsins Öldunnar á Sauðárkróki og var formaður í allmörg ár. Hún starfaði fyrir Alþýðubandalagið og var í framboði fyrir þann flokk. Hólmfríður var til margra ára formaður Kvenfélagsins á Sauðárkróki. Undir berum himni er eina bók Hólmfríðar en auk þess hafa ljóð eftir hana birst í blöðum og tímaritum.

Hólmfríður lést árið 1995.


Ritaskrá

1978 Undir berum himni, ljóðabók