SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði

Guðrún Guðmundsdóttir skáldkona frá Melgerði fæddist 8. janúar árið 1889.

Guðrún var fædd á Kollafjarðarnesi í Strandarsýslu en fluttist ung með manni sínum til Hvammstanga í Húnavatnssýslu. Seinna á lífsleiðinni veiktist hún illa og var bundin við hjólastól. Guðrún var mjög trúuð kona og orti bæði ljóð og sálma sem m.a. hafa birtst í sálmabókum. Þá gaf hún út margar ljóðabækur sem og endurminningar sínar er hún nefndi ,,Endurskin" 1962. Inná Ísmús er líka ýmislegt að finna eftir hana.

Í ljóðabókinni hennar Kveðjubros sem út kom árið 1958, en þá var Guðrún tæplega sjötug að aldri, kemur fram í formálanum sem ritaður var af Sigurbirni Á. Gíslasyni, að hún hafi kennti sig við Melgerði vegna þess að það var ,,lítill bæjarkofi í Kollafirði í Strandasýslu, sem ég sjálf kom upp með aðstoð Guðs og góðra manna handa foreldrum mínum heilsulitlum” Ennfremur segir þar að árið 1944 hafi komið út ljóðakverið Söngur dalstúlkunna eftir hana. Þar rakst ég á, segir Sigurbjörn, ljó, sem vakti sérstaka eftirtekt mína. Það var ,,Saknaðarljóð", (er Fellskirkja var kvödd, og auk þess var ljóðið ort af tvítugri stúlku um það leyti, sem aldarandinn taldi sjálfsagt að fækka skyldi kirkjum og prestaköllum).

Margir könnuðust auk þess við Guðrúnu því að Kristlegt vikublað hefur árum saman flutt fjölmörg ljóða hennar. Í formálanum kemur fram eins og áður sagði að Guðrún hafi flutt til Hvammstanga með manni sínum Hallgrími Ebenesarsyni. Eftir lát hans árið 1953 hafi  Guðrún verið rúmföst í ein sjö ár, lengst af á Grund í Reykjavík. Hún hafði miklar höfuðkvalir en orti samt nær daglega og þá oftast sálma einkum sér til hugarhægðar og hressingar og einnig líka fyrir samferðafólk sitt sem sendi henni fleiri þakkarbréf en nokkur annar vistmaður á Grund hafi fengið. Við útgáfu þessarar bókar Kveðjubros vonast Guðrún eftir því að ljóðin verði til blessunar lesendum og að öll raunabörn fái styrk til að brosa gegnum tárin.

Það er gaman að segja frá því að Guðrún er ein fárra kvenna sem eiga ljóð í íslenskum sálmabókum. Aðrar konur eru Ólöf á Hlöðum f. 1857 og systurnar Herdís og Ólína Andrésdætur f. 1858 og Lilja Sólveig Kristjánsdóttir f. 1923, Margrét Jónsdóttir f. 1893 og Hrefna Tynes f. 1912. Ljóð Guðrúnar sómir sér vel í sálmabókunum en þó eru þau ansi mörg sem hefðu einnig sómt sér vel þar því Guðrún var mikið sálmaskáld, þess bera ljóðin hennar vitni. 

Það má alveg leiða líkum að því að ekki hafi verði mikið gert ráð fyrir konum í sálmabókum hvorki nú né endranær. Rannsóknir sýna samt að þó svo að konur hafi og eru að stærstum hluta iðkendur trúarinnar þá eru það alla jafnan karlar sem hafa hirt bæði sæmdina sem og launin sem tilfalla innan hennar. En eitt er víst að Guðrún orti mikið og var trúuð kona. Svo við skulum fagna því að Guðrún sé nú eina af konunum sem prýða vefinn skáld.is

Guðrún lést árið 1982

Heimildir: Ísmús | Leit: Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði (ismus.is)

Íslendingaþættir Tímans - 30. tölublað (05.08.1982) - Tímarit.is (timarit.is)

Íslendingaþættir Tímans - 32. tölublað (18.08.1982) - Tímarit.is (timarit.is)

Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði í Strandabyggð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn (arnastofnun.is)

Þórarinn Elís Jónsson, ljóðabækur hennar og sálmabók 1972

 


Ritaskrá

  • 1972  Daggtár
  • 1970  Vorblær
  • 1968  Laufblað
  • 1962  Endurfundir
  • 1958  Kveðjubros
  • 1944  Söngvar dalastúlkunnar
  • Án árs Ljóðmæli

 

Tengt efni