Lilja Sólveig Kristjánsdóttir
Æviágrip
Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist 11. maí árið 1923 á Brautarhóli í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir (1880-1973) og Kristján Tryggvi Sigurjónsson (1870-44). Lilja var yngst sex systkina. Hin eru Gísli Björgvin (1904-85), Filippía Sigurlaug (1905-96), Sigurjón Kristján (1907-82), Svanfríður Guðný (1910-2004) og Sigurður Marinó (1914-2009).
Lilja Sólveig lauk stúdentsprófi frá M.A. árið 1945 og kenndi síðan við farskóla í Svarfaðardal 1945-46. Hún stundaði nám við Håndarbejdets Fremme í Kaupmannahöfn 1946-47 og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Lilja var kennari við Unglingaskólann á Dalvík 1947-48 og vann síðan á skattstofu Akureyrar 1948-49. Hún kenndi við Lindargötuskóla í Reykjavík á árunum 1949-51. Þá fór hún til Noregs til náms á biblíuskóla Indremisjonsselskabet í Staffeldtsgate í miðborg Oslo. Lilja Sólveig starfaði á vegum þeirra samtaka 1952-55, m.a. sem prédikari og kennari. Á árunum 1955-59 var hún á Brautarhóli og lagði búi og móður sinni lið. Kennari við héraðsskólann á Laugum í S-Þing. á árunum 1959-62, skólastjóri Húsmæðraskólans á Löngumýri í Skagafirði 1962-63 og gjaldkeri Dalvíkurhrepps 1963-64. Vann skrifstofustörf í Reykjavík 1964-67. Gæslumaður á Listasafni Einars Jónssonar í Reykjavík í 23 ár, frá 1971.
Maki frá 1. júlí. 1967: Siguringi E. Hjörleifsson (1902-75), kennari, lengstum í Austurbæjarskóla í Reykjavík, tónskáld, málari og ljóðskáld. Þau voru barnlaus.
Lilja Sólveig tók þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík og var lengi í stjórn félagsins, sá um barna- og unglingastarf félagsins í Betaníu og heimili sínu og varð vinur og fræðari fjölda fólks vegna þeirra starfa. Þá var hún félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár.
Lilja Sólveig orkti sálma og ljóð, skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum, kirkjulegum, félögum. Lilja Sólveig gaf út tvær bækur, barnabókina Dýrin í dalnum (1968) og ljóðasafnið Liljuljóð (2003). Ekki hafa verið birtir fleiri sálmar eftir nokkra konu í sálmabókum þjóðkirkjunnar en eftir Lilju Sólveigu. Meðal sálma hennar eru aðventusálmurinn “Við kveikjum einu kerti á…” og trúarjátningarsálmurinn “Stjörnur og sól.” Lilja Sólveig lést á Grund að kvöldi sumardagsins fyrsta, 23. apríl. 2015
Bernskuheimili Lilju Sólveigar var menntunarsækið. Heimilisfaðirinn seldi bækur og gætti bókasafns. Flestar útgefnar bækur á Íslandi á þessum tíma komu því í Brautarhól og voru lesnar. Lilja Sólveig sótti unglingaskóla í heimadal sínum. Hún fór síðan til náms í Menntaskólanum á Akureyri og tók próf beint í annan bekk og varð stúdent árið 1945.
Á menntaskólaárunum stríddi Lilja við veikindi. Hún var nærri dauða þegar hún var skorin eða öllu heldur brotin upp á Landakoti haustið 1941. Var hér upphaf veikinda, sem Lilja glímdi við síðan. Vegna heilsubrestsins ráðlögðu læknar Lilju að fara ekki í það háskólanám, læknisfræði, sem hún hafði hug til. “Læknarnir vildu mig ekki” sagði hún og varð henni áfall.
Eftir stúdentspróf kenndi hún svarfdælsku ungviði einn vetur frammi í dölum. Síðan fór hún í hannyrðaskóla í Kaupmannahöfn, Håndarbejdets Fremme, eftir lok heimstyrjaldar og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hún kom svo heim og kenndi unglingum á Dalvík. Síðan vann hún á skattstofunni á Akureyri en þá fékk hún hina illvígu Akureyrarveiki – árið 1948 – og lá rúmföst í marga mánuði. Eftir að hafa náð þokkalegri heilsu að nýju kenndi Lilja Sólveig við gagnfræðaskólann við Lindargötu frá 1949 og til ársloka 1951.
Lilja lærði í bernsku að Guð elskaði. Hún reyndi í lífinu að hún nyti elsku og hún tók til sín að hún væri kölluð til að elska. Erindi Guðs skildi hún vítt og elskuboðið einnig. Lilja tamdi sér að elska fólk, smátt og stórt – og allra lita og gerðar, en líka alla sköpun Guðs, náttúruna, litbrigði himins og jarðar, syngjandi lækjarbunu og drynjandi fossa, orð og allar gjafir himins í heimi. Því var hún elskuð sjálf.
Ljóðasafnið Liljuljóð, kom út árið 2003. Ljóð og sálmar Lilju Sólveigar og náttúruljóðin sem Lilja samdi er vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna. Ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins, er frá Guði eins og segir í minningarorðunum um hana. Lilja á nokkra sálma í íslenskum sálmabókum.
Allar heimildir eru sóttar á vefinn sigurdurarni.is og myndir af veraldarvefnum og bokin.is sótt 12.01.2024
Lilja Sólveig Kristjánsdóttir – minningarorð | Sigurður Árni (sigurdurarni.is)
Ritaskrá
2003 Liljuljóð
1968 Dýrin í dalnum