SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Valgerður Gísladóttir

Guðrún Valgerður Gísladóttir fæddist 2. desember 1923 á Bjarnastöðum í Blönduhlíð, Skagafirði og ólst upp í torfbæ i Hjaltastaðahvammi hjá foreldrum sínum. En lengst af bjó hún í Reykjavík. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 30. maí 2011.

Guðrún sendi frá sér þrjár ljóðabækur, gaf þær út á eigin kostnað og seldi sjálf. Á vefnum Bragi.arnastofnun .is segir m.a um hana: "Faðir hennar, Gísli Jón Gíslason, var snjall hagyrðingur, bjó í Hjaltastaðahvammi en sonur GVG var leikarinn snjalli, Gísli Rúnar Jónsson f. 1953." 

Í Reykjavík bjó hún ásamt eiginmanni sínum Jóni Konráð Björnssyni í Skipasundi, Snorrabraut og síðar byggðu þau í Selvogsgrunni. Þau áttu þrjá syni og komu þeim á legg á krepputímum. Hún var í vist hjá góðborgurum og starfaði á Hvítabandinu (sjúkrahús), Hrafnistu og víðar. Í nokkur ár saumaði hún fjölbreyttan barnafatnað á heimili sínu og átti í viðskiptum við kaupmenn sem ráku verslanirnar Grund og Faco við Laugaveginn. Um árabil tók hún þátt í rekstri Raftækjastöðvarinnar og Ljósabæjar ásamt eiginmanni og mági. Í fjölda ára starfaði Guðrún fyrir Kristniboðssambandið og KFUM og KFUK. Á miðjum aldri fór hún að fást við myndlist og víst er að myndir eftir hana prýða mörg íslensk heimili. Ljóð eftir Guðrúnu hafa birst í blöðum og tímaritum og söngtextar eftir hana verið sungnir á hljómplötum. 

Í Guðrúnu blundaði listgáfa sem naut sín í ljóðlist og myndlist. „Margir hafa notið afraksturs þess og við lestur ljóða þinna vakna bros og falla tár. Aldrei féll þér verk úr hendi og allt til síðustu missera stóðst þú meðal fólks á fjölförnum stöðum og seldir málverkin þín og ljóðabækur. Það var aðdáunarvert af konu sem var komin á þinn aldur“ ritar Baldur sonur hennar í minningarorðum (Mbl 9.6.2011). Gísli Rúnar skrifar um hana eftirfarandi:

Mamma.

Alúðleg varstu. Viðmótið blítt. Lundin listræn.

Máttug og hvatvís. Hugurinn frjór. Höndin skapandi. Olían dró sig á strigann árdegis. Ljóð ortu sig sjálf í hádeginu. Bundin, lausbundin, fyndin, dramatísk.

Skraddarasaumur í formiðdaginn til heimabrúks, síðdegis til viðurværis. Leikhneigð til afþreyingar. Menn og málefni urðu að eftirhermum. Fréttir að rímaðri skopstælingu. Kímnigáfan leiftrandi, tilsvörin snaggaraleg. Áhugamálin óþrjótandi, verkefnalistarnir óendanlegir, eljan óbilandi. Trúmennska og dyggð. Haukur í horni. Raungóð og líknsöm. Í þungamiðju: Að koma drengjunum á legg. Elskuleg og ástrík. Elskuð og dáð. Þín verður minnst.

Gísli Rúnar.

 

 


Ritaskrá

2003 Ég leita þín

1990 Þín hlýju bros

1985 Ég syng þér ljóð

Tengt efni