SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ingibjörg Þorgeirsdóttir

Ingibjörg Þorgeirsdóttir var fædd að Höllustöðum í Reykhólasveit, Borgarfirði 19. ágúst 1903 og var hún næstyngst í hópi níu systkina. Foreldrar hennar voru bændahjónin Kristrún Salbjörg Jóhannsdóttir og Þorgeir Þorgeirsson.
 
Ingibjörg stundaði nám við Kennaraskóla Íslands og lauk námi 1925. Hún hélt til Noregs í framhaldsnám en veiktist þar hastarlega af berklum og náði sér aldrei af þeim að fullu. 
 
Ingibjörg gaf út fyrstu ljóðabók sína, Líf og liti, árið 1956 og endurútgaf hún hana ásamt bókinni Gamlir strengir árið 1991; saman bera bækurnar titillinn Ljóð. Jenna Jónsdóttir skrifar í ritdómi í Morgunblaðinu að í fyrri bókinni einkennist ljóðin af myrkum tóni en í síðari bókinni megi greina breytt lífsviðhorf og meiri sátt. Þá segir hún sjónarhorn skáldsins hafa víkkað og hún yrki um samfélagsmál og fylgi straumi tímans í ljóðaformi og í síðari bókinni sé meira um ljóð í frjálsu formi en í þeirri fyrri.
 
Veikindi Ingibjargar gerðu henni erfitt að stunda vinnu og dvaldi hún lengi á Reykjalundi og hjá Öryrkjabandalagi Íslands í Hátúni. Hún starfaði fyrir SÍBS og tók þátt í uppbyggingu samtakanna og gegndi trúnaðarstörfum fyrir þau.
 
Ingibjörg var margfróð og víðlesin og hafði áhuga bæði á innanlandsmálum og alþjóðamálum. Hún hafði frábært vald á íslensku máli og skrifaði greinar og smásögur sem hún birti í blöðum og tímaritum. Þá flutti hún frumsamið efni í útvarp, meðal annars efni sem byggt var á bernskuminningum hennar. Árið 1998 kom út bókin Sigga á Brekku sem byggð er á þessu efni og er bókin myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn.
 
Ingibjörg lét sig málefni aldraðra varða og stofnaði sjálf háöldruð sjóð til styrktar öldruðum, sem er í vörslu Landssamtökum eldri borgara.
 
Ingibjörg lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 28. mars árið 2003. 
 
Heimildir:
Jenna Jensdótti, ritdómur í Morgunblaðinu 6. júní 1992.
Minningargreinar um Ingibjörgu í Morgunblaðinu 5. apríl 2003.

Ritaskrá

  • 1998  Sigga á Brekku. Endurminningar aldamótabarns
  • 1991  Ljóð: Líf og litir og Gamlir strengir
  • 1956  Líf og litir