Embla Bachmann
Embla Bachmann fæddist 23. apríl árið 2006 og býr ásamt fjölskyldunni sinni í Grafarholti.
Embla hóf nám í Ingunnarskóla haustið 2012 og útskrifaðist þaðan 2022. Hún hóf nám í Verzlunarskóla Íslands haustið 2022 á nýsköpunar- og listabraut og hefur verið virk í félagslífi skólans. Hún gegndi starfi formanns Góðgerðarráðsins auk þess að vera meðlimur í myndbandsnefndinni Rjóminn, Femínistafélagi og Bókaklúbbi Verzló.
Embla hefur fengist lengi við að skrifa bæði ljóð og sögur og hefur hún hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hún hefur margoft tekið þátt í ljóða- og smásagnakeppni Ingunnarskóla og hlaut hún viðurkenningu fyrir árin 2015, 2017, 2018 og 2019. Einnig tók hún þátt í Stóru upplestrarkeppninni árið 2019 fyrir hönd skólans.
Árið 2021 tók Embla þátt í Skrekk, samdi ljóðið sem var flutt í atriðinu. Hún hreppti þriðja sætið í ljóðakeppni Verzlunarskólablaðsins 2023 og fjórða sætið ári síðar.
Embla skrifaði smásöguna Rófulausi hundurinn og hárlausi kötturinn sem birtist í rafbókinni RISAstórar smásögur sem MMS gaf út í samstarfi við KrakkaRÚV árið 2018. Embla átti tvö ljóð meðal þeirra 16 bestu í Ljóðaflóði MMS 2020 og hún sigraði Ljóðaflóð MMS 2022 með ljóðinu Úti er ævintýri árið 2022.
Embla sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu árið 2023, Stelpur stranglega bannaðar, og var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka en hún er sú yngsta í sögunni sem hefur hlotið þessa tilnefningu, enda aðeins 17 ára gömul. Þá skrifaði hún handrit að stuttmyndinni Hringvegurinn sem verður sýnd á RÚV og um þessar mundir stýrir Embla útvarpsþættinum Hvað ertu að lesa? á Rás 1.
Ritaskrá
- 2024 Kærókeppnin
- 2023 Stelpur stranglega bannaðar
Tilnefningar
- 2024 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Kærókeppnin
- 2023 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Stelpur stranglega bannaðar