Hrafnhildur Sigurðardóttir
Hrafnhildur var uppalin í Garðabænum. Frá fimmtán ára aldri stundaði hún nám í Söngskóla Reykjavíkur og lærði á fiðlu og píanó sem barn, söng í Skólakór Garðabæjar og dansaði djassballett þess á milli. Hún lauk 8. stigi í ljóða- og óperusöng í kjölfar stúdentsprófs frá Fjölbrautarskóla Garðabæjar. Þaðan lá leiðin í Kennaraháskólann en eftir útskrift kenndi hún samtals í fjögur ár í Flataskóla í Garðabæ. Aðalstarf hennar frá árinu 1997 hefur verið að ala upp börnin sín fimm og sinna ýmis konar kennslu, ritstörfum og fyrirlestrum. Hún hefur verið sjálfstætt starfandi síðan 2004. Í 10 ár bauð hún upp á tónlistarnámskeiðið „Með á nótunum“ þar sem hún kenndi börnum frá 6 mánaða upp í fimm ára á ásláttarhljóðfæri og einfalda hreyfisöngva. Samhliða tónlistarnámskeiðunum bauð hún upp á pílates- og jóganámskeið. Fyrstu námskeiðin voru haldin heima hjá henni en árið 2009 opnaði hún heilsuræktarstöðina Jafnvægi sem hún rak í fimm ár í Garðabænum.
Árið 2013 stofnaði Hrafnhildur Hugarfrelsi ásamt vinkonu sinni. Hugarfrelsi býður upp á fyrirlestra og námskeið fyrir börn, unglinga, ungt fólk, foreldra og fagfólk þar sem áhersla er lögð á einfaldar aðferðir til að efla sjálfsmyndina og ná fram því besta í fari hvers og eins með áherslu á öndun, jóga, slökun, hugleiðslu og sjálfsstyrkingu.