Maó Alheimsdóttir
Maó Alheimsdóttir er fædd árið 1983 í Póllandi þar sem hún ólst upp.
Hún stundaði nám í norrænum fræðum við Sorbonne-háskóla í París en lauk síðan BA prófi í íslensku sem annað mál með almenna bókmenntafræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Maó er fyrsti nemandinn af erlendu bergi brotinn til að útskrifast með MA úr ritlist við Háskóla Íslands.
Handrit hennar að skáldsögunni Veðurfregnir og jarðarfarir hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2021.
Maó vinnur líka að ljóðagerð, gerir gjörninga og innsetningar. Árið 2021 gerði hún útvarpsþættina „Að fjallabaki“ í samstarfi við Ríkisútvarpið og það sama ár birtist pistill hennar „Mín litla Mongólía“ í Tímariti Máls og menningar. Þá gaf hún út ljóðabók sína Ljóðatal sem hluta af gjörningi á viðburði Reykjavík Poetics árið 2023. Maó framdi einnig gjörninginn „Hvalbak“ í Hafnarhaus árið 2023 og gjörning Ós Pressunnar, samtaka rithöfunda, í klúbbi Listahátíðar í Reykjavík árið 2024 en hún hefur verið formaður Ós Pressunnar frá því árinu. Sumarið 2024 varð Maó síðan hluti af myndlistarhópi sem setti saman sýningu í Verksmiðjunni á Hjalteyri sem hlaut yfirskriftina „Campo verita.“
Í fyrndinni hefur Maó unnið að búninga- og sviðslistagerð. Hún starfar í dag sem tungumálakennari, fjalla- og jöklaleiðsögumaður. Hún er búsett í Reykjavík og heldur áfram að skrifa.
Ritaskrá
- 2024 Veðurfregnir og jarðarfarir
- 2023 Ljóðatal
- 2022 Ljóðabréf n°5“ Tunglið Forlag (ásamt öðrum skáldum)
- 2013 Innvols (ásamt öðrum rithöfundum)
Tilnefningar
- 2021 Nýræktarstyrkur Miðstöðvar íslenskra bókmennta: Veðurfregnir og jarðarfarir