Guðrún Stefánsdóttir frá Fagraskógi
Guðrún Stefánsdóttir fæddist að Fagraskógi við Eyjafjörð 24. nóvember 1893.
Guðrún var þriðja barn í röð sjö systkina. Foreldrar hennar voru Ragnheiður Davíðsdóttir og Stefán Baldvin Stefánsson, alþingismaður og bóndi. Bróðir Guðrúnar var Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Guðrún giftist Jóni Magnússyni skáldi og verslunarmanni árið 1930. Þau eignuðust þrjár dætur og einn son sem dó á fyrsta ári. Jón lést 1944, en þá voru dæturnar allar innan við fermingu. Eftir andlát Jóns bar Guðrún ein ábyrgð á framfærslu og uppeldi dætranna.
Guðrún lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1913. Einnig var Guðrún eitt ár í Svíþjóð (líklega árið 2017- 2018), þar sem hún vann við þjónustustörf en stundaði jafnframt nám í verslun og viðskiptum. Eftir að Guðrún kom aftur til Íslands vann hún í Landsbankanum í Reykjavík. Upp úr 1920 réði Guðrún sig til vinnu á Veðurstofunni og vann þar um árabil.
Árið 1940 stofnaði Guðrún Nýtt kvennablað ásamt Jóhönnu Þórðardóttur og Maríu Knudsen. Jóhanna og María féllu báðar frá langt um aldur fram og eftir lát Maríu, árið 1946, stóð Guðrún ein að ritstjórn blaðsins. Tímaritið kom út til ársloka 1967.
Kvenréttindi voru Guðrúnu hugleikin. Hún var um skeið virkur þátttakandi í Kvenréttindafélagi Íslands og sat í stjórn félagsins um tíma. Mikilvægur þáttur í útgáfu Nýs kvennablaðs var að birta ljóð og sögur eftir konur, en þar stigu sumir íslenskir kvenrithöfundar sín fyrstu spor á ritvellinum. Jafnframt var í blaðinu fjallað um málefni og menningu kvenna frá ýmsum sjónarhornum.
Guðrún hafði snemma yndi af ljóðum. Árið 1927 birtust fyrstu kvæðin eftir hana á prenti í tímaritinu Dropum. Flest kvæði hennar birtust í Nýju kvennablaði, en einnig birtust kvæði eftir hana í öðrum tímaritum. Meira en helmingur þeirra ljóða sem liggja eftir Guðrúnu voru ort um konur. Sú staðreynd sýnir glöggt viðleitni hennar og vilja til að hefja stöðu kvenna til aukinnar virðingar. Þar er að finna mörg erfikvæði um konur og kvæði um afrekskonur á ýmsum sviðum. Einnig skrifaði Guðrún fjölmargar greinar í Nýtt kvennablað sem margar hverjar fjölluðu um réttindi kvenna.
Guðrún sendi aldrei frá sér ljóðabók. Úrval úr kvæðum hennar kom út árið 2015 og hafði dótturdóttir hennar, Ragnheiður Guðbjargar Hrafnkelsdóttir, umsjón með útgáfunni og ritaði inngang þar sem hún minnist ömmu sinnar og fjallar um æfi hennar og störf. Bókin var gefin út í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.
Guðrún lést árið 1980, skömmu fyrir 87 ára afmæli sitt.
Heimildir (aðrar en inngangur að ljóðabók Guðrúnar):
- Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir. (2016, 16. febrúar). Orð um Helgu, Helgu og Guðrúnu. Ruv.is. https://www.ruv.is/oflokka-eldra-efni/ordum-helgu-helgu-og-gudrunu
- Magnús Guðmundsson. (2016, 8. janúar). Stolnar stundir að yrkja. Vísir.is. https://www.visir.is/g/2016309212d/stolnar-stundir-ad-yrkja
Ritaskrá
- 2015. Ljóð