SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Guðjónsdóttir

Guðrún Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík 24. desember árið 1903. 

Foreldrar Guðrúnar voru Guðjón Brynjólfsson, verkamaður og Guðlaug Eyjólfsdóttir, húsmóðir. Hún ólst upp í Reykjavík hjá foreldrum sínum ásamt tveimur systrum og lauk þar barnaskólanámi. Árið 1919 tók hún inntökupróf í Verslunarskólann en fátækt kom í veg fyrir lengri skólagöngu.

Árið 1926 giftist Guðrún Stefáni Jakobssyni frá Galtafelli (f. 1895, d. 1964). Þau eignuðust þrjá syni.

Guðrún var verslunarkona í Reykjavík 1919 - 1923 og símakona hjá bæjarsímanum í Reykjavík 1923 - 1932, með nokkrum hléum. Á árunum 1950 - 1968 annaðist hún gistingu og morgunverð fyrir ferðamenn á heimili sínu á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins. Einnig var hún gæslukona á Þjóðminjasafninu og Listasafni Einars Jónssonar í nokkur ár eftir 1971. 

Guðrún hafði sterka réttlætiskennd. Hún hreifst ung af jafnaðarhugsjóninni og sósíalistahreyfingin varð vettvangur hennar í löngu og virku félagsstarfi. Hún sat í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna um árabil og í stjórn Kron (Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis) frá 1945 til 1969, auk þess tók hún þátt í fleiri félagssamtökum, meðal annars MÍR og Kvenfélagi sósíalista.

Listir og handverk voru Guðrúnu áhugamál. Hún safnaði íslenskum jurtum, litaði úr þeim band og óf nytjahluti og myndir. Vefnaðarverk sín sýndi hún á Mokka og fleiri stöðum. Einnig prjónaði hún og hannaði fatnað úr íslenskri ull.

Guðtún hafði yndi af ljóðum og þegar tími gafst til undi hún við ljóðagerð og ljóðaþýðingar. Tvær ljóðabækur komu út eftir Guðrúnu, Opnir gluggar (1976) og Gluggar mót sól (1988). Hún skrifaði einnig og þýddi barnasögur og ævintýri. Alls gaf hún út sex frumsamdar bækur. Að Guðrúnu látinni var gefin út bók sem fjallaði um minningar hennar af fólki og mannlífi í gömlu Reykjavík á ofanverðri 20. öldinni. Helsta sögusviðið eru Þingholtin, en þar ól hún öll sín bernsku- og ungdómsár. Henni entist ekki tími eða afl til þess að koma handritinu í höfn, en sonur hennar, Hreggviður Stefánsson, stóð að útgáfu þess árið 1990.

Guðrún lést í Reykjavík 25. júlí árið 1989.

 

Heimildir:

Minningargreinar birtar í Morgunblaðinu 1. ágúst 1989, bls. 38: https://timarit.is/page/1707304#page/n37/mode/2up2 og 2. ágúst 1989, bls. 35: https://timarit.is/page/1707356#page/n33/mode/2up,

Ritaskrá

  • 1990 Hús og fólk í Reykjavík
  • 1988 Gluggar mót sól (ljóð)
  • 1979 Söngur lóunnar (ferðasaga frá útlöndum fyrir unglinga)
  • 1976 Söngur þrastanna (barnasögur og leikþættir)
  • 1976 Gunna og kisa (barnasögur)
  • 1976 Opnir gluggar (ljóð)
  • 1971 Dúfan og galdrataskan (barnasögur)

Þýðingar

  • 1978  Rauðhetta (barnasaga) 
  • 1977  Systir síðlokka (kínversk ævintýri)