SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ingibjörg Sumarliðadóttir

Ingibjörg Sumarliðadóttir fæddist að Bakka í Geiradal 3. desember árið 1899.

Hún ólst upp hjá foreldrum sínum Sumarliða Guðmundssyni, pósti og konu hans, Jóhönnu Loftsdóttur að Borg í Reykhólasveit. Eiginmaður Ingibjargar var Karl Guðmundsson fæddur 19. nóvember árið 1885. Þau bjuggu lengst af í Valshamri í Geiradal. Karl var sonur Guðmundar Sæmundssonar og Guðbjargar Magnúsdóttur. Hann fæddist í Arnkötludal í Tungusveit og lést árið 1982.

Ingibjörg þótti hagmælt og var hún oft beðin um að yrkja ljóð og eftirmæli við hin ýmsu tækifæri. Aðstandendur Ingibjargar og Karls lögðu í þá vinnu að halda til haga ljóðum þeim sem Ingibjörg hafði samið um ævina. Margt af því hafði því miður glatast en það sem þau höfðu undir höndum kom út í bók árið 1990. Þó voru ljóð sem Ingibjörg vildi ekki láta birta og urðu þau við þeirri ósk móður sinnar. Þá segir ennfremur í formála að ekki hafi verið meiningin að rekja ættir hennar og þeirra hjóna og ekki fékkst leyfi til þess að birta ljóðin fyrr en fáeinum mánuðum áður en hún féll frá. 

Nokkrar vísur eru aftast í bókinni eftir Karls Guðmundsson eiginmann Ingibjargar.

Ingibjörg andaðist 3. júní árið 1989.

Morgunblaðið - 132. tölublað (14.06.1989) - Tímarit.is (timarit.is)


Ritaskrá

1990 Ljósblik liðinna daga, ljóðmæli og lausavísur