SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Svala Hannesdóttir

Svala Hannesdóttir var fædd í Reykjavík 15. desember árið 1928. Foreldrar hennar voru Svanborg Bjarnadóttir og Hannes Björnsson. Svala var ein fimm barna þeirra.

Svala var mikil áhugamanneskja um leikhús og leik og skráði sig í Leikskóla Ævars Kvaran í kringum 1950. Í náminu samdi hún leikþáttinn Hálsfestina fyrir leiksvið en þetta var látbragðsleikur án tals þar sem farið var í hinn mannlega harmleik sem græðgi og ásælni í auðfengið fé er.

Kvikmyndafrumkvöðulinn Óskar Gíslason sá leikþáttinn og vildi setja hann í kvikmyndabúning. Í samstarfi við Óskar og aðstoðarmann hans, Þorleif Þorleifsson, setti Svala leikþáttinn, sem þá hlaut nafnið Ágirnd, í kvikmyndabúning og lék hún sjálf hlutverk hjúkrunarkonu í myndinni. Myndin varð alræmd eftir að hún kom út og var farið hamförum í blöðunum gegn henni og því guðlasti og gjálífi sem hún boðaði. Fjölmiðlafárið endaði með lögregluskoðun á myndinni og voru sýningar á henni stöðvaðar í eina viku, en hófust síðan aftur. 

Í myndinni segir frá auðugri, aldraðri ekkju sem er að dauða komin og handleikur perlufesti sína - dýrgrip sem er henni kær. Hún minnist þess er hún á brúðkaupsdaginn tók við festinni úr hendi brúðguma síns, ungs skipstjóra, sem fórst skömmu síðar. Er gamla konan hefur gefið upp öndina, hverfur festin. Síðan berst hún manna í milli, því margir girnast hana og hver stelur frá öðrum. Það var biskup Íslands sem fór fram á að sýningar yrðu stöðvaðar því myndin sýnir prest stela perslufestinni af líki ekkjunnar.

Eins og fram kom í öllum auglýsingum um kvikmyndina í blöðum var Svala leikstjóri Ágirndar og er því fyrsta konan til að leikstýra leikinni mynd á Íslandi. Eftir útkomu myndarinnar og viðbrögðin sem hún fékk hætti Svala að leika.

Á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldarinnar starfaði Svala við útvarpið við lestur á ljóðum og sögum og einnig sem þýðandi. Hún þýddi meðal annars eina af smásögum Hemmingway, Köttur í regni, fyrir útvarp (23. nóv. 1961) og kvikmyndatexta fyrir sjónvarp.

Svala Hannesdóttir lést í Reykjavík 28. janúar árið 1993 og voru engar minningargreinar skrifaðar um hana.

Ágirnd var sýnd á Kvikmyndahátíð kvenna sem haldin var 1985 en fram að þeim tíma var yfirleitt talað um myndina sem verk Óskar Gíslasonar - fremur en verk Svölu.

Árið 2006 gerði Viðar Eggertsson útvarpsþátt þar sem hann fór yfir sögu Ágirndar og gerð myndarinnar.

Þegar Íslandsdeild WIFT, samtaka kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, var stofnuð var Svölu minnst sérstaklega og hún gerð að fyrsta heiðursfélaganum.

Nánar má fræðast um Svölu Hannesdóttur og kvikmyndina ágirnd í óbirtri BA ritgerð Arínu Völu Þórðardóttur, sem lesa má á Skemman.is: https://hdl.handle.net/1946/38341

Heimildir:

Arína Vala Þórðardóttir, Huldukona íslenskra kvikmynda: Svala Hannesdóttir og staða hennar í íslenskri kvikmyndasögu, óbirt BA-ritgerð í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands 2021.

Kvikmyndavefurinn, Kvikmyndasafn Íslands og heimildaþáttagerð Ásgríms Sverrissonar um íslenska kvikmyndagerð (RUV).

 

 


Ritaskrá

  • 195?  Hálsfestin (leikþáttur)
  • 1952  Ágirnd (kvikmynd Óskars Gíslasonar, byggð á leikþætti Svölu, Hálsfestinni)