![](https://skald.is/rails/active_storage/representations/eyJfcmFpbHMiOnsibWVzc2FnZSI6IkJBaHBBbm9jIiwiZXhwIjpudWxsLCJwdXIiOiJibG9iX2lkIn19--5452ac41394f0476c2dc95263039f8de5efe8c4b/eyJfcmFpbHMiOnsibWVzc2FnZSI6IkJBaDdDem9VYzJGdGNHeHBibWRmWm1GamRHOXlTU0lLTkRveU9qQUdPZ1pGVkRvTWNYVmhiR2wwZVdsYU9ncHpkSEpwY0ZRNkRtbHVkR1Z5YkdGalpVa2lDVXBRUlVjR093WlVPZzlqYjJ4dmNuTndZV05sU1NJSmMxSkhRZ1k3QmxRNkRHTnZiblpsY25RdyIsImV4cCI6bnVsbCwicHVyIjoidmFyaWF0aW9uIn19--025048454440a4ffbe1bfbd2ffec4bffda87ad8b/Gu%C3%B0r%C3%BAn.jpg)
Guðrún Jónína Magnúsdóttir
Guðrún Jónína Magnúsdóttir er fædd árið 1949. Hún ólst upp í Andakílsárvirkjun og á Akranesi en hefur búið víða, þ.e. á Húsavík, Akureyri, Þórshöfn á Langanesi, Hellu, Reykjavík og í Garðabæ.
Guðrún tók landspróf frá GSA vorið 1965, var í öldungadeild MA og VMA en lauk síðar skrifstofutækni árið 1989. Ásamt því að sinna bókhaldsnámi og ýmsum tölvunámskeiðum nam Guðrún einnig skapandi skrif hjá VMA, í H.Í. og víðar. Guðrún nam listmálun hjá Mími, Sjöfn Har. og víðar, og sömuleiðis lærði hún og kenndi síðar postulínsmálningu.
Guðrún hefur starfaði víða, í frystihúsum, á sjúkrahúsum og við skrifstofustörf, og nú hin seinni ár við kennslu og ritstörf. Hún hefur sent frá sér bæði laust mál og bundið. Hún hefur allt frá árinu 2001 ort kvæði við ýmis tækifæri eftir pöntunum og sömuleiðis á hún ljóð í ýmsum safnritum, á borð við Vængjatök – hugverk sunnlenskra kvenna, og í Ljóðum borgfirskra kvenna, Þá hafa birst eftir Guðrúnu smásögur í Æskunni og Borgfirðingabók.
Guðrún hefur sent frá sér sjö verk. Tvær barnabækur í bundnu máli, þrjár ástarsögur og loks tvær sögur sem hverfast um ofbeldi í garð kvenna, annars vegar Álfadalur (2022) sem ber undirtitilinn: Sönn saga um kynferðisofbeldi, þöggun og afleiðingar þess og Rokið í stofunni (2024) sem fjallar um meintar ástandsstúlkur og nauðgunarvistun þeirra á Kleppjárnsreykjum.
Ritaskrá
- 2024 Rokið í stofunni
- 2022 Álfadalur
- 2008 Birta
- 2007 Silja
- 2006 Harpa
- 2007 Tíu litlir sveitastrákar
- 2006 Sagan af Sæmundi súpermús