SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jarþrúður Jónsdóttir

Jarþrúður Jónsdóttir 1851-1924 var fædd í Reykjavík, dóttir hjónanna Jóns Péturssonar, síðar háyfirdómara og Jóhönnu Bogadóttur frá Staðarfelli.

Jarþrúður dvaldi nokkur ár við nám í Danmörku og Skotlandi, því nám við Menntaskólann í Reykjavík var þá utan seilingar kvenna. Hún starfaði í eitt ár (1889) sem þingskrifari, fyrst kvenna, en síðar sem kennari við Kvennaskólann í Reykjavík.

Hún tók virkan þátt í ýmsum þjóðþrifamálum eins og stofnun Thorvaldsensfélagsins og barðist fyrir stofnum Háskóla Íslands ásamt fleiri félögum í „Hinu íslenska kvenfélagi“ sem stofnað var 1894. Félagskonur sendu áskorun á Þingvallafund 1895 þar sem þær fóru m.a. fram á kosningarétt kvenna. Ólafía Jóhannsdóttir var fulltrúi félagsins á fundinum.

Jarþrúður var kvenréttindakona og blaðamaður. Hún var ritstjóri blaðsins „Framsókn. Blað íslenskra kvenna“ sem var fyrsta blað sem fjallaði um stöðu og réttindi kvenna á Íslandi og var gefið út á Seyðisfirði. Blaðið keypti Jarþrúður árið 1899 ásamt Ólafíu, og þar birtust þýðingar, frumsamdar greinar hennar og ljóð.

Kunnust almenningi var hún fyrir „Hannyrðabókina“ (Leiðarvísir til að nema ýmsar kvenlegar hannyrðir. Rvk.: Sigm. Guðmundsson, 1886) sem hún samdi ásamt systur sinni Þóru og frænku þeirra Þóru Pétursdóttur. Bókin náði mikilli útbreiðslu og vinsældum, enda ekki völ á öðru kennsluefni á þessu sviði. (Önnur útgáfa (ljósprentun af frumútgáfu) var gefin út á Akureyri af Jenny Karlsdóttur, 1999.)

Ljóð, greinar og þýðingar Jarþrúðar birtust í ýmsum tímaritum auk Framsóknar, eins og Þjóðólfi, Dvöl o. fl.

Árið 1919 kom út bókin „Ljóð eftir Heine“ sem Alexander Jóhannesson sá um útgáfu á. Í bókinni eru birtar ljóðaþýðingar helstu stórskálda sem glímt hafa við Heine. Jarþrúður er eina konan sem á þar ljóð.

 

Hér má fletta verkinu Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir 


Ritaskrá

  • 1886 Leiðarvísir til að nema ýmsar kvenlegar hannyrðir, ásamt Þóru Jónsdóttur og Þóru Pétursdóttur.