SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Bína Björns

Bína Björns hét fullu nafni Jakobína Björnsdóttir. Hún fæddist 25. maí árið 1874 á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu. Faðir Bínu deyr þegar hún er aðeins sjö ára gömul og eftir fimm erfið ár flytur fjölskyldan í Reykjahlíð árið 1886. Bína naut nokkurrar skólamenntunar og þá m.a. hjá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur á Arnarvatni og síðan á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði veturinn 1890-91. Árið 1894 giftist Bína Hjálmari Stefánssyni bónda og bjuggu þau á Ljótsstöðum í Laxárdal. Þau eignuðust þrjú börn, Arinbjörn f. 1896, Egil f. 1898 og Bjarneyju f. 1902, en skildu á meðan hún gekk með Bjarneyju. Bæði voru þau hagmælt og viðhélt skáldskapurinn tengslum þeirra og sáttum til æviloka.

Bína lagði stund á ljósmóðurnám og kjólasaum í Reykjavík á árunum 1904-1905 en það var fátítt að fráskildar mæður sigldu til höfuðborgarinnar til að nema. Bríet, fyrrum kennari og góð vinkona, bjó í Reykjavík og hvatti hana áfram. Bína var síðan ljósmóðir á Húsavík og í nágrenni ásamt því að stunda saumaskap og aðra vinnu.

Elsti sonur Bínu, Arinbjörn, lést úr berklum árið 1910 en Egill hélt til Winnipegs í prestnám. Árið 1923 hélt Bína til Egils, ásamt dóttur sinni, og tóku þau sér eftirnafnið Fáfnis. Árið 1930 vígðist Egill sem prestur en þær mæðgur unnu ýmis störf og lærði Bjarney hárgreiðslu. Bína lést í Winnipeg árið 1941.

Bína byrjaði snemma að yrkja en fór leynt með það. Það birtist því lítið eftir Bínu af skáldskap. Hún birti fáein ljóð undir dulnefni í vestur-íslensku blöðunum og sendi kvæði í bréfum til móður sinnar sem hún bað um að vera eydd að lestri loknum. Árið 1973 safnaði bróðursonur hennar, Björn Sigfússon háskólabókavörður, saman ljóðum Bínu á bók og gaf út undir nafninu Hvíli ég væng á hvítum voðum en dóttir hennar valdi bókartitilinn.

Heimildir:


Ritaskrá

  • 1973 Hvíli ég væng á hvítum voðum