
Oddný Sv. Björgvinsdóttir
Oddný (Sverrisdóttir) Björgvins fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1940 og lést 15. október 2025.
Hún starfaði sem framkvæmdastjóri, ritstjóri, blaðamaður, rithöfundur og ljóðskáld.
Oddný ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Björgvini Þorsteinssyni kaupmanni og Oddnýju Jóhönnu Sveinsdóttur, að Ási á Fáskrúðsfirði. Faðir hennar var Sverrir Einarsson og móðir hennar Ragnheiður Björgvinsdóttir, þau skildu og Ragnheiður bjó á Englandi þar sem hún rak fornmunaverslun.
Oddný varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands og BA-próf í ensku og íslensku frá Háskóla Íslands. Hún var tvígift og eignaðist fimm börn með fyrri eiginmanni sínum.
Að loknu námi starfaði Oddný um skeið við kennslu. Síðar varð hún fyrsti framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda. Ferðaðist hún vítt og breitt um landið og var frumkvöðull í að kynna fyrir almenningi og ferðamönnum fjölbreytta kosti í gistingu til sveita.
Þá var hún um tíma blaðamaður á Morgunblaðinu þar sem hún sérhæfði sig í að skrifa um ferðamál. Hún var einnig fyrsti ritstjóri tímaritsins Listin að lifa, sem gefið var út af Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssamtökum eldri borgara. Fjallaði hún þar um málefni eldri borgara víðs vegar um land, reynslu þeirra og áhugamál. Einnig tók hún fjölmörg áhugaverð viðtöl fyrir Fréttabréf öryrkjabandalagsins.
Oddný hafði ástríðu fyrir því að ferðast um heiminn og mikinn áhuga á fjölbreyttum trúarbrögðum, heimspeki og menningu. Hún miðlaði reynslu sinni af þessum heimsreisum í útvarpsþáttum, blaðagreinum og bókum.
Eftir Oddnýju liggja ferðabækur, ljóðabækur og smásögur og var hún félagi í Rithöfundasambandi Íslands. Eitt af hugleiknum yrkisefnum hennar voru æskuslóðirnar á Fáskrúðsfirði.
ljósm: Mbl
Ritaskrá
- 2022 Ljóðafellið kallar... komdu heim... heim
- 2019 Fiðrildadansinn í hugskotinu
- 2017 Lífsháski, dulúð, ævintýri
- 2016 Strengjaspil árroðans: steypti yfir mig möttli pílagrímsins leita í duldar vitundir ljóðstafir lifna
- 2009 Og lífsfljótið streymir: ljóðmyndir Obbu frá Ási
- 1997 Safaríparadísin Kenýa: Íslendingar á veiðislóð Savannagresju Austur-Afríku
- 1990 Níu nornaljós
- 1990 Þegar prentljósin dansa
Þýðingar
- 1999 Hnykkurinn: síðasti áratugur mannkynsins? eftir M.R. Narendra
