SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Halla Margrét Jóhannesdóttir

Halla Margrét Jóhannesdóttir er fædd í Reykjavík árið 1965 en ólst upp í Garðabæ.

Halla Margrét varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1985, lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni árið 1988 og leikaraprófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1994. Halla Margrét nam ritlist við Háskóla Íslands og lauk þaðan BA gráðu árið 2011 og MA gráðu árið 2014. Auk þess er hún með yogakennararéttindi og lauk námi í verkefnastjórn og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2023.

Halla Margrét hefur leikið á sviði hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu og ýmsum sjálfstæðum leikhópum meðal annars í Svíþjóð og í Þýskalandi. Þá hefur hún framleitt sýningar og leikstýrt til dæmis Gyðjunni í vélinni sem Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur setti upp í Varðskipinu Óðni vorið 2007, hún skrifaði og leikstýrði Gaggað í grjótinu í Melrakkasetrinu í Súðavík árið 2010 og var ein höfunda og lék í Dauðasyndunum í Borgarleikhúsinu árið 2008. Þá hefur hún einnig leikstýrt allmörgum sýningum hjá áhugaleikfélögum. Halla Margrét á að baki fjölmörg hlutverk í kvikmyndum eins og Roklandi og Okkar eigin Olsó og sjónvarpsþáttum til dæmis Fangavaktinni, Rétti 2 og Verbúðinni. Þá hefur hún leikið í Útvarpsleikhúsinu, lesið miðdegissöguna og barnasögur ásamt því að vera ötull lesari hjá Hljóðbókasafninu.

Halla Margrét hefur sinnt ýmsum störfum og fjölbreyttum verkefnum í gegnum tíðina. Hún var verkefnastjóri miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur á árunum 2021 til 2025, safnvörður á Listasafni Einars Jónssonar og hefur kennt börnum og fullorðnum sund, leikfimi, yoga, leiklist og skapandi skrif.

Halla Margrét stofnaði Nikku forlag til að gefa út ljóðabækur sínar, 48 árið 2013 og Ljós og hljóðmerki árið 2019. Þá gaf Nikka forlag út Saltvatnaskil eftir Hrafnhildi Þórhallsdóttur og Dagar og nætur í Bueons Aires eftir Ólöfu Ingólfsdóttur árið 2014.


Ritaskrá

  • 2019 Ljós og hljóðmerki (ljóðabók)
    2015 Ég erfði dimman skóg (ljóðverk - samsköpun)
    2013 48 (ljóðabók)
    2010 Gaggað í grjótinu (leikrit)
    2008 Dauðasyndirnar (leikrit - samsköpun)

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2001 Brynjólfssjóður, styrkþegi. Félag íslenskra leikara

Tilnefningar

  • 2009 Grímuverðlaunin: Leikskáld ársins. Dauðasyndirnar
    2002 ÍMARK: Kynningarefni ársins. Leikari til sölu
    2002 ÍMARK: Óvenjulegasta auglýsing ársins. Leikari til sölu