Björg Elín Finnsdóttir
Björg Elín Finnsdóttir er bæði skáld og rithöfundur. Hún lauk diplómanámi frá Háskólanum á Bifröst og kenndi við Grunnskóla Stokkseyrar og Grunnskóla Ólafsfjarðar. Þá starfaði hún einnig á Listasafni Íslands en síðustu ár hefur hún unnið sem vefsíðnatextahöfundur. Lengst af hefur Björg Elín búið í Reykjavík, en einnig í Kaupmannahöfn og Bandaríkjunum þar sem hún nam við Newport School of Music í Rhode Island fylki. Björg Elín býr nú í Þingholtunum.
Björg Elín hefur sent frá sér þrjár bækur. Árið 1987 kom út bókin Í sólskinsskapi, árið 1995 ljóðabókin Ljóðaleikir og barnabókin Amma Lóló og ég kom út árið 2008. Björg Elín byrjaði þó mun fyrr að skrifa en allt frá táningsaldri, í kringum 1970, hefur birst efni eftir hana í blöðum og tímaritum; fjölmargar smásögur og ljóð í Lesbók Morgunblaðsins, Vikunni, barnablaðinu Æskunni, Herópinu, og Stínu - tímariti um bókmenntir og listir. Þá hefur efni eftir Björgu Elínu birst í safnritum: Smásaga og ljóð í bókinni Vængjatök - hugverk sunnlenskra kvenna og ljóð í ljóðabókinni Hundrað og 1 ljóð. Ennfremur hafa ljóð eftir Björgu Elínu birst í enskri þýðingu, bæði hér á landi í The Reykjavík Grapevine og erlendis, í Bretlandi, í tímaritinu Passport, og í Kanada, í Lögbergi Heimskringlu.
Árið 1996 var ljóð eftir Björgu Elínu valið til flutnings í þætti Njarðar P. Njarðvík, Ljóði dagsins á RÚV og árið 2001 vann hún til verðlauna fyrir smásögu í Fókus DV.
Ritaskrá
- 2008 Amma Lóló og ég
- 1995 Ljóðaleikir
- 1987 Í sólskinsskapi