SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Dýrólína Jónsdóttir

Dýrólína Jónsdóttir var fædd 30. janúar 1877 á Hrauni í Goðdalasókn. Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson (1847–1914) og Guðrún Pálsdóttir (1849–1884). Dýrólína stundaði nám við Kvennaskóla Akureyrar í tvo vetur (1897–1899) og seinna var hún einn vetur í Reykjavík og fékk þá einhverja tilsögn hjá frænda sínum, Pálma Pálssyni menntaskólakennara frá Tjörnum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Hún kenndi síðan á heimaslóðum, í Goðdalasókn, árin 1902–1906 og 1907–1909. Dýrólína giftist Birni Guðmundssyni bónda að Fagranesi á Reykjaströnd þar 9. maí 1915. Bjuggu þau eftir það í tvíbýli við tengdafólk hennar. Þau Dýrólína og Björn eignuðust tvær dætur, Ingibjörgu, fædda 20. nóvember 1918, kennara í Reykjavík, og Áslaugu, fædda 22. júní 1922, húsfreyju á Sauðárkróki (d. 1995). Dýrólína var ekki mjög heilsuhraust og var bærinn á Fagranesi bæði gamall og lélegur og jók það á heilsuleysi hennar. Í byrjun árs 1939 varð hún varð fara á sjúkrahúsið á Sauðárkróki og var sú vist upphafið að banalegu hennar. Dýrólína lést 22. júní 1939 og hvílir í Sauðárkrókskirkjugarði.

Kristján Eiríksson, bókmenntafræðingur, hefur skrifað góða grein um Dýrólínu og skáldskap hennar í tímaritið Són og er það sem hér fer á eftir byggt á skrifum hennar.

Dýrólína fór ung að fást við vísnagerð og seinna skrifaði hún einnig sögur sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Um skáldskapariðkun Dýrólínu farast Ingibjörgu, dóttur hennar, svo orð:

„Ekki veit ég hvers vegna móðir mín lagði fyrir sig annan skáldskap en ljóðagerð. Hún dáði menntun og unni öllu sem þjóðlegt var og sjálfsagt hefur hugur hennar staðið til annars en að verða fátæk bóndakona. Ef til vill hefur skáldsagnaritunin verið henni uppbót á það er hana sjálfa skorti. Stundum hefur mér dottið í hug að hún hafi lifað í tveimur heimum, þeim raunverulega þar sem lífsbaráttan var vægðarlaus, og hins vegar heimi skáldskapar, sem hún skapaði sér sjálf og gat ráðið gangi mála. Eins og aðrar sveitakonur átti hún fáar tómstundir en væru þær einhverjar þá notaði hún þær til að skrifa. Einkum var það seint á kvöldin þegar aðrir voru sofnaðir að hún tók fram blöðin sín og hófst handa, en pappír kostaði peninga og hann þurfti að spara eins og annað, þess vegna var hvert pappírsblað notað.“

Snemma kom í ljós að Dýrólína var mjög hagmælt og snemma fór hún að kasta fram vísum. Mun faðir hennar, sem var prýðilega hagmæltur, hafa ýtt undir það. Í æsku orti Dýrólína gjarnan kersknisvísur eins og unglingum er títt og munu þær hafa flogið um sveitina og þá ekki alltaf verið hafðar yfir henni til hróss. Um þennan kveðskap sinn getur hún í bréfi til Margeirs Jónssonar á Ögmundarstöðum 28. janúar 1922: „Ég var mjög ung þegar ég byrjaði fyrst að yrkja og fékk þegar orð á mig sem orðheppinn og smellinn hagyrðingur — og herti það á mér að halda áfram. Seinna komst ég að raun um að til voru bæði karlar og konur er öfunduðu mig af hrósinu — og reyndu að draga úr því með því að halda á lofti grófustu vísunum eftir mig, vísum sem ég kastaði fram í hugsunarlausum gáska.“

Smásaga Dýrólínu, „Olnbogabarnið,“ birtist í Nýjum kvöldvökum 1926 en fátt annað mun hafa birst eftir hana á prenti í lausu máli og ekki entist henni aldur og heilsa til að ganga frá sögum sínum til prentunar. Hún varð því aldrei þekkt fyrir þá grein skáldskapar sem metnaður hennar stóð fyrst og fremst til. Aftur á móti urðu ýmsar lausavísur hennar landsþekktar og mun það ekki síst hafa verið að þakka Stuðlamálum Margeirs Jónssonar á Ögmundarstöðum en í fyrsta hefti þeirra birtist úrval vísna hennar 1925.

Kristján Eiríksson skrifar: „Hagmælska Dýrólínu var mikil og flestar bestu vísur sínar kveður hún undir hringhendum hætti þar sem hún bregður upp lifandi myndum úr náttúrunni. Dýrt formið krefst hnitmiðunar og nákvæmni í orðavali eigi skáldskapurinn ekki að snúast í leirburð og skiptir þar ekki minnstu máli að velja innrímsorðin af kostgæfni því í þeim býr hljómur vísunnar og blær fyrst og fremst. Þá ríður ekki síður á að sú mynd sem dregin er upp í hringhendunni sé skýr og lifandi svo vísan verði ekki bara eyrnalist og hljómi sem hvellandi bjalla [...] Næmt auga skáldkonunnar fyrir landinu, árstíðaskiptum og litbrigðum jarðarinnar kemur hvergi betur fram en í meitluðum hringhendum hennar þar sem lifandi náttúran skartar í blæbrigðum sínum. Jafnast þær vísur hennar fyllilega á við það sem fegurst hefur verið kveðið undir þessu þaulræktaða formi eða hvar getur nærfærnari lýsingu á næturkyrrð að vori eftir gróðrarskúrir dagsins en í þessari vísu hennar:

Allt er hljótt um haf og sund,

hulið óttuskýlu,

tárast nótt en grátin grund

gengur rótt til hvílu.

Áður en Dýrólína fór í sína síðustu för á sjúkrahúsið tók hún talsvert af skáldskap sínum og brenndi, því hún taldi hann ekki þess virði að halda honum til haga. Dýrólína var meistari lausavísunnar og þótt hún héldi þeim lítt til haga er furðumargt varðveitt af þeim. Nokkrar sendi hún blöðum og tímaritum þegar hún var ung að áeggjan föður síns og voru þær birtar umyrðalaust. Þá birti Margeir Jónsson á Ögmundarstöðum nokkrar vísur eftir hana í fyrsta hefti Stuðlamála 1925 og einnig hafa varðveist í vísnasöfnum ýmissa manna vísur eftir Dýrólínu, svo og í minni fólks.

Á Héraðsskjalasafninu á Sauðárkróki er varðveitt bréfasafn Margeirs á Ögmundarstöðum og eru þar í bréf Dýrólínu til hans vegna útgáfu Stuðlamála. Eru þau bréf ekki síst merkileg vegna þess að í þeim má fá ýmsar upplýsingar um afstöðu hennar til skáldskapar bæði síns eigin og annarra. Í Safnamálum 1990 er þáttur um Dýrólínu eftir Kristmund Bjarnason og Ingibjörgu Björnsdóttur, dóttur Dýrólínu. Nefnist hann „Dýrólína Jónsdóttir og vísur hennar“. Þar rekur Ingibjörg ævi móður sinnar í stuttu máli. Í októberhefti Heima er bezt árið 1991 er þáttur um Dýrólínu eftir Ingibjörgu og Kristmund Bjarnason. Þar rekur Ingibjörg einnig ævi móður sinnar og einnig eru birtar nokkrar lausavísur Dýrólínu. Í nóvemberhefti Heima er bezt sama ár eru einnig birt fleiri ljóð eftir Dýrólínu.

Ingibjörg, dóttir Dýrólínu, lýsir móður sinni svo:

„Móðir mín var lág vexti en þéttvaxin eins og ég minnist hennar. Hins vegar hef ég heyrt frá þeim sem þekktu hana unga að hún hafi þá verið grönn en þótt mjög smávaxin. Hún var dálítið rauðbirkin, stóreygð og gráeygð, með mikið og fallegt rauðgult hár, næstum gyllt. Oftast var hún glaðleg í framkomu, röskleg og vildi láta verkin ganga, „láta hendur standa fram úr ermum“ eins og hún komst að orði. Orðhög var hún svo af bar og mjög vel hagmælt, átti létt með að svara fyrir sig með vísu og gerði það gjarnan en því miður eru flestar þeirra gleymdar. Hún hélt þeim ekki til haga og því fór sem fór. Í samtali við fólk held ég að henni hafi aldrei verið orða vant.“

Heimildir

Kristján Eiríksson, „Er mitt heiti út í skóg.“ Um lausavísur Dýrólínu Jónsdóttur. Són, 2. árg. 2004, bls. 115-131.


Ritaskrá

  • 1991    Vísur í Heima er bezt
  • 1926    Olbogabarnið, saga í Nýjum kvöldvökum
  • 1925    Vísur í Stuðlamálum, 1. hefti