Edda Andrésdóttir
Edda fæddist 28. desember 1952, önnur í röð þriggja systkina. Foreldrar hennar eru Svava Jónsdóttir húsmóðir og Andrés Magnússon verkstjóri í Hvalstöðinni sem var mikill bókaáhugamaður. Edda ólst upp á Kleppsveginum en dvaldi öll sumur hjá ömmu sinni á Kirkjubæ í Vestmannaeyjum. Hún hóf fjölmiðlaferil sinn sem blaðamaður á Vísi 19 ára gömul, Meðfram blaðamennskunni sá hún um þáttagerð fyrir útvarp og sjónvarp. Hún var um skeið ritstjóri tímaritsins Húsa og híbýla, frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkissjónvarpinu og síðan gerðist hún framkvæmdastjóri Film hf. með Hrafni Gunnlaugssyni. Þá tók blaðamennskan við á ný, í þetta sinn hjá Helgarpóstinum. Hún sneri síðan aftur til Sjónvarpsins í fréttamannsstöðu og þaðan fór hún til Stöðvar 2 sem dagskrárgerðarmaður og fréttaþulur. Þar hefur hún lengst af starfað og er landsþekkt sem fjölmiðlakona.
Edda hefur ritað endurminningar sínar frá æskuárum í Vestmannaeyjum þar sem hún lýsir m.a. gosinu í Heimaey 1973 og dregur upp mynd af tíðaranda síðari hluta tuttugustu aldar og draumum og veruleika íslenskrar alþýðufjölskyldu. Einnig skrifaði hún eins konar minningabók sem fjallar m.a. um það þegar alzheimer-sjúkdómur dró föður hennar til dauða á örskömmum tíma. Þá hefur Edda fjallað um tvær sterkar konur í viðtalsbókum; Auði Sveinsdóttur Laxness og séra Auði Eiri.
Hér lýsir Edda bók sinni Í öðru landi (2007).
Mynd af Eddu: eyjar.net
Ritaskrá
- 2013 Til Eyja
- 2007 Í öðru landi, saga úr lífinu
- 2005 Auður Eir. Sólin kemur alltaf upp á ný. Edda Andrésdóttir ræðir við Auði Eir Vilhjálmsdóttur
- 1984 Á Gljúfrasteini. Edda Andrésdóttir ræðir við Auði Sveinsdóttur Laxness