SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elín Ólafsdóttir

Elín Ólafsdóttir fæddist í Litladal í Svínavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu 22. september 1929. 15 ára gömul flutti hún til Reykjavíkur og sinnti barnagæslu og öðrum heimilisstörfum. Þar kynnist hún eiginmanni sínum, Haraldi Karlssyni, húsasmíðameistara. Þegar líða tók að hausti 1945 fór Elín til náms í Héraðsskólann á Laugarvatni og var þar til 1947. Það var ekki algengt meðal ungra stúlkna í þá daga, að stunda nám lengur en nauðsyn þurfti. Elín smitaðist híns vegar af lungnabólgu og síðar berklum sem varð til þess að hún lauk ekki skólanámi eins og til stóð. Þegar hún hresstist gengu þau Haraldur í hjónaband og bjuggu í Reykjavík en vorið 1951 hófu þau búskap á föðurarfleifðinni í Litladal og bjuggu þar um 13 ára skeið. Vorið 1963 brugði þau búi og fluttu til Reykjavíkur. Þau eignuðust sjö börn saman og að auki eignaðist Haraldur önnur sjö þegar leiðir þeirra Elínar skildu um hríð.

Elín vann fyrst við ræstingar á Landspítalanum en lengst af var hún forstöðumaður skjalasafnsins þar. Í minningargrein um Elínu segir m.a.

„Elín var alla tíð mjög vel skipulögð til allra starfa, afar skynsöm, dugleg, ósérhlífin, og drífandi í því sem hún fékkst við. Að lokum fór þó svo að Elín hætti störfum utan heimilis sökum veikinda og aldurs. En þá tók einfaldlega annað við, nefnilega skólaganga sem henni fannst hún aldrei hafa almennilega lokið þegar hún var ung. Hún sótti um tíma námskeið í Háskóla íslands og upp úr því hófst rithöfundarferill hennar, sem því miður varð allt of stuttur. Elín var mikill bókmenntaunnandi og eftir að hún hætti hefðbundnu starfi gafst henni loks færi á að reyna fyrir sér við ritstörf. Þetta var nokkuð sem lengi hafði verið að brjótast í henni og það varð úr að hún hóf heimildaöflun. Hún keypti tölvu, var fljót að læra á hana og hóf að skrifa. Og hún notaði eins mikið af frítíma sínum og kostur var til vinnu við bókina sína fyrstu. Hún ákvað að skrifa um þrjár formæður Haralds, alþýðukonur sem allar hétu Sólveig. Þessi bók sýnir betur en nokkuð hvers Elín var í raun megnug. Það var sama hvað hún fékkst við, allt virtist henni mögulegt. Hún skrifaði, las, lagfærði, endurskrifaði og þannig koll af kolli varð til bókin hennar hin fyrsta.“

Hin síðustu ár vann Elín við ritstörf. Bók hennar, Sólveiga saga, er í senn örlagasaga margra íslenskra alþýðukvenna á 18. og 19. öld. Elín vann hörðum höndum að bók sinni og tókst að ljúka henni áður en hún lést úr krabbameini, 12. apríl 2000.


Ritaskrá

  • 2000 Sólveiga saga. Örlög þriggja kvenna úr Laxárdal