SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elín Pálmadóttir

Elín fæddist 31. janúar 1927. Foreldrar hennar voru Tómasína Kristín Árnadóttir og Pálmi H. Jónsson, skrifstofustjóri. Elín varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947, stundaði frönsku- og enskunám við Háskóla Íslands, starfaði síðan við Heimilisblaðið Vikuna og vann við blaðamennsku frá 1952 en hún er handhafi blaðamannaskírteinis nr. 4. 

Elín  starfaði hjá utanríkisráðuneytinu 1948-1952 og við sendiráð Íslands í París 1950-1952.  Árið 1958, réðst hún til Morgunblaðsins þar sem hún starfaði allt til ársins 1997 að hún komst á eftirlaunaaldur. Hún var ein örfárra kvenna, sem störfuðu á ritstjórn Morgunblaðsins á síðustu öld.

Elín tók þátt í stjórnmálum og var borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1970-1982. Þá hefur hún látið umhverfismál mjög til sín taka, var m.a. formaður Náttúruverndarnefndar Reykjavíkur og umhverfismálaráðs 1970-1978 og átti sæti í Náttúruverndarráði um margra ára skeið.

Elín hefur skrifað nokkrar bækur, m.a. sjálfsævisöguna Eins og ég man það þar sem hún lítur m.a. yfir farinn veg á ferli sínum sem blaðamaður. Þá hefur Elín tekið þátt í starfi Blaðamannafélagsins með margvíslegum hætti og átti þar sæti í stjórn um tíma.

Elín ritaði ævisögu Gerðar Helgadóttur myndlistarkonu, en þær voru nánar vinkonur. Bókkin kom út 1985. Hún hefur í gegnum árin gefið Gerðarsafni listaverkagjafir eftir Gerði og haldið nafni listamannsins mjög á lofti.

Elín ritaði fjölda greina í blöð og tímarit. Hún var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunna 1990 fyrir Fransí Biskví, frönsku Íslandssjómennirnir sem einnig var gefin út í Frakklandi.

Mynd: mbl.is


Ritaskrá

 • 2009 Fransí Biskví: franskir fiskimenn við Íslandsstrendur : þriggja alda baráttusaga 
 • 2003  Eins og ég man það
 • 1996 Með fortíðina í farteskinu
 • 1985  Gerður: ævisaga myndhöggvara

Verðlaun og viðurkenningar

 • 2015 Sæmd æðsta heiðursmerki sem veitt eru í Frakklandi, Ordre National de la Légion d’Honneur
 • 2004 Heiðruð fyrir einstakt framlag sitt til náttúru- og umhverfisverndarmála um margra áratuga skeið
 • 1997 Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
 • 1997 Sæmd frönsku orðunni Ordre National du Mérite.
 • 1993 Heiðursviðurkenning frá hinu íslenska náttúrufræðifélagi
 • 1992 Heiðursviðurkenning Blaðamannafélags Íslands 
 • 1990 Tilnefning til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Fransí Biskví, frönsku Íslandssjómennirnir, Les Pêcheurs Français en Islande