SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elín Vigfúsdóttir á Laxamýri

Elín Vigfúsdóttir fæddist 29. september 1891 á Vatnsenda í Skorradal. Þegar hún var tveggja ára flutti fjölskyldan að Gullberastöðum í Lundarreykjadal. Hún var farkennari í Borgarfirði á árunum 1913-1919 en flutti ári síðar til Bessastaða og þaðan árið 1928 að Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu. Eiginmaður hennar var Jón H. Þorbergsson óðalsbóndi. Þau eignuðust sex börn. Ein dóttir hennar er Þóra Jónsdóttir, skáldkona.

Um Elínu segir í minningargrein:

Elín Vigfúsdóttir var glæsileg kona, sem aflaði sér góðrar menntunar miðað við þann tíma og tíðaranda. Árið 1921 giftist hún Jóni H. Þorbergssyni, bændahöfðingja, hugsjónamanni, sem vildi landi og þjóð allt það besta sem til framfara mátti teljast. Elín Vigfúsdóttir stýrði húsum á tveimur vildisjörðum, Bessastöðum og Laxamýri. Hún hefur örugglega átt mikinn þátt í hinni merku búsögu þeirra hjóna. En þess ber að geta að þrátt fyrir stórt heimili gaf hún sér tíma til að leika á þá hörpu sem henni var gefin, enda vitnar Ijóðabók hennar, sem ber nafnið Fagnafundur, hversu létt hún átti með að leika á ljóðhörpu sína og verður að teljast lífsafrek að geta sætt stórbrotna skáldhneigð við skyldustörf heimilis sem krafðist svo mikils. Ég hygg að það sé ekki ofmælt að jafnlyndi hennar og þolgæði, ásamt óvenju skörpum gáfum og ást á öllu sem lifir, hafi verið sterkust einkenni hennar.“

Aðeins ein ljóðabók Fagnafundur kom út eftir Elínu. Það var árið 1977 en hún birti ljóð sín víða, m.a. í safnritinu Þá rigndi blómum sem geymir efni eftir borgfirskar konur og einnig í Árbók Þingeyinga

Árið 1980 var afhjúpaður minnisvarði um Jóhann Sigurjónsson skáld frá Laxamýri og var við það tækifæri flutt frumort kvæði eftir Elínu. Þá var hún 87 ára gömul. Elín lést 22. ágúst 1986.

Mynd af Elínu: Mats Wibe Lund


Ritaskrá

  • 1977 Fagnafundur