SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Erla Þórdís Jónsdóttir

Erla Þórdís fæddist í Reykjavík 9. febrúar 1929. Hún var einkabarn foreldra sinna, Jóns Alexanderssonar útvarpsvirkja og Þórunnar Jónsdóttur konu hans.

Erla Þórdís lauk stúdentsprófi 1948 og sama ár giftist hún Valdimar Ólafssyni flugumferðarstjóra. Þau eignuðust sjö börn á fimmtán árum en skildu árið 1965.

Erla Þórdís tók kennarapróf 1966 og starfaði við kennslu eftir það í rúman áratug. Hún giftist seinni manni sínum Helga Kolbeinssyni, bifvélavirkja, árið 1967.

Erla Þórdís varð að ganga undir mikla læknisaðgerð 1972 vegna krabbameins og missti hún þá annað augað. Eftir aðgerðina hafði hún sæmilega heilsu í sjö ár, sinnti kennslu og kom börnum sínum til þroska. En meinið tók sig upp aftur og voru síðustu átta ár ævi hennar óslitin barátta. Erla Þórdís lést 28. febrúar 1987.

Á yngri árum skrifaði Erla Þórdís Bernska í byrjun aldar, sem er aldarfarslýsing og styðst hún í bókinni við minningar móður sinnar. Síðar átti dóttir Erlu Þórdísar, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, eftir að byggja að hluta til á ævi móður sinnar í skáldættarsögunni Stúlka með maga (2013).

Árið 1985 kom út eina ljóðabók Erlu Þórdísar, Maldað í móinn, og samin hafa verið lög við ýmis ljóð eftir hana. 

Smásaga eftir Erlu Þórdísi, „Sendur með svipu“, birtist í Tímariti Máls og menningar 2014.

 


Ritaskrá

  • 1985  Maldað í móinn (ljóð)
  • 1951  Bernska í byrjun aldar: saga handa börnum og unglingum

 

Heimildir: Minningargreinar í Morgunblaðinu 11. mars 1987