SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Eva Hjálmarsdóttir

Eva Hjálmarsdóttir fæddist í Stakkahlíð í Loðmundarfirði 16. nóvember árið 1905. Um 10 ára aldur veiktist hún af flogaveiki og heilsan versnaði með árunum. Næstum óslitið dvaldi hún á sjúkrahúsum hér og erlendis og langtímum var hún rúmföst. Eva var í Skagafirði um 1930, hún andaðist í Víðihlíð 13. júlí 1962.

Eva hóf ung að fást við ritstörf og mun hún hafa samið mestan hluta efnis í bókinni Hvítum vængjum á árunum 1917-1922 þegar hún var á aldrinum 12-17 ára. Hún skrifaði bernskuminningar, gamansögur, ævintýri, ljóð og sögur og fékk birt efni í tímaritum, eins og Eimreiðinni, Jörð og Stígandi. Þá ritaði hún pistla um drauma og dulrænar frásagnir í Vísi um hríð. Auk Hvítra vængja send hún frá sér bækurnar Það er gaman að lifa (1947) Paradís bernsku minnar (1948) Margt er smátt í vettling manns (1952) sem hún gaf út á eigin kostnað og Á dularvegum (1956).

Bækur Evu fengu milda dóma, kannski vegna veikinda hennar sem ávallt er getið í umfjöllun um verk hennar. Um Á dularvegum segir í Tímanum 2.12.1956: „Hér er um töluvert óvenjulega bók að ræða. Höfundurinn, Eva Hjálmarsdóttir, er alkunn af fyrri bókum sínum, Ijóðum, barnasögum og æskuminningum. Hún er gáfuð og listhneigð kona, sem ritar fagurt mál. Lífsreynsla hennar er þung, og það mótar lífsviðhorf hennar og frásögn. Í þessari bók segir hún frá dulrænni reynslu sinni ýmiss konar, en þó einkum draumum, sem reynzt hafa forsagnir og fyrirboðar. Þetta eru allt örstuttar sögur, sagðar á einföldu og fögru máli, engar málalengingar. Eru draumarnir og atvik þau sem sagt er frá harla athyglisverðir. Þeir, sem hugsa um þessi efni, munu kunna að meta þessa bók Evu. En mönnum mun ekki aðeins finnast um tilefni þessarar bókar heldur eigi síður hve vel og hófsamlega þessar stuttu sögur eru sagðar.“

Jakob Jónsson skrifaði afar lofsamlega ritdóm um Á dularvegum í Morgunblaðið, 23. apríl 1947 og spáði því að skáldverk hennar ættu langt líf fyrir  höndum. Um bók Evu Það er gaman að lifa segir Jóhann Frímann í ritdómi í Nýjum kvöldvökum 1947: „Það er gaman að lifa, nefnir skáldkonan Eva Hjálmarsdóttir frá Stakkahlíð nýja bók eftir sig, en í bókinni eru nokkra smásögur, bernskuminningar, ævintýri og þulur. Það kann að virðast furðulegt, að farlama sjúklingur skuli nefna skáldskap sinn svo léttviðrislegu og bjartsýnu nafni. En hér er þó ekki um uppgerð að ræða. Lífsþorsti sjúklingsins, fegurðarþrá hans og mannást, varpar í raun og sannleika fögrum og heillandi ljóma lífsgleðinnar á þessar látlausu og innilegu sögur. Þar er engan sora að eða dreggjar að finna, heldur sanna og heilbrigða ást og samúð í garð alls þess, sem berst og lifir, manna og dýra.“

Mynd af Evu: https://www.heraust.is/ljosmyndasafn/myndir/411-jolakort-safnsins


Ritaskrá

  • 1956 Á dularvegum
  • 1952 Margt er smátt í vettling manns
  • 1948 Paradís bernsku minnar 
  • 1947 Það er gaman að lifa
  • 1946 Hvítir vængir. Sögur, ævintýri og ljóð