SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Fríða Bonnie Andersen

Fríða Bonnie Andersen fæddist 21. maí 1964 í Bremerton á vesturströnd Bandaríkjanna. Foreldrar hennar voru Richard Charles Andersen og Margrét Björgvinsdóttir. Fjögurra ára gömul fluttist hún með móður sinni og tveimur bræðrum til Íslands og hefur búið í Reykjavík æ síðan. Fríða varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1984 og löggiltur sjúkraþjálfari frá Læknadeild Háskóla Íslands 1990. Þá stundaði hún einnig nám í ritlist við Háskóla Íslands veturinn 2003-2005.

Fríða hefur í gegnum tíðina skrifað töluvert af örsögum sem hafa birst m.a. í tímariti Andblæs og birtist smásagan Brynjan í bókinni Áfram Óli, smásagnasafn fyrir grunnskóla, sem Mál og Menning gaf út 1998. Örsögurnar hafa einnig birst á sviði hjá áhugaleikfélaginu Hugleik og í sjónvarpi þar sem Sigurður Skúlason flutti eintal undir stjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar. Árið 1995 hlaut hún fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni Sjálfsbjargar, Halaleikhópsins og Sambands íslenskra sveitafélaga um aðgengis- og ferlimál fatlaðra, fyrir Fjötur um fót, martröð í einum þætti, sem hún skrifaði ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Unni Guttormsdóttur. Verkið var síðan sýnt á litla sviði Þjóðleikhússins ári seinna Meistari Tumi, skáldsaga fyrir börn kom út 2013 og Að eilífu ástin kom út 2018.

Fríða er sjálfstætt starfandi heimasjúkraþjálfari.


Ritaskrá

  • 2018 Að eilífu ástin
  • 2013 Meistari Tumi