SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn11. febrúar 2019

LJÓÐALESTUR FYRIR HEIM ÁN MÚRA OG HINDRANA - Viðtal við Lindu Vilhjálmsdóttur

Linda Vilhjálmsdóttir skáldkona hefur undanfarnar vikur verið að skipuleggja ljóðalestur fyrir heim án múra og hindrana. Ljóðalesturinn verður í Kringlunni 23. febrúar næstkomandi og mun fjöldi ljóðskálda stíga á stokk. Júlía Sveinsdóttir spurði Lindu um tildrög og umfang ljóðalestursins.

Hver eru tildrög ljóðalestursins?

„Ég var boðin á 17. ljóðahátíðina í Medelín í júlí árið 2007. Þar kynntist ég Fernando Rendón og fjölskyldu hans en hann stofnaði hátíðina 1990 þegar borgarastríðið í Kólumbíu stóð sem hæst og eiturlyfjabarónar höfðu komið miklu óorði á borgina Medelín. Fernando stofnaði hátíðina til að vinna gegn stríði og með friði og einingu. Þetta er stór alþjóðleg ljóðahátíð þar sem skáld frá 70 löndum hittast og lesa víðs vegar um borgina - og stundum í fleiri borgum í um viku tíma. Þar kynntist ég ýmsum skáldum frá Norðurlöndum, ýmsum Evrópulöndum, Asíu, Afríku, Ástralíu og Ameríku. Sambandið helst þó sjaldast eftir slíkar hátíðir en það kemur fyrir að maður hittir skáldin aftur á öðrum hátíðum og þá er eins og maður sé að hitta gamla vini. Fernando Rendón hefur verið duglegur við að rækta samband við alla þá sem komið hafa á hátíðina - fyrst í gegnum tölvupóst en nú hin seinni ár á Facebook.

Fernando Rendón stofnaði síðan Heimsljóðasamtök gegn múrum og hindrunum árið 2011 og bauð öllum þeim fjölda sem hefur tekið þátt í ljóðahátíðinni í Medelín í gegnum áratugina að vera með í þeim.Heimsljóðasamtökin standa yfirleitt fyrir einni alþjóðlegri uppákomu á ári en þá sendir Fernando boð til þeirra sem hann þekkir og biður þá um að standa fyrir slíkri uppákomu í sínu landi. Sömuleiðis hafa samtökin staðið fyrir undirskriftarsöfnunum og sent frá sér ályktanir til að mótmæla þegar málfrelsi og prentfrelsi er ógnað.“

Hvert er fyrirkomulag ljóðalestursins á Íslandi og hverjir taka þátt?

„Ég spurði á Facebook hvaða skáld væru til í að taka þátt í ljóðalestri fyrir heim án múra og hindrana og dágóður hópur bauð sig fram. Ég spurði líka hvar þau vildu helst lesa og fljótlega kom Kringlan upp og margir sem vildu helst vera þar en svo vorum við með Ráðhúsið á lista ef ekki fengist leyfi fyrir uppákomunni í Kringlunni. Leyfið fékkst og þannig að við lesum ljóð fyrir heimi án múra og hindrana klukkan þrjú laugardaginn 23. febrúar í Kringunni.

Þau sem verða með ljóð eru: Margrét Lóa Jónsdóttir, Anton Helgi Jónsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Bubbi Morthens, Didda, Sveinbjörn Baldvinsson, Jóna Guðbjörg Torfasóttir, Ágúst Ásgeirsson, Linda Vilhjálmsdóttir og Jóhann G. Thorarensen, Eva Rún Snorradóttir, Stefán Bogi Sveinsson og Birgitta Jónsdóttir.“

Viðburðurinn Ljóðalestur fyrir heim án múra og hindrana er á Facebook og einnig er vert að benda á greinina Para Victor Hugo con amor eftir Lindu um hátíðina í Medelín sem birtist í 3. tölublaði Máls og menningar árið 2007.