MAGNEA LJÓÐASAFNARI, GJÖRNINGALISTAMAÐUR OG MARGT FLEIRA - Viðtal við Magneu Þuríði Ingvarsdóttur
Júlía Sveinsdóttir rakst á ákaflega skemmtilega vefsíðu ,,Tófan-ljóð kvenna frá örófi alda til okkar daga" og ákvað að kanna málin, fræðast um tilurð vefsins og manneskjuna á bak við hann. Magnea Þuríður Ingvarsdóttir myndlistamaður og menningarfræðingur er sú manneskja og svaraði spurningum mínum fúslega.
Magnea er Reykvíkingur gift, þriggja barna móðir og sexföld amma. Hún ólst upp í Háaleitishverfinu, giftist ung og þau hjónin fluttust til Keflavíkur. Næstu árin tóku við barnauppeldi og baráttan við að hafa í sig og á. Löngunin til mennta var alltaf til staðar en eiginlegt nám hófst ekki fyrr en eftir þrítugt.
Af hverju hugvísindi og listir?
,,Ég hef alltaf haft óbilandi áhuga á myndlist í allri sinni mynd og sótt hin ýmsu námskeið, m.a. í Baðstofunni í Keflavík. Það var gaman að vera ungur myndlistaráhugamaður í Keflavík, gróskan þar var mikil og eldhugarnir margir. Ég lærði margt þar og má nefna meðal annars módelteikingu hjá Eiríki Smith. Um tíma vann ég á bókasafni Reykjanesbæjar og sá til dæmis um barnastarfið og menningar-uppákomur. Leiðin lá svo í Myndlista- og handíðaskólann og útskrifaðist ég úr Listaháskólanum árið 2002. Þaðan fór ég í grunnskólakennaranám við KHI og þaðan í meistaranám í menningarfræðum við Háskóla Íslands. Eftir kennaranámið leitaði hugurinn meira í textaverk, mér fannst spennandi að skoða orð á listrænan máta, framsetningu eins og rými, hljóð og mynd, einskonar gjörning. Að mínu mati nær gjörningurinn að fanga innsta kjarna listarinnar og með honum eru mörkin könnuð til hins ýtrasta. Útskriftarverkefnið mitt frá LHI var hljóðverk. Í því kannaði ég hugmyndina um rými og notaðist við nútímatækni, m.a. var hægt að hlusta á verkið í síma, hvar sem þú varst staddur í heiminum."
Áhrifavaldar
,,Í myndlist eru Birgir Andrésson og Gjörningaklúbburinn sterkir áhrifavaldar og mitt uppáhaldsljóðskáld er Edith Södregran, finnskættuð sænsk skáldkona (1892-1923); ég get lesið ljóðin hennar aftur og aftur. Ég er einnig ákaflega hrifin af fræðastörfum Helgu Kress og Dagnýjar Kristjánsdóttur."
Kennslan
,,Eftir nám í KHI kenndi ég í nokkur ár í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Það var tímabil sem kenndi mér margt og mikið. Að vinna með börnum er það skemmtilegasta sem ég hef fengist við og ég áttaði mig á því að kennarar bera menningararfinn á milli kynslóða. Ég held að mínar feminísku pælingar hafi látið á sér kræla þar."
Á meðan við Magnea spjöllum saman gnauðar aprílvindurinn og snjókoma hefur lokað útgönguleiðum úr Reykjavík. Þá kastar hún fram þessari rímu:
Kal og kviða, hroð og kaldi,
túð og sperra
elsku besti hái herra,
láttu þennan hreggbelg þverra.
Tófan? Af hverju að einblína á verk kvenna og jafnvel gömul og gleymd verk?
Í verkum kvenna eru að finna bæði gull og gersemar, ljóð sem eru myndræn og um leið örlítil gátt inn í menningu fyrri tíma. Mig langaði til þess að fólk geti lesið kvæðin þeirra í dag og þessvegna opnaði ég facebook síðuna (snjáldursíðuna) Tófuna. Tófan leitast við að finna tóninn/röddina í kvæðum kvennanna. Í fyrstu skólaljóðabókinni eru 63 ljóð, þrjú þeirra eru hugverk kvenna! Börn voru markvisst ekki látin læra ljóð eftir konur nema að örlitlu leyti en verk eftir konur hafa einhverja sögu að segja og því ber að halda til haga.
Mér finnst það skipta miklu máli að jafna hlut kvenna enda ég tel það vera mannréttindi í þessum heimi. Konur áttu erfitt uppdráttar með verk sín og oft gáfu þær kvæðin út á eigin kostnað. Þær pukruðust oft með þau og ekki var óalgengt að tíminn sem færi í párið, þættu stolnar stundir á kostnað starfa þeirra.
Kennararnir mínir í menningarfræðinni opnuðu augum mín fyrir óréttlæti í garð kvenna og er ég örlítið að vinna með það, þá safna ég ljóðabókum eftir konur og að halda úti áðurnefndri síðu á facebook ,,Tófan."
Árið 1929 sendi Virginia Woolf frá sér bókina A Room of One's Own (íslensk þýðing Helgu Kress: Sérherbergi) um nauðsyn kvenna á sérherbergi til að skapa. Þær þurfa það enn í dag. Í menningarfræðinni skoðaði ég jaðarsettar skáldkonur og meistararitgerðin, ,,Enginn kann tveimur herrum að þjóna" fjallar um þrjá óþekktar skáldkonur.
Skáldkonan Magnea
Árið 2016 lét ég prenta út nokkur ljóða minna, aðallega fyrir mig sjálfa og kannski einhverja vini. Þau voru ort undir áhrifum frá bæði uppgangi efnahagslífsins og hruni á árunum 2000-2008. Ég hef alltaf haft gaman að því að setja saman vísur, það er eitthvað við það að setjast niður þegar hlutirnir ganga ekki eins og þú vilt og láta myndina birtast í textanum. Textinn er svo magnaður, áhrifin ekki ósvipuð og málarinn setur í mynd sína. Ég hef gefið út þrjár ljóðabækur Innvortis Investment 2016, Blautar tuskur 2018 og Bleika skólaljóðabókin 2018, en hún er safn ljóða eftir konur sem fæddar voru kringum aldamótin 1900.
Með stífu klakabrosi
horfa þeir framan í
ærumeiðandi
framleiðendurnar
segja frá því
hvernig sálir þeirra
verða seldar
á
markaðstorgi fáfræðinnar
fyrir
- slikk" (Innvortis Innvestmennt, 2016)
Listagjörningar
,,Eins og fram hefur komið eru verk kvenna mér hugleikin, sérstaklega þeirra sem á árum áður höfðu ekki rödd né hlustendur, höfðu ekki klappstýrur, máttu af einhverjum orsökum ekki setja staf á blað og svo kom metoo-byltingin og allt í einu tók stór hópur sér bessaleyfi og sagði frá! Sagði frá hlutum sem höfðu legið í þögn, sagði frá leyndarmálum, sagði frá ofbeldi, sagði frá misréttinu sem allir vissu um en enginn orðaði upphátt. Mig langaði til að taka þátt, segja dætrum okkar að standa upp og tjá sig og að við mæður segðum frá og létum þær vita að við styddum þær. Úr þessum pælingum (hugsunum) varð til ljóðagjörningurinn Blautar tuskur, en fyrir mér var byltingin blaut tuska framan í andlitið á mörgum gerandanum. Ég flutti gerninginn Brak í byrjun sumars 2018, hengdi upp þvott í grenjandi rigningu í Grósku Garðabæ. Brakið kallast á við að konur urðu alltaf að hengja þvott út í brakandi þurrki en einnig fylgdu byltingunni brak og brestir í brynju leyndarhyggjunar og feðraveldisins.
móðir til dóttur
vertu glöð
vertu prúð
vertu stillt
bíddu þar til yrt er á þig
bíddu þar til prinsinn
á hvíta hestinum
kemur og sækir þig
hann mun sjá fyrir
þér
ekki rífa kjaft
ekki vera frek
ekki vera framhleypin
ekki vera eins og karl (Blautar tuskur, 2018)
Magnea segir að lokum að draumurinn sé að vinna miklu meira með þetta efni og að hún sé hvergi nærri hætt! Hér má nálgast vefsíðuna hennar Tófan - ljóð kvenna frá örófi alda til okkar daga.
VIÐTAL: JÚLÍA SVEINSDÓTTIR