SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn26. júní 2019

„SKRIFA FYRST OG FREMST AF EIGIN ÞÖRF OG HVÖTUM“ - Viðtal við Auði Stefánsdóttur

Auður Stefánsdóttir

Auður Stefánsdóttir segir Júlíu Sveinsdóttur frá nýræktarstyrknum sem hún hlaut nýlega, ritlistinni og framtíðarskrifum

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir árlega nýræktarstyrki til höfunda, sem eru að gefa út sín fyrstu verk. Í ár fengu tveir höfundar styrk, þau Auður Stefánsdóttir fyrir barnabókina Í gegnum þokuna og Kristján Hrafn Guðmundsson fyrir smásagnasafnið Afkvæni. Júlía Margrét Sveindóttir hafði samband við Auði og bað hana að segja aðeins frá sjálfri sér, listinni og lífinu og hvaða áhrif hún teldi styrkveitinguna hafa á framtíðarskrif hennar.

Bókaormur

„Ég hef haft dálæti á bókum síðan ég man eftir mér, það þurfti aldrei neitt sérstaklega að halda þeim að mér. Það var til ágætis bókasafn á heimilinu og ég las það sem mér datt í hug hverju sinni, smásögur, ljóð, leikrit og hvers kyns skáldsögur. Þegar ég fór í heimsóknir, t.d. til föðurömmu minnar og langömmu fór ég gjarnan í bókahillurnar og náði mér í bækur. Síðan gat ég sest niður hvar sem er og lesið án þess að veita því neina athygli sem fram fór í kringum mig. Reyndar voru foreldrar mínir frekar að reyna að letja mig en hvetja á köflum. t.d. þegar ég vildi ekki leggja frá mér bækurnar við matarborðið.

Fór snemma a skrifa

Samhliða lestrinum fór ég snemma að skrifa mínar eigin sögur og ljóð. Ég hef alltaf haft ríkt ímyndunarafl og þörf fyrir að skrifa. Uppáhaldsverkefnin mín í skólanum voru að semja texta og oftar en ekki fór ég langt fram úr lengdarviðmiðum. Á tímabili vildi ég ólm gefa út eigið efni og fékk pabba til að skrifa upp handskrifuðu síðurnar mínar í heimilistölvuna. Þegar leið á unglingsárin varð ég mun feimnari með textana mína og var ekki mikið fyrir að sýna það sem ég skrifaði. Sem dæmi sendi ég aldrei inn smásögu í skólablaðið í MA þó mig hafi langað það.“

Verðlaun í smásagnakeppni Mímis

„Eftir útskrift úr Menntaskólanum á Akureyri lá leiðin suður til Reykjavíkur, það eina sem kom til greina var að fara í íslensku. Mér þótti (og þykir enn) frábært að það sé til nám sem snýst meðal annars um að lesa skáldskap, tala um skáldskap og skrifa um hann. Ég gaf mér ekki mikinn tíma til að semja eigið efni meðan á náminu stóð en tók þó eitt valnámskeið í ritlist og vann til verðlauna í smásagnakeppni Mímis (félags íslenskunema).“

Fjölskyldan og kennslan

„Samhliða náminu eignaðist ég tvær dætur með manninum mínum og þó svo að ég hefði gjarnan viljað halda námi áfram og klára doktorinn þá var tímabært að finna sér launað starf. Eftir að hafa kennt tvö námskeið við Íslensku- og menningardeild HÍ ákvað ég að drífa mig í að taka kennsluréttindi til framhaldsskólakennslu. Ég fékk strax vinnu eftir útskrift og það má segja að ég hafi fundið rétta starfið fyrir mig. Mér finnst einstaklega gaman að reyna að ná til nemenda og vekja áhuga þeirra á bókmenntum og skrifum. Kennslan er einnig mjög gefandi og skapandi starf. Ég gæti ekki hugsað mér að vera njörvuð niður í t.d. skrifstofustarfi frá níu til fimm.

Fyrstu tvö árin í kennslunni gaf ég mér ekki tíma til að skrifa. Ég vildi bara komast inn í starfið og sinna því vel. Eftir því sem leið á fór ég að sakna skrifanna en fannst erfitt að finna tíma til að skrifa. Ég ákvað því að sækja um meistaranám í ritlist. Nauðsynlegt er að skila handriti með umsókninni og er aðeins hluti umsækjenda valinn hverju sinni. Ég lenti í því að yngri dóttir mín, sem þá var þriggja ára, fékk botnlangakast og veiktist illa stuttu áður en skila átti inn umsókninni. Við vorum inn á Barnaspítalanum í viku og ég var því búin að gefa umsóknina upp á bátinn. Þegar heim var komið fann ég samt að mig langaði að láta reyna á umsóknina og skrifaði alla helgina til að klára handritið. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Ritlistin

„Ritlistin hefur hjálpað mér mjög mikið að koma skrifunum upp í rútínu. Það getur verið snúið að samræma vinnu, nám og skrif, sérstaklega þar sem ég bý í Vesturbænum og vinn í Hafnarfirði. Í haust var ég sífellt að keyra fram og til baka til að ná að mæta í tíma og kennslu. Það hjálpar mikið að allir eru boðnir og búnir að hjálpa mér að láta þetta ganga upp, bæði heima og í vinnunni. Þá ekki síst fjölskyldan sem sýnir mér mikinn stuðning.

Án ritlistarinnar hefði ég ekki sest niður og byrjað á handritinu mínu Í gegnum þokuna Þetta hafði orðið ein af þessum mörgu hugmyndum sem ég hef ekki gefið mér tíma til að sinna. Það var ómetanleg viðurkenning að fá nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir handritið að bókinni. Það má segja að það marki ákveðin kaflaskil fyrir mig. Nú verður ekki aftur snúið, ég vona að bókin komi út fyrir jól og svo er það bara næsta verkefni.“

Framtíðarskrif

„Mig dreymir um að klára sögulega skáldsögu sem ég byrjaði á fyrir löngu um gleymda skáldið Davíð Þorvaldsson (1901-1932) frá Akureyri. Í Davíð endurspeglast áhugi minn á fortíðinni, bókmenntum og skrifum ef svo má að orði komast. Ég mun svo halda áfram í kennslunni og náminu en ég stefni á útskrift 2021. Þegar mér finnst sem ég færist of mikið í fang hugsa ég um orð ritlistarkennarans míns: ,,Það neyðir ykkur enginn til að skrifa.” Þetta eru góð einkunnarorð og minna mig á að ég skrifa fyrst og fremst af eigin þörf og hvötum.“

Viðtal: Júlía Sveinsdóttir