SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 4. október 2017

„VARÚÐ, HÉR LEYNAST KRÓKÓDÍLAR“ - Viðtal við Jóhönnu Maríu Einarsdóttur.

Júlía Margrét Sveinsdóttir settist niður með Jóhönnu Maríu Einarsdóttur myndlistarkonu og rithöfundi og ræddi við hana um ferilinn, nútímann og nýútkomna bók hennar Pínulítil kenopsía. Varúð, hér leynast krókódílar. Jóhanna María Einarsdóttir er að eigin sögn myndlistar-, bókmenntafræðilega- og ritlistarmenntað skáld. Eftir námið hefur hún starfað við kynningarskrif, bókargagnrýni, prufað blaðamennsku en starfar í dag sem leiðsögumaður og leiðir túrista um Þingvöll, gegnum Seljalandsfoss og upp að jökli. Í sumar kom út bókin Pínulítil kenopsía. Varúð, hér leynast krókódílar eftir Jóhönnu Maríu. Eldri verk s.s. Tímaskekkjur og útvarpsþættirnir Grimmdarverk, innihalda texta eftir viðmælenda.

Vissirðu alltaf hvað þú ætlaðir að verða, þegar þú yrði stór? Og hvaðan kemur þessi bóka- og listaáhugi?

„Ég hef aldrei vitað hvað mig langar til þess að gera í framtíðinni. Ég er svona dæmigerður tvíburi sem getur aldrei haldið sig við áhugamál lengur en fáein ár í senn og að því leyti má segja að ég hafi alltaf haft áhuga á öllu. Í raun má segja að ég hafi leiðst áfram í hálfgerðu óminnismóki á þær slóðir sem ég er núna, því ég hef aldrei gert neitt plan um hvað ég vil vera eða gera í framtíðinni.

Eftir að hafa klárað náttúrufræði í menntaskóla langaði mig í skapandi nám og fór í eins árs fornám í myndlist hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þar fékk ég nasaþefinn af hliðrænni ljósmyndun, tvíðri og þrívíðri teikningu, módelteikningu, skúlptúrgerð, listasögu og ýmiskonar listtengdum fögum og má segja að ég hafi lært þá gullgerðarlist að búa til gersemi úr engu, eða allavega því sem er í kringum mig. Síðan þá hefur mér alltaf þótt hlutir áhugaverðir sem eru ekki endilega taldir mikilvægir.Ég hef til dæmis alltaf verið gefin fyrir smáatriði, eitthvað sem virðist ekki skipta neinu máli en verður allt í einu ótrúlega athyglisvert um leið og ljósi er varpað á það. Eftir Myndló fór ég í LHÍ í myndlist og fékk þaðan BA gráðu. Síðasta árið mitt þar af fjórum var ég eiginlega alfarið farin að skrifa texta í stað þess að búa til myndlistarverk, og var töluvert gagnrýnd fyrir það af kennurunum, sem hvöttu mig til þess að setja textana mína fram í þrívíðu formi eða að myndskreyta textana. Þessir textar voru engin meistaraverk, enda var þetta bara byrjunin á því sem koma skyldi.

Eftir LHÍ sótti ég um að komast í meistaranám ritlist, en komst ekki inn. Ég hélt að líf mitt væri búið og fór í dramakast. Vinkona mín benti mér þá á nám sem kallast bókmenntafræði og sagði mér að fara í það, sem ég og gerði. Þetta nám var það allrabesta sem hefur komið fyrir mig enda lærði ég þar ómetanlega hluti, kynntist frábæru fólki og fékk tækifæri til þess að slípa textagerð mína, þó ekki væri nema í ritgerðarsmíðum.

Eftir bókmenntafræðina sótti ég aftur um í MA í ritlist og komst inn. Þar er um að ræða nám þar sem fólk fær frelsi til þess að þroska texta sína og hugsun með því að taka ýmis konar námskeið, fræðileg og verkleg. Ég tók t.d. kúrsa í leikritahandritaskrifum, kvikmyndahandritaskrifum, smásagnaritun, ljóðaskrifum, fékk tækifæri til þess að setja upp leikverk, taka þátt í gjörningaverki og svo margt margt fleira. Þar kynntist ég líka miklum ritsnillingum og held að sjálfsögðu reglulegu samband við það fólk.“

​​Áttu þér uppáhalds höfunda og/eða áhifavalda?

„Sko, ætli áhrifavaldar séu ekki bara blanda af öllu sem ég hef lesið, séð, heyrt og upplifað. Annars á ég nokkra uppáhalds íslenska höfunda sem ég get alveg talið upp í stafrófsröð. Þetta er alls ekki tæmandi listi og hann er líka alltaf að lengjast. Ég læt annars vera að telja upp vini mína sem skrifa (þó svo ég fíli allt sem vinir mínir skrifa) af ótta við að vera sökuð um frændhygli. Þetta er kannski bara svona listi af höfundum sem má sjá og þekkja áhrif frá í mínum textum frekar en eitthvað sérstakt uppáhald: Andri Snær Magnason, Auður Ava Ólafsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Halldór Laxness, Hermann Stefánsson, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Sjón, Steinar Bragi og Svava Jakobsdóttir. Meðal erlendra höfunda sem ég hef lesið fleiri en eitt verk eftir má nefna: George Orwell, Jon Fosse (Hef reyndar bara lesið leikritin hans en þau eru geggjuð), Mikhail Bulgakov, Neil Gaiman, Samuel Beckett og Terry Pratchett.“

Segðu mér aðeins frá bókinni sem kom út í sumar og ertu með fleiri verk í bígerð?:

„Bókin heitir Pínulítil kenopsía. Varúð, hér leynast krókódílar. Verkið er upphaflega skrifað sem lokaverkefni í ritlist í HÍ þar sem ég valdi mér Hermann Stefánsson sem leiðbeinanda. Hann fannst mér fullkominn í starfið enda skrifar hann póstmódernískan skáldskap þar sem hann leikur sér meðal annars að bilinu á milli fræða og skáldskapar. En Pínulítil kenopsía sprettur svolítið upp úr þeim hugleiðingum, þ.e. hver er munurinn á ritgerð og skáldskap og hvar liggja mörkin. Hafið þó engar áhyggjur framtíðarlesendur verksins, þetta er ekki leiðinleg bókmenntafræðiritgerð (þó svo bókmenntafræðiritgerðir séu alls ekkert allar leiðinlegar, þvert á móti). Einn lesandi tilkynnti mér að bókin væri svolítið eins og uppistand og ég er alls ekki ósammála.“

Hér má finna nánari upplýsingar um Jóhönnu í Skáldatali