SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir29. desember 2021

„ÉG KANN VEL VIÐ MIG Á ÓSKILGREINDA SVÆÐINU - Viðtal við Evu Rún Snorradóttur

Eva Rún Snorradóttir sendi á dögunum frá sér hina stórgóðu bók, Óskilamunir, en áður hefur hún sent frá sér þrjár ljóðabækur sem hafa fallið vel í kramið hjá ljóðaunnendum. Óskilamunir eru á mörkum ýmissa bókmenntagreina en þar birtast okkur skyndimyndir úr lífi leitandi persónu sem flakkar um í tíma og rúmi. Hinsegin ástir, sársauki og sköpun eru einnig til umfjöllunar i bókinni. Okkur lék forvitni á að vita meira um bók Evu Rúnar og tókum hana því tali.

Titillinn, Óskilamunir, er mjög flottur; hvernig kom hann til og getur þú útskýrt fyrir okkur merkingu hans með tilliti til bókarinnar?

Takk fyrir það. Hann kom seint í ferlinu, þegar ég var að horfa yfir hvað þetta væri, og finna leið til að tengja titilinn við það. Einn stærsti þráður í bókinni er skilnaður á ýmsum stigum lífsins, og á krossgötum er manneskjan oft eins og óskilamunur. Það finnst mér einnig eiga við um tilfinningar sem við tökum ekki út, sársauka til að mynda, hann verður að fyrirferðarmiklum óskilamuni innra með þér. Þannig fannst mér þessi titill rýma bæði innihald og taka utan um bókina sem grip.

Það er svolítið erfitt að flokka bókina undir hatt ákveðinnar bókmenntagreinar; er þetta skáldsaga, punktaskáldsaga eða örsögur, jafnvel sagnasveigur; hvernig myndir þú sjálf skilgreina verkið?

Ég kann vel við mig á óskilgreinda svæðinu og vil helst ekki negla það niður sjálf hvað þetta er. Bókin mín var nefnd í samhengi við nýskapað hugtak, innsæisbókmenntir, ég var ánægð með þá tengingu, og hrikalega glöð með þetta hugtak. Því þó að nálgun og vinna með form, sé alltaf minn innblástur á einhvern hátt, getur það verið erfitt að halda einhverskonar tryggð við fyrirframgefinn ramma. Innsæisbókmenntir eru eins og ég skil þetta hugtak drifnar áfram af innsæi sem leyfir sér að fara út fyrir, á milli, upp úr og fram úr. Það finnst mér spennandi. Mér finnst fallegt að hugsa um Óskilamuni sem innsæisbókmenntir, en ég fagna að hver og einn hafi sína skoðun og upplifun.

Frásagnarbrotin orka eins og skyndimyndir úr lífi einnar og sömu persónunnar; en þó eru þau ekki endilega í réttri tímaröð. Varstu lengi að ákveða röð frásagnanna eða kom hún kannski bara af sjálfu sér.

Já ég var mjög lengi að setja hana saman. Marga mánuði, og endurraðaði fjölmörgum sinnum. Í þessu ferli fylgi ég bara maganum. Leita að tilfinningu í ferðalaginu sem mér finnst meika sens.

 
 
Ferðalög eru miðlægt viðfangsefni sögunnar en oft eru þau nokkuð misheppnuð og persónan hálftýnd í þeim. Hvers vegna rifjar hún þessi ferðalög upp?
 

Mér finnst ferðalög henta svo vel til að fjalla um stærri efni, t.d. hugmyndir okkar og væntingar um tilveruna. Það verður allt svo eimað niður og tært í þessum míkró-heimi ferðalagsins. Og einnig þessi fjarlægð á þig, og þínar aðstæður. Þína miðju. Ég er mjög upptekin af miðjunni sem við sköpum í okkar lífi, og hvað það er gegndarlaust mikilvægt að við séum meðvituð um það að miðjan okkar (hvað okkur finnst eðlilegt, gott og flott) eru mótaðar af reynslu okkar og aðstæðum en ekki sannleikur allra. Í ferðalögum erum við bæði svo upplitsdjöf og í einhverjum framkvæmdafasa, æst og spennt, en líka svo viðkvæm öll, ekki í okkar umhverfi. Mér finnst þessi núningur spennandi.

Plöntur og tré koma endurtekið fyrir í bókinni, bæði í máli og myndum, en í sumum tilvikum öðlast þau mannlega eiginleika. Eiga plönturnar og trén að tákna eitthvað ákveðið og hvers vegna persónugerir þú þau?

Það tengist líklega bara einhverri skoðun sem ég hef verið í síðustu misseri. Að reyna að hlusta og taka inn fyrirbæri úr náttúrunni. Er með á þeirri bylgju að það sé ekki bara löngu tímabært heldur nauðsynlegt. Það er afhjúpandi ferli, það er svo flókið að finna leið til að tengjast á öðrum forsendum en þínum. Þess vegna kannski koma skilaboðin frá plöntunum og hestinum lóðbeint inn í mannhverfar forsendur. En ég verð bara, eins og allar manneskjur að halda áfram að reyna, halda áfram að hlusta og finna aðferðir. Varðandi táknin, ég lít meira á það sem tákn eða umfjöllun í hverri sögu, nema kannski svona heilt yfir (allavega finnst mér það núna þegar ég skrifa þetta) að birting þessa í bókinni tákni geti táknað hvað við maðurinn erum takmörkuð. Við erum bara eitt sjónarhorn. Við verðum auðvitað að fara að sjá það. Við (mannkynið) erum svolítið eins og fullorðinn maður sem neitar að fara úr hræðilega litlum og þröngum fermingarjakkafötunum.

Gjarnan er litið svo á að íslenskt samfélag sé afar opið gagnvart hinseginleika en sögurnar í bókinni og hugleiðingar aðalpersónunnar birta mun flóknari mynd af stöðu hinsegin fólks. Hvernig finnst þér skáldskapurinn til þess fallinn að fjalla um hinsegin málefni?

Íslenskt samfélag er víða opið gagnvart hinseginleika. Að mörgu leyti. Það er samt líka, eins og alls staðar stutt í bakklass, og við erum ekki að fylgja eftir og passa upp á það sem vel gengur. T.d. á núna að taka til baka fjármagn til Samtakanna 78. Ég held ég geti sagt það bara hreint út að allar þessar jákvæðu breytingar væru ekki til staðar ef ekki væri fyrir þau samtök. Mér finnst samt þrátt fyrir margt gott að samfélagið sé enn of heteronormatívt og miðjað að einni mynd eðlileikans að öðru leyti líka. Við þurfum að hætta að fagna fjölbreytileikanum af og til frá svarthvítri miðju, eins og bolludeginum. Fjölbreytileiki á að vera alltumkring, í öllu, sjálfsagður, alltaf. Og þar koma einmitt bókmenntir sér vel. Það er mjög góð leið til þess þykir mér. Bókmenntir eru leið til að gefa innsýn inn í veröld, hugarheim, hið persónulega annars aðila sem er að mínu mati alltaf pólitískt, við gleymum því bara þegar það er miðaldra gagnkynhneigður kall því það er miðjan (ég er eins og komið hefur fram með miðjuna á heilanum og vil gjarnan að fleiri fái hana á heilann). Ég fagna því þegar fólk nýtir bókmenntir til að fjalla um sinn veruleika, sitt prívatlíf, sinn reynsluheim. Ég les bókmenntir að hluta til til þess að stækka mína veröld, les þá bæði bækur frá öðrum heimsálfum en líka bara sjálfsævisögu útrásarvíkings, og vona að þeir lesi hinseginbókmenntir líka.

„Sársaukinn þarf svið“ segir í sögunni Drink and dial en þar er sársaukinn notaður í þágu listarinnar og setur samfélagið á hlið þannig að skrifaðar eru greinar um hvernig sársauki annarra er notaður í eigin þágu. Hver er afstaða þín til að nota sársauka annarra í listsköpun?

Listsköpun þykir mér afbragðs leið til að vinna með sársauka. En það er ekki þerapía (nema þú sért í listþerapíu hjá fagaðila) og ferlið er allt öðruvísi, en mér finnst snertifletirnir mjög spennandi. Helsti munurinn er kannski með hvað þú leggur upp með, þú ert ekki að fara í þerapíu heldur á t.d. sviðsverk og það getur orðið þerapísk upplifun. Og mikilvægt að vinna ekki með nýskeð áfall í þannig ferli. Þetta er gamalt og nýtt, flest ævintýri og sögur fjalla um gömul trámu. Afstaða mín er skýr varandi það að þú getur fjallað um sársauka annarra með þeirra upplýsta samþykki og samvinnu í hverskyns listum. Verkið Drink and dial er uppspuni, en ég stend með listakonunni þar og finnst frekar viðbrögð fólksins sem upplifir ekki verkið en er tilbúið að dæma aðferðina, án þess að kynna sér í kjölinn, varhugarverð. Röddin sem segir söguna er undir áhrifum viðbragðanna og veit ekkert hvað henni finnst. Mér finnst þessi staður líka svo áhugaverður, þegar við viljum gera eitthvað hugrakkt í listinni en það er svo auðvelt að týnast.

Sársauki fortíðar fylgir persónunni sem sagt er frá, hún reynir að gleyma en án árangurs. Hvers vegna kýstu að fjalla um sársaukann með þessum hætti?

Já, það er eiginlega þannig að ég vel ekki beint mín umfangsefni. Ég er búin að vera að hugsa um það síðstu daga hvort ég ætti að prófa að velja mér umfjöllunarefni. Það gæti verið gaman en allar þannig hugmyndir mínar eru bara enn hugmyndir, í gömlum skissubókum. Ég byrja bara að skrifa, skrifa meira og svo raða og tengja, stilla, þræða. Og á síðustu árum hefur sársauki og tilfinningar í óskilamunum verið með sérlega hugleikið. Á krossgötum fór ég að skrifa um ýmiskonar krossgötur.

Þrátt fyrir alvarleika blandast húmorinn reglulega inn í frásögnina og oft dregur þú upp kómískar myndir af furðulegum atvikum; t.d. má nefna leikrit fyrir gæludýr á heimilum þeirra. Finnst þér mikilvægt að gera grín af því „ævarandi grímuball[i] sem lífið er“?

Mér finnst svo hrikalega mikilvægt að fjalla um það sem lífið er, viðvarandi grímuball, en ég lít í raun ekki á það beint sem grín, heldur sem grafalvarlegt mál. En stundum þarf að fjalla um grafalvarleg málefni með grínverkfærum, og það fyrir mér er kannski það sem ég er að gera. Þetta grímuball er handritið, hin þykka og krefjandi nærvera norma og ríkjandi gilda sem eru kæfandi fyrir okkur öll á mismunandi hátt.

 
 

Inn í bókina blandast nokkur ljóð og stíll verksins er líka mjög ljóðrænn en þú hefur auðvitað sent frá þér nokkrar ljóðabækur. Finnst þér sjálfri áhrif ljóðlistarinnar marka skrifin í Óskilamunum?

Já ég verð nú að segja það. Ég tek ljóðskáldið með mér í þetta verkefni. Frelsið og víðáttan í ljóðunum þykir mér svo heillandi. Þetta örsjónarhorn. Uppbygging sem byggist á öðru en söguþræði. Tempó og áferð. Ég upplifi í ljóðum eitthvað pönk sem mér finnst spennandi að vinna með áfram. Það er eins og í ljóðunum sé alltaf opið fyrir spurninguna: Hvað er þetta? Undir og yfir textanum, ég vil finna fyrir þessar spurningu þegar ég les bókmenntir, og vildi að hún yrði nálæg í Óskilamunum.

Heldur þú að menntun þín og reynsla af sviðslistum hafi mikil áhrif á skrifin þín?

Já, ég bara finn það alltaf í hverju verkefni. Ég var svo heppin með menntun, fór í gegnum fyrsta árgang í nýju námi í Listaháskólanum, sem heitir nú Sviðshöfundabraut. Ég var í stórkostlegum bekk og við fengum svo mikið af dýrmætum verkfærum og sýn á lífið og listina sem ég finn fyrir á hverjum degi. Svo hafa sviðslistahóparnir tveir sem ég starfa með líka verið endalaus skóli og innblástur Kviss búmm bang og 16 elskendur. Að vinna verk í samsköpun er magnað ferli, þarf svo mikið traust, öryggi, hlustun, þolinmæði, kærleika. Það er dýrmætt að fá að upplifa það og reyni að taka það með mér þegar ég er ein að brasa eitthvað.

Ertu komin með hugmynd að næsta verki?

Nú er ég að fara demba mér í að skrifa verk sem ég hef unnið að undanfarin misseri sem leikskáld Borgarleikhússins. Vinnutitillinn er Góða ferð inn í gömul sár. Þetta er þátttökuheimildaverk um alnæmisfaraldurinn í Reykjavík á níunda og tíunda áratugnum. Verður sett upp á næsta leikári.

Við þökkum Evu Rún kærlega fyrir forvitnilegt og skemmtilegt spjall um skáldskapinn og hlökkum til að skunda í leikhúsið og sjá Góða ferð inn í gömul sár.

 
 
 

 

Tengt efni