FÆÐING INNFLYTJENDABÓKMENNTA Á ÍSLANDI - Viðtal við Natöshu Stolyarova
Þann 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, kom út tímamótaverkið Pólífónía af erlendum uppruna. Verkið er ljóðabók þar sem 15 höfundar frá 12 löndum og fjórum heimsálfum sameina krafta sína. Natasha Stolyarova er ritstjóri bókarinnar og eitt ljóðskáldanna en í inngangi að bókinni ræðir hún meðal annars mikilvægi innflytjendabókmennta og gildi þeirra:
Sjónarhornið í innflytjendabókmenntum er gjarnan hjá þeim sem teljast utanaðkomandi,
jafnvel jaðarsettir, og búa yfir öðruvísi reynslu og hugmyndum. Þær veita innsýn inn í veruleika
sem er kunnuglegur en um leið framandi. Gildi þeirra ætti því að vera augljóst ef áhugi er fyrir því
að skilja margbrotin samfélög samtímans og fjölbreytta mannlega reynslu, skilja aðra og okkur sjálf.
Við mæltum okkur mót við Natöshu á kaffihúsi í miðbænum og ræddum við hana um ritstörfin, ljóðlistina og Pólifóníu.
Geturðu sagt okkur aðeins frá þessari bók? Hvernig varð Pólifónía til og hvernig unnuð þið hana?
Ég las bókina hans Yahya Hassan og fattaði að það heyrast ekki neinar svona raddir á Íslandi. Ekkert í bókmenntunum þótt 15% af þjóðinni séu af erlendum uppruna sem er frekar mikið. Meira en á hinum Norðurlöndunum. Ég hugsaði „á ég ekki bara að gera það?“ Mér finnst það pínu fyndið því ég vinn bara í bókabúð, er ekki að ritstýra eða neitt svoleiðis en ég spurði Einar Kára, sem er hjá Unu útgáfuhúsi, hvort hann væri til í að gefa bókina út og honum fannst það bara geggjað. Svo á ég nokkra vini sem eru af erlendum uppruna, Elías Knörr, Ewa Marcinek og Angela Rawlings, og ég spurði þau hverjum þau mæltu með og það tók bara einn dag að finna alla höfundana. Ég skrifaði til allra og allir voru mjög spenntir og til í þetta.
Þegar við byrjuðum að vinna, hittumst við nokkrum sinnum í Gröndalshúsi og svo hittumst við á Zoom þegar covid kom. Við vorum að ræða hvernig það væri að vera innflytjandi á Íslandi. Ég skrifaði niður spurningar sem við drógum og sá sem dró svaraði spurningunni og svo gat einhver annar bætt við. Þetta gerðum við til að fá innblástur og horfa á þetta frá mismunandi sjónarhorni. Við vorum að ræða allskonar eins og hreim-tungumál, hvernig er að tala tungumál og hvernig er veðrið. Það er mjög áhugavert að hlusta á fólk því ef þú ert innflytjandi þá ertu mest að hanga með innflytjendum, það er ekki oft þannig að innflytjandi eigi bara íslenska vini, og þótt maður ræði þetta oft er áhugavert að tala um það við fólk sem þú þekkir ekki endilega mjög vel.
Ég reyndi að gera bókina með eins mörgum útlendingum og hægt var. Ljósmyndarinn og hönnuðurinn eru báðir innflytjendur. Ég er mjög ánægð með hvernig bókin lítur út en ég fékk innblástur frá bók Yahya Hassan, Ljóð, og hún lítur mjög svipað út. Hún er með svipaða kápu og svo lítur orðið Pólífónía svolítið út eins og þetta sé einhvers konar manifesto.
Þú bendir á í innganginum að innflytjendabókmenntir hafi notið mikilla vinsælda síðustu áratugi en að hér hafi raddir „útlendinga“ varla heyrst í bókmenntunum. Hvers vegna heldurðu að svo sé?
Eins og ég skrifaði í innganginum, þá er þetta bara nýtt fyrirbæri á Íslandi og gerðist mjög hratt. Ég held að það hafi aukist eftir 2010. Í kringum mig er mikið af fólki sem kom til landsins 2010 og seinna. Þetta er mjög nýtt og ég finn enn þá að Íslendingar eru ekki alveg vanir.
Ég fór til dæmis í sjúkraþjálfun og ég og sjúkraþjálfarinn vorum að tala íslensku saman og á meðan hann var að gera eitthvað við fótinn á mér, spurði hann annan sjúkraþjálfara hvernig aðgerðir væru gerðar þessa dagana. Þegar hann svaraði byrjaði sjúkraþjálfarinn minn að þýða það fyrir mig eins og ég hefði ekki heyrt það. Ég veit hann meinti það ekki illa en ég hef lent í þessu svolítið oft, að fólk talar við mig á ensku og ég svara á íslensku en svo talar það saman á íslensku og spyr hvernig segir maður það á ensku, snýr sér svo að mér og segir það á ensku. Ég bjó í Svíþjóð líka og þar var það aldrei þannig. Því þar eru margir innflytjendur og fólk er vant að heyra hreim.
„Málefni innflytjenda hafa verið ofarlega á baugi síðustu ár og við erum að verða sýnilegri í menningunni“ segir þú í inngangi bókarinnar og átt þá við bókmenntalífið. Hvernig finnst þér þetta almennt vera í íslensku menningarlífi, til dæmis á sviði myndlistar, leiklistar og tónlistar?
Ég er ekki viss. Ég veit meira um ritlistina og það er erfitt fyrir mig að meta aðrar listir og stöðu þeirra. En til dæmis í leikhúsinu, þá held ég að þar sé eiginlega enginn. Juan er eini leikarinn sem ég hef séð í kvikmyndum, hann leikur innflytjanda, sem er það eina sem er í boði, það er dæmigert en líka skiljanlegt. Ég allavega þekki marga innflytjendur sem eru að gera allskonar en ég er ekki viss um að það heyrist almennilega ef að fólk er ekki í Borgarleikhúsinu eða Þjóðleikhúsinu. En ég held að þetta sé að koma. Það var heimildamynd á RIFF í haust um innflytjendur, fjórar konur sem búa hér. Og svo voru fjórir þættir sem heita Þeirra Ísland sem voru á Rúv en vinur minn sem er ítali gerði þættina. Þannig að það er margt að gerast. Juan er í kvikmyndum, hann sést, hann er til og fólk veit af honum. Nokkrir höfundar kenna í háskólanum eins og Ana, Randy, Angela og Giti, Jakub fékk nýræktastyrk í ár, Sofie og Vilja-Tuulia eru búnar að gefa út bækurnar sínar í heimalöndum sínum, Ewa stofnaði tónlistarleikhús í Reykjavík, Meg, Elías og Francesca eru meðal annars þýðendur, Deepa er myndlistakona og vinnur einnig með „visual poetry“. Margir sjá líka um vinnustofur í ritlist, svo innflytjendur eru orðnir partur af menningunni.
Viðtökur Pólífóníu hafa verið ansi góðar og bókin búin að fá mikla athygli. Þú ert til dæmis búin að vera víða í viðtölum. Finnst þér eins og lesendur hafi verið að bíða eftir bók af þessu tagi?
Já ég fann það. Ég var ekki tilbúin því heildarvinnslan var ný fyrir mér og ég fékk svolítið „imposter syndrom“. Svo kom bókin út og ég fór að fá viðtöl en ég hafði aldrei pælt í því að það yrði partur af þessu.
Áður en bókin kom út skrifaði ég ljóðin með krít á stöðum sem tengdust þeim. Eins og ljóðið hans Juans sem heitir „My Norths“, ég skrifaði það við 66 norður og svo orti ég ljóð um sjósund og skrifaði það við Nauthólsvík. Þegar ég var að gera það fór fólk að koma og spyrja hvað þetta væri. Ég fór að útskýra að þetta væru ljóð úr bók sem væri að koma út og allir voru svo glaðir, sögðu „vá þetta er geggjað, ég bíð spennt“. Og það var kona í Nauthólsvík sem kom og spurði út í hvað þetta væri og þegar ég sagði henni það svaraði hún: „vá það er svo gott að fólk skrifi eitthvað annað en: Hvar er nýja stjórnarskráin?“. Svo sagðist hún ætla að sækja manninn sinn og þegar hún kom með hann sagðist hann ætla að setja bókina á jólabókalistann sinn. Svo það er voða gaman. Ég pældi aldrei í því hvort fólk væri að bíða eftir þessu en ég hef heyrt frá mörgum rithöfundum að þetta sé loksins að gerast og ég vona að þau meini það.
Þið ákváðuð að gefa bókina út á Degi íslenskrar tungu, það virkaði afar táknrænt og sterkt á okkur en hvaða þýðingu hafði það fyrir ykkur?
Það var mikil tilviljun. Mig langaði alltaf að gefa bókina út fyrir Bókmenntahátíð svo hún myndi fá meiri athygli en svo tókst það ekki. Mér finnst það athyglisvert því flestir rithöfundarnir þar voru að skrifa innflytjendabókmenntir. En það tók miklu lengri tíma að gefa bókina út en ég átti von á. Svo var ég að fara í aðgerð 18. nóvember og sagði að bókin yrði að koma út fyrir það og hún kom út tveimur dögum áður en það var sem sagt algjör tilviljun. En kannski er það alheimurinn sem ákvað þetta því margir höfundanna elska íslensku, til dæmis ég, Ana, Elías og Jakub sem skrifum á íslensku. Mér finnst mjög gaman að undirstrika það að íslenska skiptir ekki bara máli fyrir Íslendinga heldur er fólk sem flytur hingað til að læra tungumálið, breytir lífinu til að læra málið.
Þú nefnir að margir höfundanna elski íslensku og ljóð sumra höfundanna hverfast beinlínis um íslenska tungumálið og málvísindi. Þar mætti nefna ljóð þitt „Fyrstu bókstafirnir [mínir]“ og eins ljóð Önu Mjallhvítar Drekadóttur og Elíasar Knörr. Það má sem sagt greina ákveðin sameiginleg þemu milli skáldanna þótt þau séu einnig afar ólík innbyrðis. Íslensk náttúra kemur til að mynda við sögu hjá mörgum þeirra og sum vísa í íslensk skáld og bókmenntaarf. Þá er staða innflytjandans í brennidepli hjá nokkrum höfundum. Er eitthvað annað og fleira sem þú myndir segja að skáldin ættu sameiginlegt?
Kannski einhvers konar einangrun. Ekki covid einangrun en innflytjendaeinangrun. Við vorum til dæmis með upplestur, ég, Giti og Deepa, og þær lásu báðar ljóð sem þær skrifuðu þegar pabbar þeirra dóu. Mér fannst það mögnuð tilviljun. Deepa er með mjög stutt ljóð og kannski erfitt að finna hvað þau snúast um en mér finnst gott að hafa stutt ljóð með því það eykur fjölbreytnina í bókinni.
Ég held að fjölskyldan sé annað þema, eins og hjá Juan, Randi og Deepa. Og líka smá frústrasjón. Það er frústrerandi stundum að vera innflytjandi en ég er glöð að það var ekki aðal þemað í bókinni. Það væri fínt ef það væri það sem flesta langaði til að segja en það er miklu meira sem fólk vildi segja.
Eitt ljóða þinna í bókinni er án titils en okkur finnst þú bregða skemmtilega á leik þar með því að snúa orðum á hvolf, geturðu sagt okkur aðeins frá þessu ljóði?
Ég man ekki einu sinni hvernig það tókst að skrifa það, allt er bara blurrað. Þetta er eitthvað sem ég var að pæla í þegar ég var barn í skóla og okkur var skipt í bekki; 1.a, 1.b og 1.c. Ég var í b-bekk og ég átti marga vini í a-bekk. Allir nemendur þar voru mjög góðir og klárir og ég hugsaði „æ, mig langar að læra með þeim“ en svo hugsaði ég hvað er best? Að vera fyrst í meðalbekk eða að vera önnur í bekk með klárari krökkum? Innblásturinn fyrir ljóðið er kannski þessi hugmynd en svo er það líka þetta að vera innflytjandi; þú munt aldrei hafa það eins og heima hjá þér, það mun alltaf eitthvað vanta. Og fyrir mér þá vantar eitthvað hér og það vantar eitthvað þar og mér líður stundum eins og ég sé ekki til neins staðar því það er enginn fullkominn staður til að búa á. Spurningin er því hvað viltu að vanti í lífi þínu?
Ég setti ljóðið svona upp því mig langaði til að fólki fyndist það smá óþægilegt af því að maður les ekki bók á hvolfi. Og mig langaði að segja að það að vera útlendingur er svolítið óþægilegt, er svolítið svona.
Í ljóðinu „Skjálfta“ sem einnig er eftir þig leikur kuldinn á Íslandi stórt hlutverk og þar yrkir þú meðal annars um kaldan pott og sjósundsferð; byggir þú þar á eigin reynslu?
Já. Rússland er mjög kalt land en þar er sjósund ekki vinsælt. Í Moskvu er bara ein á sem er skítug og enginn myndi vilja synda þar. Þegar ég flutti hingað frá Svíþjóð var ég veik mjög lengi, alltaf með hita, alltaf með eitthvað í hálsinum; það var þannig frá febrúar til september. Þetta var erfitt tímabil og ég vissi ekki hvað var í gangi, ég var á sýklalyfjum, fór á þrjá lyfjakúra og samt var ég með hita. Og ég sá óvart námskeið: Hættu að væla, komdu að kæla og ég hugsaði hei ætti ég kannski að hætta að væla og fara að kæla? Ég hafði aldrei gert neitt svona, en þetta virkaði, ég hætti að vera veik. Þetta var erfitt, ég man hversu kalt mér var. Námskeiðið var í Sólum út á Granda en í hverjum tíma fórum við út í pott með klaka. Og úff! Í byrjun var þetta erfitt, en ég lærði að það er hægt að slaka. Og mér finnst þetta vera eins og að vera innflytjandi hér, það er hægt að slaka og sleppa streitunni út; eins og frústrasjón með tungumál. Maður verður uppgefinn þegar fólk heldur áfram að tala á ensku og þá heyrir maður bara: „þú ert ekki eins og við“, „þú ert ekki eins og við“, „þú ert ekki eins og við“. Og maður verður brjálaður, en maður getur alveg slakað.
Sjósund tengist Rússlandi líka, það er hefð um jólin að fara í á, dýfa sér ofan í. Svo það er þáttur af menningu minni sem ég tók reyndar ekki þátt í sjálf í Rússlandi. En samt finn ég smá tengsl þarna á milli.
Hefur þú lengi ort ljóð?
Nei. Ég byrjaði bara rétt áður en að við ákváðum að gera bókina.
En er eitthvað ákveðið sem þú vilt koma á framfæri með hjálp skáldskaparins?
Það kemur mér alltaf á óvart hvað ég skrifa. Ég er stundum með mjög margar hugmyndir sem ég skrifa niður; og það kemur út sem consept. Ég stjórna því ekki hvað kemur.
Þú ert líka blaðakona, finnst þér fréttaskrif og ljóðaskrif líkt eða ólíkt?
Aðal munurinn er kannski að í fréttum er eitt markmið; skáldskapur er meira persónulegt, en blaðamennskan að gera gott fyrir heiminn – eða þannig sé ég það. Ég hef aldrei unnið í fullu starfi sem blaðamaður. Ég hef reynslu af því að vinna á einu blaði í Rússlandi og það er svo mikil neikvæðni þar. Mér fannst það ekki gott, að vera einhvers staðar þar sem allt er neikvætt. Ég les aldrei frettir því það er aldrei neitt jákvætt að frétta frá Rússlandi. Ég skrifa venjulega bara um menningu og bókmenntir en ég geri það bara þegar mig langar að skrifa það og finn svo útgefanda. Ég ætla til dæmis að skrifa um Pólífóníu og hvernig hún varð til. Því það eru ekki heldur margir sem flytja frá Rússlandi og segja frá sinni reynslu og hvað þeir eru að gera. Kannski tekur þessi bók sér líka pláss í rússneskri menningu.
Hvað er framundan hjá þér?
Ég er núna að skrifa á hverjum degi. Ég er með hugmynd sem heyrir líka undir innflytjendabókmenntir; ljóð í prósaformi sem tengjast tungumálinu og reynslu minni. En svo er ég líka að skrifa eitt og annað á rússnesku en það er líka sama þema. Ég veit ekki hvað verður. Kannski læt ég þýða þann prósa sem ég skrifa á rússnesku yfir á íslensku en mér finnst ekki hægt að þýða ljóðin, það er miklu erfiðara.
En skáldahópurinn, ætlið þið að halda áfram einhverju samstarfi?
Ég er ekki viss, við höfum ekki rætt það en ég er búin að heyra þessa spurningu nokkrum sinnum og mér líst vel á þessa hugmynd. Það er svo margt spennandi að gerast hjá hópnum, margt bókmenntalegt sem er í gangi. Eins og er eru allir að undirbúa sig fyrir jólin. En ég held að það verði eitthvað...
Við þökkum Natöshu fyrir einkar áhugavert spjall og vonum að Pólifónía sé einungis byrjunin á blómlegum skrifum innflytjenda á Íslandi.