SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. maí 2021

STOKKIÐ Á VAGNINN - Viðtal Jónu við sjálfa sig

Nú er farið að tíðkast (í tísku sumsé) að fólk taki viðtal við sjálft sig og er það sannarlega heppilegt ef enginn annar er tilbúinn til þess. Þá er ekki verra að hafa algjörlega í hendi sér bæði spurningar og svör. Jóna Guðbjörg Torfadóttir ákvað að stökkva á vagninn, enda löngum verið prýdd talsverðri sjálfsbjargarviðleitni.
 

Það fer jafnan vel á að kynna höfund í stuttu máli áður en eiginlegt viðtal hefst og verður það því gert hér. Jóna hefur hnoðað saman allskonar texta í hjáverkum, ljóð, barnasögu, þýðingu og kennsluefni. Á vordögum sendi hún síðan frá sér ljóðabókina Metsölubókina: Brodda og féllst á að svara nokkrum spurningum sínum um þetta nýjasta verk sitt.

 

Hvernig datt mér í hug að yrkja femínisk ljóð og hvernig gekk?

Mig hefur lengi langað að deila skoðunum mínum víðar en í eldhúsinu. Ég lét mér detta í hug að smíða utan um þær Facebook-síðu þar sem ég gæti fengið almennilega útrás en þá datt það svo að segja ofan í mig, í miðju sundtaki í Vesturbæjarlauginni, að finna þeim farveg í ljóðum. Ég hugsaði sem svo „því ekki?“ og lét vaða.

Ég lagði upp með tvö leiðarljós, ef svo má að orði komast, þegar ég leitaðist við að finna hugsunum mínum búning orða. Annað er eitt af mínum uppáhaldsljóðum sem er Kona eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur, og fékk ég góðfúslegt leyfi dóttur hennar til að birta það í bókinni, og hitt er skemmtilega Facebook-grúppan Karlar gera merkilega hluti sem er dásamlega löðrandi í kaldhæðni.

 
Hvernig kom titillinn til: Metsölubókin: Broddar?
 

Nafnið „Broddar“ kom nokkurn veginn af sjálfu sér því að það á að vera broddur í ljóðunum. Þetta eru ljóðabroddar. Ljóðin eru berorð, kaldhæðin og beitt og eiga að stinga og vekja til umhugsunar.

Ég ákvað síðan að skeyta nafninu „Metsölubókin“ fyrir framan til að tryggja bókinni þann titil í stað þess að vera háð einhverjum sölutölum og vinsældum en ekki síður til að Tómas Jónsson sé ekki einn um þá dýrð enda hefur hún aldrei farið þessum fretkarli neitt sérstaklega vel.

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

Viðtökur eru betri en ég átti von á, bæði frá konum og mönnum (hér er átt við karla, til útskýringar fyrir þær konur sem vilja frekar vera menn). Ég var dálítið hrædd um að ég gengi mögulega fram af fólki en svo virðist ekki vera. Sum ljóð hafa m.a.s. verið notuð í kennslu sem er afar ánægjulegt. Það hljóp þó einn hvítur, vambmikill, miðaldra karl í vörn en hann er að jafna sig.

 

Það fer vel á að enda þetta viðtal með ljóð úr bókinni og um leið þakkar Jóna sér fyrir sig.

 
 

Brjóst

Brjóst eru kynfæri

en aðeins kvenna

þess vegna þurfa karlmenn

ekki að hylja brjóst sín,

þó svo að fitukirtlar þeirra

séu gjarnan í samræmi við skvaplegt

holdið sem sumir bera svo virðulega.

Sumir karlar

eru með stærri brjóst

en ég.

En hættan er engin:

Konan örvast ekki

við ofvaxna fitukirtla karla.

 

Sums staðar mega konur ekki gefa brjóst

á almannafæri, eðlilega

það gæti slegið einhvern karlmanninn[1]

út af laginu.

En mögulega er þeim ekki sjálfrátt

blessuðum

enda ekki við því að búast -

strákar verða alltaf

strákar.

 
 

[1] eða hvaða kyn sem er, sem er augljós útúrdúr því einungis karlar setja reglurnar