SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 5. október 2017

ÉG HREIFST AF HREINSKILNI, EINLÆGNI OG STÍL - Viðtal við Dísu Sigurðardóttur

Júlía Margrét Sveinsdóttir hitti Dísu Sigurðardóttur yfir rjúkandi kaffibolla og ræddi við hana um ljóðlistina og hvernig það er að vera skáld í fullri vinnu við allt annað, eitthvað sem flest ung skáld kannast við.

Dísa Sigurðardóttir er 28 gömul, lauk B.A. gráðu í almennri bókmenntafræði 2013, M.A. gráðu í Ritlist 2015 og tók viðbótardiplóma í kennslu framhaldsskólanema árið 2016. Hún vinnur núna sem markaðsfulltrúi. Hún gaf út ljóðabókina Hvörf árið 2015, einnig eru örsögur eftir hana í Jólabókum blekfjelagsins árin 2013 og 2014. Dísa syngur í Gospelkór Jóns Vídalíns og kórin hefur flutt íslenska þýðingu hennar á erlendu lagi.

Hvað varð til þess að þú valdir bókmenntafræði og ritlist í Háskóla? ,,Mér finnst í minningunni eins og áhuginn á því að verða rithöfundur hafi kviknað þegar ég las Engla Alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson í 8. bekk í Breiðholtsskóla. Samt hafði ég lengi haft áhuga á því að yrkja ljóð, skrifa sögur og semja lagatexta - örugglega frá því ég var skrifandi. Ég hef alltaf verið viðloðandi söng og tónlist á einhvern hátt og ég hugsa að það hafi haldið mér í tengingu við ljóð og að semja - vera skapandi.

Ég naut mín alltaf best í skólanum þegar við máttum skrifa sögur eða yrkja ljóð. En ég held ég hafi ekki áttað mig á að þetta gæti verið starf fyrr en ég las þá bók. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi af prent- og skjámiðlagrafíkbraut árið 2009 skipti ég um stefnu og í stað þess að læra meira í umbroti ákvað ég að fara í HÍ í bókmenntafræði, eftir hvatningu frá Þóru íslenskukennara í Borgarholtsskóla.

Eftir BA og MA námið var ég ekki enn orðin 100% viss um hvað ég vildi gera en langaði að prófa auglýsingagerð. Í dag vinn ég sem markaðsfulltrúi þar sem ég sé um samfélagsmiðla, safna efni og skrifa texta í auglýsingar auk þess að sjá um þýðingar og annað tilfallandi. Ég er þannig að nýta bæði framhalds- og háskólamenntun í starfinu.”

Hverjir eru helstu áhrifavaldarnir?

,,Í fljótu bragði, líklega Einar Már Guðmundsson, Ingunn Snædal og Sigurbjörg Þrastardóttir. Ég hreifst af hreinskilni, einlægni og stíl í ljóðum Ingunnar og Sigurbjargar. En ætli það sem ég laðast helst að sé ekki tilfinningar og geta höfundar til þess að vekja tilfinningar lesandans og fá hann til þess að upplifa og tengja við eitthvað sem hefur kannski ekki einu sinni gerst í hans lífi.”

Hefurðu alltaf verið að skrifa og semja eitthvað?

,,Já, örugglega síðan ég var um níu ára aldur. Ég átti mikið af óbirtu efni þegar Hvörf kom út. Ég er alltaf með svona 3 hugmyndir í gangi, ég kann ekki að vera með 1 járn í eldinum í einu. T.d. gaf ég út ljóðabókina Hvörf, á eigin vegum í miðri prófatörn í kennslufræði, í desember 2015. Ég sá um kápuhönnun, umbrot og útgáfu líka svo það var alveg nóg að gera. Ég safnaði fyrir prentkostnaði í gegnum KarolinaFund og sá líka sjálf um alla markaðssetningu í kringum það. Vel á minnst, það eru nokkur eintök eftir!”

Mega lesendur eiga von á efni frá þér á næstunni?

“Eins og gerist oft í hvunndeginum, þá duttu skriftirnar niður hjá mér eftir skólatörnina, ég útskrifaðist og fór að vinna í fullu starfi og hreinlega setti þau ekki inn í nýju rútínuna. Ég er samt alltaf að skrifa eitthvað niður og geng með ýmislegt í maganum þessa dagana. Ég er komin með gamla góða fiðringinn aftur, svo það er ekkert ólíklegt að von sé á annarri ljóðabók bráðum, jafnvel einhverju öðru - hver veit?”

ástæður

á hafsbotni
finnast ótal ástæður

sturtað niður
ásamt maskarasvörtum
bómullarskífum
tíðablóði
og blautþurrkum

tárvotum snýtubréfum
og útrunnum pillum

þær sitja fastar í kóralrifum
vafðar í óuppleysanlegt plast
og flökta í taktlausum dansi

Hvörf, 2015