SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn14. október 2017

SKÁLDSKAPURINN ER SVAR - viðtal við Fríðu Ísberg

Fríða Ísberg

Fyrsta ljóðabók Fríðu Ísberg, Slitförin, kom út föstudaginn 13. október. Beðið hefur verið eftir bókinni með þónokkurri eftirvæntingu. Fríða hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar Íslenskra bókmennta 2017. Styrkirnir eru veittir árlega til höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum.

Brotist undan áhrifavöldum bernskunnar

Í umsögn bókmenntaráðgjafa Miðstöðvar Íslenskra bókmennta segir að ljóð Fríðu ,,fjalli á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum."

Heimspeki, ritlist og bókmenntagagnrýni

Fríða lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, og grunnprófi í heimspeki og meistaraprófi í ritlist við Háskóla Íslands. Fríða hefur birt ljóð í bókinni Ég er ekki að rétta upp hönd (Svikaskáld 2017) og í Tímariti Máls og menningar. Hún skrifar bókmenntarýni fyrir Times Literary Supplement og var einn af ritstjórum Meðgöngumála, smásagnaseríu Partusar.

Fríða Ísberg er komin í skáldatalið á skáld.is og svaraði nokkrum spurningum frá Ásu Jóhanns í tilefni útgáfunnar:

Slitförin eftir Fríðu Ísberg

Hvenær byrjaðir þú að skrifa fyrir alvöru Fríða?

,,Ég held að þetta hafi bara alltaf verið dauðans alvara. Sem barn þá var ég staðráðin í að verða rithöfundur, safnaði ljóðum og smásögum í græna harðspjaldamöppu. Sum ljóðanna má enn finna á ljod.is, flest frá 2002, þegar ég var 10 ára. Síðan þá má segja að ég hafi verið með bók í smíðum."

Hverjir eru helstu áhrifavaldar þínir?

"Ég komst í Steinunni Sigurðardóttur rétt fyrir menntaskóla og las allt eftir hana af Bókasafni Kópavogs. Ég sá að hún hafði gefið út sína fyrstu ljóðabókina þegar hún var 19 ára og það varð skilafresturinn hjá mér. 19 ára. Það varð ýmist sefun, hvatning og stressfaktor. „Fjúkk, heil tvö ár þangað til fyrsta ljóðabókin mín verður að hafa komið út.“ „Fokk, bara tvö ár þangað til fyrsta bókin mín verður að koma út."

Svo er auðvitað Sigurður Pálsson, hann hafði mikil áhrif á mína ljóðrænu hugsun, sem og annarra sem hann leiðbeindi eða kenndi. Stórkostlegur maður."

Hvert finnst þér hlutverk skáldsins í samfélaginu?

,,Ég er bara alin upp í of mikilli tómhyggju til þess að gera kröfu til eins eða neins. Ég skil ekki af hverju fólk skrifar ljóð. Mín besta ágiskun í augnablikinu er sú að skáldskapurinn er svar. Skáldskapurinn leitast við að svara tilverunni. Við lesendurnir ráðum svo hvort við viljum lesa þessi svör."

Sérðu fyrir þér að geta lifað á listinni?

,,Ég hef ekki hugmynd. Ég flutti út á land til þess að geta það. Sjáum hvað setur."

Hvað drífur þig áfram?

,,Metnaður og innblástur."

 
 
SLITFÖRIN
 
 héðan
segir hún og bendir
 
þú komst
út úr maganum á mér
 
áherslurnar hristast í
höndunum
 
eins og rimlar
 
nei
segir þú
ég fór þaðan
 

 

Ása Jóhanns