SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir25. febrúar 2023

UM HVAÐ Á MAÐUR AÐ YRKJA?

Elísabet Jökulsdóttir talar við Lindu Vilhjálmsdóttir.

Viðtalið birtist í tímaritinu HENDINGU árið 1991, en árið 1990 hafði Linda sent frá sér sína fyrstu ljóðabók, Bláþráð. Inn í viðtalið er bætt ljóðum úr bókinni sem Linda nefnir.

 

 

 

Þegar ég var að yrkja síðasta ljóðið í bókina, þá fann ég fyrir mikilli dauðahræðslu. Ég trúði því staðfastlega að ég myndi hníga dauð niður um leið og ég hefði lokið við að yrkja ljóðið. Ég sló því á frest um leið og ég vissi að það var ómögulegt. Ég hafði leigt mér sumarbústað til að ljúka við bókina. Ég vissi að það vantaði þrjú ljóð og Sólstafir var eitt af þeim. Þarna var ég að ljúka ákveðnum kapítula í lífi mínu. Ég var komin að leiðarlokum og hræðslan við dauðann helltist yfir mig. Það var eitthvað í mér að deyja. Og þó þetta væri ekki alvöru dauði, öllu fremur táknrænn, þá birtist hann svona raunverulega og ógnvekjandi. Ég fann allskonar skilaboð og áreiti í umhverfinu, sem sannfærðu mig um að ég myndi deyja þegar ég lyki ljóðinu.

 

- Mér finnst þetta magnaðasta ljóðið í bókinni. Ég var oft að pæla í því hvar villistúlkan væri. Það var svona villistúlka á vaxmyndasafni, í fjöruborði að spinna sér elskhuga eða hangandi upp við ljósastaura í nælonsokkum í rigningu. Seinna yrkirðu ljóð sem eru lokaðri og ljóð sem eru tengd landinu. En það var svo gott að sjá hana birtast í ljóðinu, Sólstafir, einsog hún væri að koma úr löngu og ströngu ferðalagi.

 

Sólstafir
 
Og ég man eftir morgni
í möðrudal á efrafjalli
og stúlku sem var þannig búin 
að ský huldi hana í framan
og rjómaskán ofan í mitti
og niður um hana féll snjóskriða
og hún stóð rétt eins og

 kerti

steypt úr tólg eða hvítri hraunleðju
sem í jaðrana tvinnaðist saman við fjaðrirnar
kríngum svanshaminn í götunni.
 
Þessi stúlka sýndist horfa í fjarskann
á eitthvað sem líktist stjörnu með hala
eða herskara álfta í hæstum hæðum
og svo spurði hún í einlægni:
Er þetta resept eða ástarbréf gæskur?
 
Og þegar ég rifja þetta upp
líður mér eins og hafnarstúdent
sem er nýstiginn á skipsfjöl.

 

Ég lýsi henni sem brúði. Hún er hulin skýi, með rjómaskán ofaní mitti og snjóskriðu. Það er eitthvað af Herðubreið þarna.

 

Hún heitir Linda
Hún er kvik í hreyfingum og snögg upp á lagið. Hún er með forvitið en dreymandi augnaráð og það kemur oft óvæntur hrekkjalómasvipur á andlitið. Fyrsta ljóðabókin hennar, Bláþráður, kom út fyrir síðustu jól. Gagnrýnandi einn sagði að ljóðabókin hitti sig eins og skræpótt búmmerang aftan úr forneskju sem væri óðar flogið aftur.
     Við höfum þekkst með hléum síðan við sátum saman í tíu ára bekk í Mýrarhúsaskóla. Og nú er viðtal. Svona er lífið skrítið og lítið.

- Eigum við að tala um ömmur?

 

Ég ólst upp á Grænumýri úti á Seltjarnarnesi. Ég átti ömmu þar. Hún hélt kostgangara og átti búr. Hún var kölluð: Amma niðri. Grænamýri var alvega sérstakur heimur. Það sést í ljóðinu Grænamýri, sem er í bókinni minni. Ég orti sem barn. Það var allt rímað. Ég orti tækifærisvísur og afmælisvísur. Ég hafði gaman af því að læra ljóð og í skóla höfðaði móðurmálskennslan til mín á sérstakan hátt. Það var eitthvað skylt við nautn. Svo komu unglingsárin og þá orti ég ekkert. Ég var í uppreisn og þegar ég var flutt úr betri bekk í verri, þá fannst mér það mjög ákjósanlegt að vera ekki í einhverjum englarassabekk. Ég fór svo í MR, það var hræðilegur skóli, allt svo rígbundið í hefðum. Ég lenti þar í síðasta stúlknabekknum. Íslenskukennslan var furðuleg. Það voru ekki bara lagfærðar málvillur, heldur var búið að breyta skoðunum okkar, þegar við fengum ritgerðir til baka. Ég hætti í skólanum og fór seinna í sjúkraliðanám.

 

Grænamýri
 
Sú gamla
steinhætt að höggva til sprekin á eldinn
og þarflaust að tala um að ræsa fram mýrina grannkona
nú er allt nýtt
nema konan sem klaungrast um hæðina
eins og beinakerlíng
tínandi upp rifrildi og rifrildi
konan sem hvæsir á krakkana
en gælir við gæsirnar gráu
kerlíngin karlsins
sem bograði ævilángt
skrollandi við hverfisteininn
brýndi hnífa á daginn 
ljáinn á kvöldin
og var á endanum farinn að gánga á beinin
og ég get svo sagt ykkur
að þessi kona hefur klær
og ennfremur
það þarf að kría úr úr henni eggin
en við skulum haga okkur vel
við erum í boði
svona glerfínar dömur
að plokka í rækju og krækiber.
 
 
- Hvað er að gerast núna hjá þér, eftir að bókin kom út?
 

Síðasta ár hefur allt verið að breytast. Ég hef tekið allt til endurskoðunar. Allt sem ég hélt uppá áður. Einsog Sylviu Plath. Ég held að þetta hafi komið í gegnum vinnuna við ljóðabókina. En ég hef alltaf tekið tímabil í að lesa þennan eða hinn. Ég les ljóð og ævisögu Sylvíu alltaf einu sinni á ári. Þá sekk ég mér niðurí hana og ekkert annað kemst að. Það er svona Sylvíumánuður. Svo fer annar mánuður í Marilyn Monroe. Ég á ægilega fína myndabók með Marilyn Monroe.

 

- Hvað hefurðu þá verið að lesa?

Ég kommentera bara á dauða rithöfunda. Ekki lifandi. En ég hef soldið verið að lesa „gömlu kallana“. Jónas og Jóhann Sigurjónsson. Jónas er misjafn en það jafnast ekkert á við bestu ljóðin hans. Einar Ben. finnst mér kynngimagnaður. Hann er ekki einsog Davíð, sem orðaflaumurinn er lifandi að drepa og alveg merkingarlaus á köflum. En ég er undrandi á skáldum einsog Einari Ben. og Jónasi, hvað þeir eru óskáldlegir í litavali. Oft ef mig vantaði lit hef ég leitað í ljóðunum þeirra, til að vita hvort ég gæti ekki stolið lit frá þeim. En þeir nota blátt til að mynda bara á tvo vegu, hafblátt og himinblátt. Þarna er súrrealisminn náttúrlega ekki kominn til sögunnar. Svo hef ég verið að pæla í áhrínsorðum. Til að nota þau í ljóð. Ég fór í þjóðsögurnar og las allt sem ég fann um kraftaskáld. Ég hef líka lesið allt sem ég hef komist í um prjónaskap ...

- Ha?

Já, ég hef verið á Þjóðminjasafninu, lesið húsmæðrablöð og gleypt í mig allt sem viðkemur prjónaskap og bróderíi. Konurnar í gamla daga hafa notað vefnað og hannyrðir til að tjá sig listrænt. Vissir þú að íslensku lopapeysurnar voru ekki prjónaðar hér fyrr en um 1950 og það var á 16. öld sem farið var að prjóna. Áður var allt ofið. Þá var það vaðmál.

- Ég hafði lesið ljóðin þín oft og mörgum sinnum, en þegar ég las bókina í fyrsta sinn skynjaði ég mikla virðingu fyrir tungumálinu. Það var einsog ákveðin tilbeiðsla. Eitthvað heilagt.

Ertu að meina að ég geri tungumálinu of hátt undir höfði? Ég reyni að brjóta upp staðlaða orðanotkun. Þegar ég var að vinna með græna litinn, datt mér í hug orðið: Guðsgrænn, sem er aldrei notað, nema um guðsgræna náttúruna. Ég segi í ljóðinu Glansmynd, að kýrnar séu guðsgrænar. Þetta er guðdómlegt orð, en það öðlast víðari merkingu og meiri dýpt, þegar því er beitt í öðru samhengi en venjulega. 

 

Glansmynd
 
Eins og hafið sé hagi
fyrir skærlitar kýr
guðsgrænar bítandi
 
og hrímbláa hesta
sem bera sig eins og hestar á beit
eru hestar á beit
 
innan um skúraðar skútur
og rósótta fogla og fiska
og máríu hafmeyju
 
í dag er allt eins og vorboðinn ljúfi
utan einstaka svífandi mávur
sem gargar að fjallinu
 
glansandi heiðinni fjallinu
sveitinni fínu:
Hér vantar þoku ellegar einglahár.
 
Í engey skín sólin
alltaf svo græn.
 

 

- Þú talar einsog málari.

Það er ekki nóg að segja blátt. Það er aldrei sami blái liturinn. Í bókinni minni eru: Aðalblátt, brimblátt, Íslandsblátt. Þetta eru þrír ólíkir litir, en margir hafa örugglega séð þessa liti. En þetta er partur af lýrikinni hvernig ég nota liti.

- Hvernig finnst þér Reykjavík á litinn?

Ég sé þessa liti aðallega úti í náttúrunni. En það fer eftir því hvar ég er í Reykjavík. Þegar ég var að labba hingað, var orðið skuggsýnt öðrumegin á götunni. Ég færði mig inní rökkrið og skoðaði kvöldsólina þaðan. Ég skoða heiminn mikið út frá birtu og litum. Ég á heima við Laugaveg og það er frábært útsýni yfir sundin. Ég sé útí Engey. Það er einsog það sé alltaf sól í Engey. En útsýnið er alltaf nýtt á hverjum degi vegna birtunnar, vegna litanna.

- Þú ert búin að yrkja í mörg ár. En afhverju gafstu ekki út bók fyrren núna?

Hvað er yrkisefni? Fyrir mér var þetta grunnspurning: Um hvað á ég að yrkja? Maður verður að vera sannur fyrir sjálfum sér. Ég vildi yrkja um eitthvað mikilfenglegt. Ég vissi eiginlega ekki hvað. Þetta voru svo stórar spurningar að þvælast fyrir mér. Þær skipta máli. Ég vildi rífa allt í sundur. Ég fór á rithöfundaþing eða námskeið í Biskups-Arnö í Svíþjóð. Ég var ægilega hneyksluð, þar var alls konar „guppearbejde“ og kjaftæði. Ég átti mjög erfitt með að ímynda mér að þetta hentaði skáldum. Það var farið með okkur í kastala Wranglers greifa, sem var samtíða Leónóru Kristínu. Við áttum að spásséra um kastalann og skoða hann með því hugarfari að yrkja svo ljóð. Þetta var fallegur kastali og þarna var mikið vopnasafn. Ég streittist á móti allan tímann og fannst fráleitt að yrkja ljóð eftir pöntun. En svo rann ljóðið uppúr mér um kvöldið. Þetta var meiraaðsegja ágætisljóð. En mér finnst að ef maður segir of mikið, sé það ekki ljóð, ekki skáldskapur. Maður verður að hafa einverskonar hemil á sér. Þó Göthe væri undarlegur maður á margan hátt, sem kom fram í allskyns dellu, birtist það aldrei í því sem hann lét fara frá sér. En oft þegar ég les ljóð, sem eru galopin, finnst mér ég vera að lesa brandara, en ekki ljóð. Þá vantar allt form. Það flóir bara allt útum allt og það eru engar gátur lengur. Ekkert til að spá í. Formið skiptir svo miklu máli. Alveg einsog málari, sem notar formið, til að ná fram áhrifum á huga og tilfinningar. Mér fannst ég of mikið í forgrunni í mínum ljóðum. Ég barðist hreinlega við þetta og fyrsta ljóðið sem kom eftir það, er ljóðið Uppvakningur. Auðvitað er allt í lagi að yrkja um sjálfan sig ef það tekst að koma því í listrænt form. Ég reyndi líka mikið að yrkja um dauðann. Ég hef séð svo margar óhugnanlegar myndir af dauðanum, því ég hef unnið svo lengi á spítala. Ég upplifi þetta sterkt, upplifi það tilfinningalega. En ég hef ekki getað komið því frá mér, ekki þannig að dýptin finnist, skilurðu.

 

Uppvakningur
 
Starandi 
í skammdegisskímu sjónvarpsins
á þúngan dökkan bókaskápinn
litríka kilina og tvær myndir af múmíu
sem hánga uppi yfir skápnum
 
höfuð og herðar og handleggur
aframmaður við olnboga
teygir sig yfir í næstu mynd
sem hefst við olnboga
og nær fram í fingurgóma
 
á milli myndanna
má greina handleggsbút:
olnbogalið. Og höggið
sem klýfur skápinn í tvennt
niður sturlúngu.
 
Og ég rek augun í orðin:
„Og nú vinna smádjöflar á mér.“
 
 

Ég skynja dauðann einhvernveginn sem sigur efnisins yfir andanum. Þetta ljóð sem átti að vera um dauðann, varð ástarljóð. Svo fannst mér þetta vera siðferðileg spurning. Hvað átti ég með að yrkja um dauða annars fólks? Taka dauða þess og nota í ljóð. Það er erfitt að hugsa um þetta, en ég kemst ekki hjá því.

- Finnst þér þú sækja áhrif frekar úr einum stað en öðrum?

Það er skrítið þegar maður er búinn að safna í sig. Og finnur að maður vill fara að skrifa. Þá er einsog lokist á manni hausinn. Ekkert til að hlusta eftir. Þá verð ég hrædd um að missa af einhverju. Þetta er tími sem maður missir. En maður verður að vinna sig úr út þessu og vita að það gerist ekkert hræðilegt þó maður missi af einhverju. Ég nota glósubók, ég safna í hana orðum og setningum, sem höfða til mín. Orð sem eru skrítin eða undarelg eða voðalega venjuleg.

Ég hef komist að því, að ég get notað þessi orð. Þau eru eins og lausn við gátum, sem ég glími við að leysa seinna. En svo hafa komið tímabil, þar sem ég hef trúað því, að ég geti aldrei ort aftur. Þá hef ég gripið til þess að skrifa upp glósubókina mína aftur og aftur. Svo hef ég komiið mér upp íkveikjusafni.

- Jæja?

Já til að kveikja í hugmyndum mínum. Það eru allskonar leyndarmál. Ég á líka náttúrugripasafn. Það eru furðulegustu minjagripir héðan og þaðan úr heiminum. Það merkilegasta við náttúrugripasafnið er, að ég veit hvaðan þessir hlutir eru. Hér er til dæmis mosi af Héðinshöfða, kastaníuhneta frá Versölum og mörðurinn sem Kristján Steingrímur gaf mér í jólagjöf. En þannig verð ég fyrir áhrifum úr ólíkum áttum. Mér finnst minningargreinar góður skáldskapur. Ég hef lesið heil ósköp af minningargreinum gegnum tíðina. Svo er mikill fróðleikur í ættartölum. Ég skemmti mér stundum við þær. Maður sér líka svo miklar breytingar á íslensku þjóðlífi þannig. Flestir hafa búið í sveit eða eru ættaðir þaðan. En það er oft einsog við viljum ekki horfast í augu við það. Maður sér þess engin merki í þessari borg. Ég furða mig oft á þessu gamla fólki, 80-90 ára. Það er einsog það vilji ekki muna þessa gömlu vondu tíma. Amma er kannski að horfa á enska fótboltann, þegar ég kem í heimsókn. Þetta gamla fólk hefur aðlagað sig svo ótrúlega. Hlustar kannski á rás 2 eða jafnvel enn verri stöðvar. Ég stend mig að því að vera íhaldssöm að því leyti að ég vil ekki hlutsta á síbylju. Það er líka merkilegt hvað allar tækninýjungar hafa verið hraðar og fók er tilbúið til að gleypa í sig hverja nýjungina á fætur annarri. En svo er það íhaldssamt í listum. Það er enn að fussa yfir „atómskáldskap“ eða „klessumálverkum". Og ekki síður yngra fólk. Þegar ég bjó á Grænumýri voru tækniundrin þar bara Westinghouseísskápur og nokkrar bílbeyglur sem stóðu á hlaðinu. Síðan hafa gerst ótrúlegir hlutir. Fólk er líka íhaldssamt í mannlegum samskiptum, þegar kemur að því að breyta lífi sínu.

 

 

 

 

Mynd af Elísabetu: Jim Smart