SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir17. desember 2023

ÞETTA ER ÆVINTÝRI FYRIR SUMA EN RAUNVERULEIKI FYRIR AÐRA - Viðtal við Vigdísi Grímsdóttur

 

Nú í haust sendi Vigdís Grímsdóttir frá sér magnaða og heillandi skáldsögu sem ber heitið Ævintýrið og segir frá óvæntri vináttu Drengs og Fisks og samfélaginu sem þeir lifa og hrærast í. Sagan er einstaklega fallega skrifuð en með hjálp ævintýrsins fjallar Vigdís á áhrifaríkan hátt um málefni sem koma okkur öllum við: misskiptingu valds og auðs, fátækt og kúgun. Bókin er fyrsta skáldsagan sem Vigdís sendir frá sér í um áratug og á dögunum var verkið tilnefnt til Fjöruverðlaunanna. Ég mælti mér mót við Vigdísi og ræddi við hana um Ævintýrið og skáldkisur sem hún hefur málað af kappi síðustu ár.

 

 

Innilega til hamingju með Ævintýrið. Strax í upphafi bókar er lesanda greint frá því að sagan gerist í heitasta landi heimsins; hvaða land er þetta?

Þetta er Djíbjútí í Afríku, sem á landamæri til dæmis að Eþíópíu. Hinum megin við sundið, sem landið liggur við, er síðan Jemen. Meðaltalshitinn er hæstur þarna í heimi en þetta er auðvitað ævintýri og maður breytir í þökk þess.

 

Hvernig stóð á því að þetta sögusvið varð fyrir valinu?

Ég fór að heimsækja dóttur mína, tengdason og barnabarn sem búa þarna. Ég var hjá þeim í sex mánuði og kynntist heilbrigðiskerfinu af eigin raun bæði á spítala og á götunni, þar sem það virkar ekki. Þú verður semsagt að eiga peninga því einkavæðingin er svo fullkomin að þeir sem ekki hafa þá, sem er stærsti hluti þjóðarinnar, gengur á brotinu. En ég fékk eitrun í fót og fékk lækningu á þremur mánuðum á spítala.

 

 

Þessi stéttaskipting sem þú nefnir kallast á við samfélagsgerðina í bókinni, getur þú lýst þessu samfélagi aðeins betur?

Það er margt fólk sem býr þarna og það er mjög mikið atvinnuleysi. Þeir sem hafa vinnu, og tilheyra þeim hópi sem við köllum almenning, eru í láglaunastörfum ef þeir fá eitthvað nema mat. Þetta fólk, sem er stór hluti þjóðarinnar og telur líka flóttafólkið sem kemur frá löndunum í kring, býr í einhverju sem heita hreysi í bókinni, Ævintýrinu, en er þeirra híbýli. Það er sko ekki Híbýlaprýði Hallarmúla heldur eru það raunveruleg híbýli og þau eru eins og segir frá í sögunni: plastdósir og einstaka spýta og svo er oft breitt yfir þetta teppi. Síðan koma rigningar, sem eru nú sjaldan en það eru monsúnrigningar, og þá fýkur heimilið þitt og þú þarft að fara áfram af stað og þess vegna eru margir förumenn í landinu. Fólk sefur linnulaust undir trjánum því það á hvergi heima og mun ekki sjá fram á að geta einu sinni komið sér upp hreysi. Þetta er mjög stéttaskipt samfélag. Í kringum fátæka fólkið eru hallir en þar búa þeir sem bæði stjórna og hafa peninga eins og sand á meðan að almúginn sveltur.

Litlar stelpur koma til manns með svartar tennur af því að þær eru búnar að tyggja svo mikið af katti – sem er löglegt eiturlyf í þessu landi, eina landinu í heiminum. Það er talið að 93% þjóðarinnar tyggi katt og það er vegna þess að í atvinnuleysinu þarf fólk að njóta einhvers. Forseti lýðveldisins er svo góður að hann leyfir fólki að gera þetta óáreitt svo það geti þolað dagana, dansað á torginu, sungið undir trjánum og þolað skítadjobbin, þessa hræðilegu og erfiðu vinnu sem það hefur. Þess vegna er katt leyft, það er í þágu ríkisins og hans sem býr í ótrúlega fallegri höll með varðmönnum í kring. Undarlegt!

Þetta er mjög óhugnanlegt. Þegar maður hefur góðan tíma getur maður kynnst fólki og það gerði ég. Ég er enn í sambandi við stelpu sem gat ekki bjargað sér á ensku heldur talaði bara arabísku. Vegna þess að ég kynntist henni beint get ég styrkt hana til mennta án þess að fara í gegnum hjálparsamtök eins og ABC en þarna er menntun auðvitað algjört aukaatriði fyrir fólk sem hefur ekki vinnu eða peninga.

 

Þessi lýsing rímar vel við samfélagið í bókinni þinni. Lýsingar á því og reglufestunni sem þar ríkir vekja hjá manni óhug; það má til dæmis ekki taka á móti flóttamönnum, börn fá ekki að fara í skóla og aðgangur að interneti er mjög takmarkaður.

Síðasti hlutinn er skáldaður en á þó líka við. Ég komst ekki inn í alla kima samfélagsins í Djíbjútí en ég held að þar sé miklu meiri reglufesta og stjórnin nær fasisma en er í bókinni og nóg er það nú samt. 

 

Lýsingarnar í sögunni minntu mig dálítið á samfélagið sem birtist okkur í dystópíunni Trúir þú á töfra? nema að í þessu tilviki stendur það okkur í raun nær eða hvað segir þú um það?

Jú það passar. Síðan sú bók kom út eru liðin um tíu ár og samfélagið okkar hefur breyst og færst í þessa átt. Það sjáum við á því að það eru tuttugu þúsund manns sem eru fátækir á Íslandi og 12 til 13 þúsund sem eru í neyðarfátækt, sem kölluð er, þar sem börn fá ekki mat og það er ekki hægt að kaupa jólagjafir. Það kom út svört skýrsla í mánuðinum um stöðuna, sem hefur versnað mjög mikið síðustu ár. Þegar hún var kynnt var öllum þingmönnum og ráðherrum boðið og veistu hvað margir mættu? Einn! Það var verið að kynna fólkið okkar, sem er svona fátækt, en það vill enginn sjá það. Og það er að gerast hér, eins og þarna úti, að fólki finnst óþægilegt að horfa upp á þessa fátækt svo það lítur undan.

 

Einmitt, og þótt sagan þín gerist vitaskuld ekki á Íslandi þá rímar ýmislegt sem þar kemur fram við íslenskt samfélag; hér veigrar fólk sér kannski almennt við að viðurkenna stéttaskiptinguna?

Já, það vill ekki viðurkenna hana. Það eru ennþá margir sem segja að Ísland sé stéttlaust land, en stéttaskiptingin er alveg svakaleg. Og líka snobbið sem eyðileggur alla hluti. Þegar menn telja sig yfir aðra hafna, þeir geti étið meira og keypt dýrari bíla og búið fínna en aðrir menn af því að þeir eru úr einhverju öðru efni. Ónei! Og svo er spurningin: „ætlið þið að fara með þetta allt með ykkur?“ Nei, þeir koma þessu fyrir áður en þeir deyja; hið illa fengna fé.  

Þessu er lýst í bókinni minni sem fyrir mörgum er kannski ævintýri sem hugsanlega gæti farið í taugarnar á einhverjum og allt í lagi með það. En þetta er í rauninni bara glæpasaga handa börnum – eins og bókin átti upphaflega að heita og vinnuheitið var: Drengur og Fiskur: Glæpasaga handa börnum. Og einhvern veginn finnst mér eins og sagan heiti það undir niðri. Þetta er ævintýri fyrir suma en raunveruleiki fyrir aðra. Þetta er semsagt glæpasaga handa börnum og hefði átt að vera tilnefnd til Blóðdropans!

 

Já það hefði nú verið viðeigandi! Þú hefur áður skrifað á einstakan hátt um börn og jafnvel frá sjónarhorni þeirra og það sama gildir í þessari bók því aðalpersónan og vitundarmiðja sögunnar nefnist Drengur og er ungur strákur. Hvers vegna kýstu að nota sjónarhorn barns til að segja söguna?

 

Þetta er náttúrulega barnsleg saga. Öll túlkun á öllu í henni er barnsleg. Barnið er svolítið kotroskið, eins og oft er í bókum um börn, þannig að það sér betur en kannski venjan er. Þegar maður skrifar ævintýri er sjónarhorn barnsins mjög gott og ég var að vona það að börn læsu þessa bók, kannski ekki ein og sér heldur með öðrum. Og ég hef reyndar fengið bréf þar sem fólk segist vera að lesa bókina fyrir börn og útskýri söguna fyrir þeim þegar spurningar vakna. Það gleður mig því þetta er bók um börn fyrir börn á öllum aldri, sem eru fleiri en börnin. Því miður geta sum börn samt ekki breytt sér í fisk en það geta menn í ævintýrum.  

 

Vinátta Drengs og Fisks er undurfögur, getur þú sagt mér frá sambandi þeirra?

Þetta er saga um dýrmæti vináttunnar sem helst alla tíð. Svo geta menn spurt sig ef þeir nenna því: „gekk þetta upp?“ Samkvæmt okkar lögmálum gerir það ekki. En öll vinátta, hvernig svo sem hún er, gengur upp. Það fer kannski allt frá þér en ekki vinir þínir, ekki fyrr en dauðinn aðskilur.

 

Fiskur breytir lífi Drengs, ekki satt?

Jú hann gerir lífið markverðara. Drengur verður eftirtektarsamari. Fiskur kennir honum og kannski er hann bara hluti af honum sjálfum. Stundum fer Fiskur í vasann hjá Dreng, þegar enginn má sjá hann, og þá talar Drengur við hann þar. Og svo stækkar Fiskur þegar þeir vinirnir eru saman á götunni og þá verða þeir eins. En fiskilyktin hverfur aldrei og það er auðvitað Guðinu að kenna sem hefur sköpunarhæfileikann; hann gleymir að taka hana.

 

Fiskur og Drengur kynnast ýmsum áhugaverðum sögupersónum, þar á meðal gamalli konu, getur þú sagt mér aðeins frá henni?

Hún er ein af þessum gömlu konum sem ég hitti og var förukona. Hún var að vísu ekki með poka á bakinu með töfradufti heldur reyndi hún að safna einhverju sem hún gæti sett upp á næsta bás til að selja. Þessi sem ég hafði mestan áhuga á, og er í bókinni, hún fylgist með alveg frá fyrstu síðum af því hún ætlar þessum strákum, og sérstaklega Dreng, ákveðið hlutverk sem þau síðan rækja saman því líkt og títt er í ævintýrum fara þau í ferðalag. Hún er líka konan sem missir vonina, það eina sem þú mátt ekki missa ef þú ert manneskja. En það eru margar svona konur í dag sem eru að missa vonina.

 

Sonur gömlu konunnar er Sveðjumaður en í sögunni segir að þeir séu ekki endilega verri menn en aðrir. Hvert er hlutverk þeirra í samfélaginu?

Sveðjumenn taka af lífi sjávardýr og þá sem fyrir verða ef þeir eru fyrir. Til þess að þeir sjái ekki illvirki sín eru þeir blindaðir en það getur verið að þeir finni til eins og aðrir menn. Sonur gömlu konunnar getur seinna í sögunni valið sér annað hlutverk og maður getur sagt sér sjálfur hvort það er betra; það sem hann fær eða það sem hann var.

Konan hans hefur farið frá honum og hann býr í hreysi og er fátækur en eins og stelpurnar hans segja þá er hann góður maður. Hann hugsar um pabba sinn, sem hefur sín örlög þarna í ævintýrinu í sínum græna stól. Ég sá menn eins og pabbann sem eru lamaðir eftir vinnu, eftir grjótburð og annað. Þetta eru menn sem eru kannski ekki meira en fimmtugir eða sextugir. Ævintýralegt!

 

Fiskur og Drengur fara með gömlu konunni, syni hennar og sonardætrum á fund Drottningarinnar sem er mjög forvitnileg persóna.

Drengur hefur vitað af henni frá því að hann fór í eitt skipti á bókasafnið og las viðtal við hana þar sem hún segist taka vel á móti fólki. Það veit auðvitað gamla konan því hún veit allt en þau fara saman, komast inn fyrir hliðið að höllinni og í fylgd hermanna fara þau á fund drottningar og fá hvert um sig að spyrja hana spurninga sem hún svarar.

 

Eða svarar kannski ekki… 

Nei hún svarar þeim bara eins og pólitíkus í dag svarar þegar hann er spurður og er búinn að mála sig út í horn og vill ekki viðurkenna það. Síst af öllu dytti nú þessari drottningu í hug, jafn falleg og yndisleg og hún er, að hætta og bjóða upp á annað þjóðskipulag en fasisma. Nei, það gengur ekki. Annars eru svörin hennar byggð á svörum pólitíkusa, bæði íslenskra og erlendra.

 

Svo innblásturinn að Drottningunni kemur frá stjórnmálamönnum?

Já það má segja það. En þetta byrjaði samt allt saman með mjólkinni. Það er að segja þegar að forseti Djíbjútí bannaði innflutning á mjólk af því að dóttir hans var að flytja inn þurrmjólk. Hann vildi styðja við hennar fyrirtæki og þá fékk fólk ekki að kaupa aðra gerð af mjólk. Út frá þessu spannst síðan persónan.

 

Bókin heitir Ævintýrið og formgerð þeirrar bókmenntagreinar markar söguna á marga vegu; hvers vegna ákvaðstu að nýta þér einkenni ævintýrsins?

Mér fannst það áhugavert. Ég er ekkert hrifin af klínískum lýsingum og ævintýrið gefur möguleika á svo mörgu, eins og að persóna geti breytt sér í fisk og mann til skiptis – það er ævintýrískt. Ævintýrið hentaði líka vel til þess að allir aldurshópar gætu lesið bókina.

 

Í dag tengja flestir ævintýri við sögur sem enda vel og sjá jafnvel fyrir sér sykurhúðaðar Disney kvikmyndir, en sagan þín er ekki þannig ævintýri heldur er hér ekki síður dregin upp hin dökka mynd óhugnaðarins sem gömlu ævintýrin voru þekkt fyrir, hvers vegna?

Já einmitt, eins og gömlu ævintýrin voru áður en þau voru eyðilögð. Eins og strákurinn sem sagði: „þetta er miklu betra!“, þegar ég var að lesa fyrir hann Öskubusku og systurnar voru að saga af sér hælana. Og þegar hann sagði að þetta væri allt öðruvísi Öskubuska en hann þekkti sagði ég honum að hinar sögurnar væru bara platÖskubuskur, því þar er allt það ljóta tekið, öll grimmdin og óhugnaðurinn. Grimma stjúpan er til dæmis slitin í sundur af tveimur óhemjum í eldri gerðum. Og hvað gera börnin? Þau bara loka bókinni og segja: „þetta er ævintýri“. Og það ættu börn kannski að geta gert þegar þau lesa söguna mína, þau sem ekki búa við þessar aðstæður, hin geta það ekki og fullorðnir vonandi ekki heldur ef þeir nenna að lesa.

 

Þótt óhugnaðurinn fái gott rými í sögunni skiptir ekki minna máli fegurð vináttunnar, er hún að einhverju leyti aðferð til að lifa af erfiðar aðstæður?

Já, er það ekki bara þannig hjá okkur öllum? Þú getur ekki leitað neitt nema þangað þegar þú ert ekki búin að týna voninni. Á meðan þú hefur vonina getur þú labbað um allt og dreift fegurðinni frá þér eins og gamla konan í sögunni gerir. En þegar vonin er tekin og snúin á háls og strjúpinn stendur eftir þá getur þú það ekki. Og það er að gerast hjá gömlu konunni, hún er búin að missa vonina. 

 

Eins og mörg önnur verk eftir þig er texti sögunnar fallega ljóðrænn sem magnar lestrarupplifunina og töfra sögunnar. Svo er líka mikil tónlist í textanum, hvaðan kemur innblásturinn?

Þetta er allt saman umhverfið. Ég held að ef það er eitthvað svoleiðis í þessum bókum sem ég hef skrifað, og í Ævintýrinu, þá er það tónlistin í umhverfinu sem fer inn í hjartað. Þetta er voða einfalt og tilfinningalegt þó það sé ljótt að segja það. Ég hef líka oft spilað tónlist þegar ég skrifa og þá getur hún runnið inn í textann en í þessu tilviki var það bara umhverfið sem ég var í – það er tónlistin.

 

Kápan á bókinni er virkilega flott, hvað getur þú sagt mér um hönnun hennar?

Já hún er falleg þessi kápa. Hún heitir Elín Mejergren sem gerði hana og hún er svo vandvirk að hún var þrjár vikur að finna rétta pappírinn. Þessi upphleyping á kápunni er fiskur, þannig að það er roðkennd upplifun að strjúka yfir kápuna.

Bók er ekki bara bók það skiptir líka máli hvernig hún er sett fram, hvernig er lagt á síðurnar og það gerir Guðrún Vilmundardóttir svo fallega. Hún leyfir letrinu að anda og hefur góðar spássíur svo bætti hún líka við litlum fiskum á síðurnar. Þegar það er sett svona mikil ást í að leggja á síðurnar þá verður þetta að bókverki. Mig verkjaði af gleði þegar ég fékk bókina í hendurnar.  

 

Þú skrifar ekki bara bækur og teiknar þannig upp magnaðar myndir heldur málar þú líka málverk. Finnst þér eitthvað líkt með því að skrifa og mála?

Þetta er bara það sama. Ég hef alltaf teiknað og málað frá því að ég var barn. Málað mig út úr fýlu og myndskreytt bækur sem ég mátti ekki teikna í. Þetta er bara önnur hlið á því sama, þetta er tjáning, þetta er sköpun og þetta er sköpunargleði. Og það er eitt af því sem er svo mikilvægt þegar krakkar eru að læra að lesa að þau fái að skapa heiminn við hliðina á bókinni. Þetta er bara svoleiðis. Stundum er þetta blár heimur, stundum er hann rauður en hann er alltaf sköpun. Það er í sköpun í öllu, smákökunni sem maður bakar og matnum sem maður eldar. Allt fólk er alltaf að skapa. Mér finnst mjög gaman að skrifa og mála, það er það sem ég skapa. Ég baka ekki. Svo kem ég í hús þar sem ég öfunda fólk sem hefur gert allt sjálft. Og það er líka sköpun.

 

Á málverki, sem þú sýndir nýlega í Hannesarholti, og örugglega einhvers staðar í Matteusarguðspjalli líka, stendur: „Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur sköpunarinnar rann upp og þá sagði Guð „Jörðin leiði fram lifandi skepnur og eftir sinni tegund að ógleymdum skáldkisunum, hverri eftir sinni tegund, en þeirra hlutverk er að segja og skrifa sögur af allri sköpun alla daga í myrkri og ljósi. Allt til enda heimsins.“ Og Guð sá að þetta var harla gott.“ Hvers vegna ákvaðstu að byrja að mála skáldkisur?

 

Mig langaði til að mála allar íslenskar skáldkonur. Ég er kannski búin með einn þriðja, kannski aðeins meira, en það eru alltaf að bætast fleiri konur í hópinn. Einhvern tímann verð ég að stoppa en ég veit ekki hvenær það verður. Ég mála bæði skáldkonur sem eru dánar og þær sem eru lifandi og ég les allar bækurnar þeirra og vel texta upp úr þeim eða viðtölum við konurnar og skrifa hann á myndirnar. Svo þetta er vinna en rosalega skemmtileg vinna.

Textinn um skáldkisurnar er fenginn beint úr Biblíunni. Það var einmitt kona sem sagði að hún hafði ekki áttað sig á að það var smá breyting á textanum, hana hafði nefnilega alltaf minnt að þessar skáldkisur væru í Biblíunni en sennilega hafa ekki allir séð það. En þetta verkefni sameinar mynd og texta og þetta eru allt saman kisur sem ég mála. Ég elska ketti sennilega því ég er með ofnæmi fyrir þeim.

 

Málar þú þá ekkert annað en skáldkisur?

Jújú en bara kisur. Skáldkisurnar eru dálítið sérstakar því þær eru líkari konum en köttum en ef maður skyggnist betur í þær þá sér maður að þetta eru kisur. En hvað með það? Kisa og kona – hver er munurinn?

 

Þú sagðir um daginn í viðtali við Jakob Bjarnar að þú værir fallin og dottin í skáldskaparskrifin, merkir það að við eigum von á fleiri verkum frá þér í bráð?

Það kom út eins og ég væri algjörlega dottin í það og búin á því en það er nú ekki. En já allavega mun ég halda áfram að skrifa, mig langar það. Ég hef sagt við sjálfa mig að hætta en ég get það ekki. Og þegar það verður að ég get það ekki veistu hvað ég ætla þá að gera? Ég ætla að leggjast undir tré og þá deyr vonin því í sköpuninni felst vonin og við megum aldrei tapa henni.

 

Ég þakka Vigdísi innilega fyrir gott spjall og mæli eindregið með nýju bókinni.